Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Úr mjólkurstöð MS á Selfossi. Mjólkursamsalan er langsamlega stærst afurðastöðva á Íslandi. Aðrar afurðastöðvar hafa náð að hasla sér völl á íslenskum mjólkurmarkaði þó að hlutdeild þeirra sé töluvert minni.
Úr mjólkurstöð MS á Selfossi. Mjólkursamsalan er langsamlega stærst afurðastöðva á Íslandi. Aðrar afurðastöðvar hafa náð að hasla sér völl á íslenskum mjólkurmarkaði þó að hlutdeild þeirra sé töluvert minni.
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 5. október 2021

Íslensk mjólkurframleiðsla 101

Höfundur: Herdís Magna Gunnarsdóttir formaður kúabænda

Á dögunum var kosið til Alþingis að nýju og hefur töluverð endurnýjun þingmanna orðið. Við í hagsmunagæslu bænda fáum margar spurningar um starfsumhverfi mjólkurframleiðslunnar frá frambjóðendum, enda getur það virst ansi óárennilegt fyrir leikmann að setja sig inn í kerfið þar sem ólíkir angar þess tvinnast saman í eina heild.

Íslensk mjólkurframleiðsla er í stöðugri þróun sama á hvaða svið greinarinnar er litið. Í dag er framleidd mjólk á 523 bæjum hringinn í kringum landið og þó svo framleiðendum hafi fækkað í gegnum tíðina hefur hlutfallsleg fækkun milli svæða haldist nokkuð jöfn. Í núverandi kerfi er söfnunarskylda á markaðsráðandi afurðastöð og flutningsjöfnunarkerfi sem hvort tveggja er grundvallarforsenda þess að halda uppi framleiðslu í öllum landshlutum.

Mjólkurframleiðsla á Íslandi er ansi tæknivædd miðað við önnur ríki og í árslok 2019 voru lausagöngufjós með mjaltaþjóni orðin algengasta tegund fjósa hérlendis og hlutfall mjólkur sem kom frá mjaltaþjónum tæp 56% af heildarinnvigtuninni, sem er að öllum líkindum heimsmet. Aukin tæknivæðing hefur ekki einungis jákvæð áhrif á starfsumhverfi bænda heldur er framleiðsla hverrar kýr meiri í lausagöngufjósum en básafjósum og eykst enn frekar með mjaltaþjóni. Framleiðsla hverrar mjólkurkýr hefur aukist um rúm 50% á 30 árum og eykst með hverju ári. Við þurfum því færri gripi til að standa undir meiri framleiðslu.

Viðskipti með greiðslumark. Mynd / Úr Skýrslu RHA

Framleiðslustýring

Árið 2019 kusu mjólkurframleiðendur um hvort kvótakerfi í mjólkurframleiðslu skyldi afnumið. Tóku tæplega 90% kúabænda þátt og vildu tæplega 90% þeirra halda kvótakerfinu en rúm 10% sögðust vilja afnema það. Var það svo lögfest með endurskoðun búvörusamninga seinna sama ár.

Fyrir hvert ár er gefið út heildargreiðslumark, oftast kallað kvóti, sem byggist á söluspám þess árs. Þannig er komið í veg fyrir bæði skort á mjólk og óhóflega umfram framleiðslu. Mjólk sem framleidd er umfram greiðslumark, oft kölluð umframmjólk, er skylt að flytja út.

Heildargreiðslumarkið hefur haldist í 145 milljónum lítra undanfarin ár en hafði þá vaxið hratt á árunum þar á undan. Þegar heildargreiðslumark hækkar eða lækkar skiptist breytingin hlutfallslega niður á greiðslumarkshafa á sama hátt og greiðslumark síðasta árs. (Sjá töflu 1)

