Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Á faglegum nótum 13. mars 2020
Leitað að myndum og frásögnum um landgræðsluflug með minni flugvélum
Höfundur: Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri.
Nú er unnið að því að rita sögu landgræðsluflugsins með minni flugvélunum. Verkið er unnið í samstarfi við Landgræðsluna en það eru undirritaður, Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri, og Páll Halldórsson, flugstjóri Landhelgisgæslunnar og flugmaður í landgræðsluflugi í 14 sumur, sem vinna verkið.
Nú biðjum við lesendur Bændablaðsins að líta í gömul albúm og kanna hvort þeir finni ekki myndir af flugvélunum frá þessum tíma. Auk þess væri afar dýrmætt ef fólk, sem man þessa tíma og kann sögur frá því er þessar litlu vélar hófu sig á loft og dreifðu áburði yfir landið. Sagan sem verið er að rita tekur yfir árin 1958–1992.
Það kom strax í ljós þegar farið var að nota landgræðsluflugvélarnar sumarið 1958 að afköst við uppgræðslustarfið jukust til muna. Þá varð unnt að sá grasfræi og bera tilbúinn áburð á miklu erfiðari svæði til yfirferðar, sem voru á þeim tíma ófær fyrir litlar dráttarvélar og áburðardreifara á hjólum. Talið var að flugvélarnar væri mun hagkvæmari kostur til að dreifa áburði og grasfræi en þeirra tíma dráttarvélar, vegna mun meiri afkasta.
Páll Halldórsson við stýrið á Piper Super Cub og Sveinn Runólfsson á dráttarvélinni. Mynd / Úr myndasafni Páls Halldórssonar
Þegar flugvélarnar stækkuðu og burðargeta þeirra jókst urðu þær langódýrasti dreifingarmátinn vegna mikilla afkasta og tiltölulega lítils rekstrarkostnaðar. Gæði dreifingar áburðar og grasfræs með flugvélunum voru mjög jöfn og góð.
Unga kynslóðin sem nú tekur við landinu og gæðum þess getur ekki gert sér í hugarlund hversu ömurleg ásýnd landsins var á þessum tíma. Trúir varla sögnum um þegar sáðmenn sandanna unnu myrkranna á milli við að hlaða grjótgarða og setja upp girðingar, bryðjandi sand alla daga og rata ekki á milli bæja fyrir moldrokinu. Á þessum árum var nánast aldrei hægt að hengja upp þvott utan dyra í Gunnarsholti vegna moldroksins svo dæmi sé nefnt.
Við þurfum að varðveita þessa sögu og því er verið að rita hana. Ef við fáum fólk í lið með okkur er víst að sagan, sem við Páll erum að skrifa, verður mun betri. Áttu til gamalt albúm með myndum sem gætu komið okkur að notum? Kanntu sögur frá þessum tíma? Getur þú bent okkur á eitthvað sem gerir söguna réttari og betri?
Hafðu samband. Ég er með síma 893 0830 og netfang .sveinnrun@gmail.com. Ef þú vilt senda okkur eitthvað í tengslum við flugið þá er póstfangið: Sveinn Runólfsson, Tröllhólum 39, 800 Selfoss.
Sveinn Runólfsson,
fyrrverandi landgræðslustjóri.