Hvers vegna poppar maís?
Einfaldasta skýringin á því hvers vegna poppmaís poppar er að inni í korninu er örlítið af vatni, tæp 15%, sem breytist í gufu þegar það hitnar. Gufan leitar inn í sterkjuna í korninu og þegar hún þenst út sprengir hún utan af sér harða skelina sem umlykur kornið.
Aðrar tegundir af maís hafa ekki eins harða skel utan um sterkjuna og poppa því ekki þrátt fyrir að innihalda vatn. Kornið poppar þegar þrýstingurinn inni í korninu nær hámarki við um 180 °C.
Ekki er vitað hver „fann“ upp poppkorn en neysla þess er þekkt langt aftur í aldir í Mexíkó og Mið-Ameríku. Í Nýju-Mexíkó í Norður-Ameríku hafa fundist áhöld sem hugsanlega hafa verið notuð til að poppa í og ríflega 4.000 gamall poppmaís sem reyndist auðvelt að poppa þrátt fyrir háan aldur.
Í dag er vinsælt að fá sér popp í bíó eða fyrir framan sjónvarpið á kvöldin. Frásagnir um fyrsta landnám Evrópubúa þar sem popp stóð til boða segja að þeir hafi borðað það í morgunmat með ávöxtum, sykri og rjóma.