Hver bóndi á ákveðið magn greiðslumarks sem gefur lágmarksverð frá afurðastöð fyrir framleiðsluna innan þess sem og að hluti beingreiðslna er greiddur út á greiðslumarkið. Mjólk framleidd utan greiðslumarks gefur bæði af sér lægri beingreiðslur og að það er ekki greitt fyrir hana lágmarksverð heldur verð sem ákveðið er af afurðastöð og miðar við skilaverð í útflutningi. Það er því hagur bænda að eiga greiðslumark fyrir sem mestri af sinni framleiðslu hverju sinni. Þá er einnig 100% framleiðsluskylda sem þýðir að bændur fá ekki fullar beingreiðslur nema með því að framleiða að fullu uppí greiðslumarkið sitt. (Sjá töflu 2)

Viðskipti með greiðslumark

Bændur geta keypt sér greiðslumark í gegnum miðlægan kvótamarkað þar sem allir sitja við sama borð. Markaðurinn byggist upp á jafnvægisverði milli kaup- og sölutilboða og þá fara öll viðskipti fram á sama verði. Í dag er þó hámarksverð á markaði sem nemur þreföldu afurðastöðvaverði. Hefur verð á mörkuðum frá því hámarksverð tók gildi ávallt numið því verði. Nýliðar hafa forgang í 5% af því magni sem er í boði hverju sinni. Helsta áskorunin í dag er lítið framboð en mikil eftirspurn eftir greiðslumarki. Neikvæða hlið þess er sú að bændum sem hafa stækkað bú sín reynist erfitt að fá kvóta og þar með fullnýta sína framleiðsluaðstöðu en jákvæða hliðin er sú að framleiðsluvilji er mikill og fólk vill vera í greininni.

Síðastliðin 20 ár hefur hlutfallsleg skipting greiðslumarks eftir landshlutum ekki breyst mikið. Þó hafa tveir landshlutar, Suðurland og Norðurland vestra, verið yfir landsmeðaltalinu í vexti greiðslumarks síðustu árin. Höfuðborgarsvæðið var með hraðan vöxt framan af en síðan hefur það dregist aftur úr, en hafa ber í huga að þar er magnið ekki mikið. Frá 2005 hafa Vestfirðir dregist áberandi aftur úr öðrum landshlutum í vexti greiðslumarksins.

Opinber verðlagning

Verðlagsnefnd búvara er skipuð og starfar eftir ákvæðum búvörulaga. Hún ákveður afurðaverð til búvöruframleiðenda og verð búvara í heildsölu, en síðustu ár hafa verðákvarðanir nefndarinnar eingöngu varðað mjólkurframleiðslu. Þar er ákveðið heildsöluverð á m.a mjólk, smjöri, osti og dufti. Verðlagsnefnd ákveður einnig lágmarksverð til bænda. Landssamband kúabænda og Bændasamtök Íslands hafa ítrekað óskað eftir uppfærðum verðlagsgrunni kúabúa sem nýttur er við útreikninga innan nefndarinnar, enda er núverandi grunnur yfir 20 ára gamall og þarfnast sárlega uppfærslu.

Mjólkurvinnsla

Auðhumla er samvinnufélag í eigu um 500 mjólkurframleiðenda um land allt og hefur það hlutverk að safna allri mjólk frá félagsmönnum sínum og umbreyta í mjólkurafurðir með aðkomu sinni að Mjólkursamsölunni ehf.

Auðhumla er móðurfélag Mjólkur­samsölunnar ehf. með 80% eignarhlut til móts við 20% eignar­hlut Kaupfélags Skagfirðinga svf.

Mjólkursamsalan er langsamlega stærst afurðastöðva á Íslandi. Aðrar afurðastöðvar hafa náð að hasla sér völl á íslenskum mjólkurmarkaði þó að hlutdeild þeirra sé töluvert minni. Mjólkursamlag KS, Arna, Bio bú og Rjómabúið Erpsstöðum eru þar stærstar og auk þess er talsverður fjöldi lítilla heimavinnslna sem bændur framleiða mjólkurvörur úr hluta af eigin framleiðslu.

Söfnun, meðferð og vinnsla mjólkur er flókið og kostnaðarsamt ferli og í mjólkurvinnslu er veruleg stærðarhagkvæmni. Vegna þessa geta verið talsverðar tæknilegar aðgangshindranir fyrir nýja vinnsluaðila.

Vænsta leiðin til að ýta undir samkeppni í mjólkurvinnslu væri væntanlega að auðvelda einstaklingum að hefja slíkan rekstur. Söfnunarkerfi hrámjólkur og dreifingarkerfi mjólkur til smárra vinnslustöðva sem hefur verið byggt upp af Auðhumlu og stýrt af MS hafa lækkað þær tæknilegu aðgangshindranir sem felast í mjólkurvinnslu.

Margt í kerfinu ýtir undir og auðveldar starfsemi smærri vinnslu­aðila eins og að:
  • Minni aðilar hafa hvorki móttöku- eða söfnunarkskyldu á mjólk frá bændum og geta því pantað án skilyrða og takmarkana það magn mjólkur sem hentar þeirra vinnslu hverju sinni algjörlega óháð mismunandi framleiðslu bænda eftir árstíðum.
    Minni aðilar hafa aðgang að úrvals hrámjólk án þess að hafa þörf eða skyldu til að leggja í kostnað við tækni og aðstöðu til prófunar og gæðaeftirlits hrámjólkur frá bændum.
  • Minni aðilar þurfa ekki að tryggja framboð allra vörutegunda allt árið um kring.
  • Allar vinnslustöðvar fá hrámjólk á sama opinbera verði frá afurðastöð.
  • Smærri vinnslustöðvar þurfa ekki að greiða sérstaklega fyrir flutning að vinnslustöð sinni en fjarlægðir í dag geta farið upp í 600-950 km, báðar leiðir.
  • Til að létta undir með smærri vinnsluaðilum gefur Auðhumla smærri vinnsluaðilum hverjum um sig afslátt upp á fyrstu 300.000 lítrana sem þær vinna.
Undanþáguheimild – Hagur bænda og neytenda

Í 71. grein búvörulaga er afurðarstöðvum í mjólkuriðnaði veitt undanþága frá ákvæði í samkeppnislögum sem felst í því að þeim er þar gert heimilt að sameinast, gera með sér samkomulag um verkaskiptingu milli mjólkursamlaga að því er varðar framleiðslu einstakra mjólkurvara og hafa með sér annars konar samstarf til þess að halda niðri kostnaði við framleiðslu, geymslu og dreifingu mjólkurafurða.

Markmiðið með stofnun sameinaðs félags afurða­stöðva undir nafni Mjólkur­samsölunnar var einmitt að ná niður vinnslu- og dreifingarkostnaði til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. Í lok síðasta árs var gefin út skýrsla, sem unnin var af Hagrannsóknum sf., um þróun og hagræðingu í mjólkurvinnslu á Íslandi á árunum 2000-2018. Þar hefur verið sýnt fram á að hagræðingaraðgerðir í mjólkuriðnaðinum, sem mögulegar voru vegna þessarar undanþágu, skili nú ávinningi sem nemur 2-3 milljörðum króna á ári, sem skilar sér til bænda í formi hærra afurðaverðs og neytenda í formi lægra vöruverðs.

Í umræðu um innlenda mjólkurframleiðslu er stundum talað eins og undanþáguheimildir í matvælaframleiðslu séu eitthvað sér íslenskt uppátæki. Samkvæmt skýrslu Lagastofnunar HÍ 2020 um undanþágur frá samkeppnisreglum er varða samstarf búvöruframleiðenda í ljósi EES/ESB-réttar segir að víðtækar undanþágur gildi fyrir framleiðendur landbúnaðarvara í Noregi og innan ESB. Í norsku landbúnaðarstefnunni er lögð áhersla á að samkeppnishæfni framleiðenda landbúnaðarafurða verði meiri starfi þeir í stórum rekstrareiningum. Í ESB hefur landbúnaðarstefnan forgangsáhrif gagnvart samkeppnisreglum og framkvæmdastjórn ESB leggur mikla áherslu á stækkun rekstrareininga.

Í ljósi þessa er erfitt að skilja umræðu um að afnema íslenskar undanþáguheimildir þegar í nágrannalöndum okkar má jafnvel finna víðtækari undanþáguheimildir fyrir landbúnaðarvörur.
Ef 71. grein búvörulaga yrði afnumin þyrfti væntanlega að endurskoða allar þær miklu hagræðingaraðgerðir sem mjólkuriðnaðurinn hefur farið í gegnum á síðustu árum og taka eitthvað af þeim til baka. Það myndi leiða af sér minna hagræði sem síðan skilar sér að öllum líkindum annað hvort eða bæði í hærra verðlagi og lægra verði til bænda.
Samanburður við önnur ríki

Ef við lítum til fyrirkomulags ann­arra landa má sjá að svipað kerfi þekkist víða. Í Noregi er TINE langstærsti aðilinn á markaði og var lengi vel eini aðilinn. Í dag sér fyrirtækið um söfnun og dreifingu u.þ.b. 95% allrar framleiddrar mjólkur í landinu og árið 2016 framleiddi fyrirtækið um 80% af öllum mjólkurvörum í Noregi. Í Svíþjóð er Arla stærsta fyrirtækið og er umfang þess um 70% af mjólkurmarkaðinum í landinu en þau safna mjólk frá um 2.800 kúabúum. Þar á eftir kemur Skånemejerier EF, sem er í eigu franska fyrirtækisins Lactalis, með 10-20% markaðshlutdeild.

Það fyrirtæki safnar mjólk frá um 300 kúabúum á Skáni og Suður-Svíþjóð. Bæði í Noregi og Svíþjóð eru svo minni afurðafyrirtæki sem kaupa hrámjólk af stóru fyrirtækjunum, en hafa val um að safna mjólkinni sjálf, líkt og hérlendis.

Kerfi sem virkar

Sem dæmi um hvernig kerfið tengist allt saman er ljóst að erfitt væri að halda úti söfnunarskyldu ef ekki væri framleiðslustýring, enda væri þá nokkuð mikið lagt á herðar afurðastöðva að taka við ótakmörkuðu magni mjólkur. Sama myndi gilda um lágmarksverð til framleiðenda ef það takmarkast ekki við ákveðið magn. Þó að sé erfitt að móta hið fullkomna kerfi þá hefur núverandi kerfi verið þróað í á annan áratug og er í stöðugri þróun og aðlögun að síbreytilegum aðstæðum. Það er óhætt að segja að ekkert annað fyrirkomulag býður uppá betri nýtingarmöguleika fjárfestinga en þá sem eru til staðar í núverandi kerfi. Það eykur hagræðingu í greininni sem skilar sér svo í lægra vöruverði til neytenda. Ef núverandi kerfi lognast út af þá má ætla að það bitni helst á þeim búum sem eru langt frá mjólkurafurðastöðvum og hætta yrði á að mjólkurframleiðslan færist á fá bú á ákveðnum svæðum.

Það verður að segjast að um­hverfi mjólkurframleiðslunn­ar í dag er til fyrirmyndar. Hag­ræðingar­aðgerðir og umhverfi framleiðslunnar hafa skilað sér í lægra verði til neytenda og sanngjörnu verði til mjólkurframleiðanda. Þó svo að stærsta afurðastöð landsins, sem er í eigu bænda, þyki stór aðili á markaði hérlendis verðum við að horfast í augu við þá staðreynd að svipað fyrirkomulag er í löndunum í kring um okkur og MS er lítið peð í samanburði við stærri fyrirtæki nágrannalandanna. Í rauninni er ótrúlegt að smáþjóð á eyju í Atlantshafi geti haldið uppi svo öflugri matvælaframleiðslu og boðið uppá jafn gott vöruúrval og raun ber vitni. Því skulum við ekki fórna „af því bara“.

Herdís Magna Gunnarsdóttir
formaður kúabænda

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...