Leynimakk kaldastríðsáranna
Í trjásafninu í Meltungu í Kópavogi er að finna plöntu sem ekki fer sérlega mikið fyrir. Og þó fögur sé er engin ástæða til að ætla að bakvið hana liggi dularfull saga sem teygir anga sína víða um Evrópu.
Á skiltinu stendur „Kákasusgreni – Picea orientalis“ og hefst sagan þar. Margir hafa eflaust ekki einu sinni heyrt um slíka tegund áður og líta bara á þetta sem „jólatré“. Ekki skrýtið, þar sem einungis er vitað um tvö skilti hér á landi, sem halda þessu nafni að almenningi.
Hitt skiltið er við gamalt tré í Grasagarði Reykjavíkur og get ég sparað ykkur sporin: Fyrir utan að vera áberandi stærra og eldra er tréð í Laugardalnum eins og merkt með sama hætti.
Það sem gerðist næst mun hneyksla ykkur og hræða!
Í sakleysi mínu deildi ég myndinni af þessu fagra tré í Meltungu með erlendum kunnáttumönnum í barrtrjárfræðum. „Sjáiði hvað við eigum nú fínt kákasusgreni hérna í miðju Atlanshafinu“ sagði ég reyndar ekki, en svona því sem næst.
Við tók hálfgerður skrípaleikur, þar sem annar þeirra sagði: „Já en, þetta er nú ekki kákasusgreni ...“ og hinn sagði: „Þetta vaxtarform og þessi litur á barrinu útilokar raunar algerlega að þetta geti verið kákasusgreni ...“ Þetta sögðu þeir reyndar á öðru tungumáli, en ég taldi einfaldara að þýða það yfir á íslensku hér.
„Jújú, víst er þetta kákasusgreni, sjáið bara þetta fína skilti. Svo var ég líka búinn að bera það saman við kákasusgreni í okkar fína Grasagarði og þessi tré eru eins. Ég skal bara sýna ykkur fleiri myndir, af báðum trjánum, til að sanna mál mitt og halda uppi heiðri íslenskra trjáskilta!“
Við nánari myndum af yngra trénu sögðu þeir báðir að myndirnar staðfestu grun þeirra og raunar væri þeim núna báðum ljóst að um væri að ræða svokallað purpuragreni (Picea purpurea). Hvernig gæti það staðist, þessi planta er svo lík kákasusgreninu í Laugardal? Jú – einfalt svar: sú planta er líka purpuragreni! Um alla viðstadda fór augljós hrollur. (Ég var einn við tölvuna.)
Sherlock Holmes var upptekinn
Þetta krafðist nánari rannsókna og enginn tími til að finna annan mann í verkið. Hér voru menn sem vissu um hvað þeir voru að tala. Lagðist ég því í miklar og djúpstæðar langtímarannsóknir, sem fólu ekki síst í sér að senda skilaboð á nokkra aðila úr Garðyrkjufélaginu, Trjáræktarklúbbnum og Skógræktinni. Auk þess leitaði ég upplýsinga hjá forstöðumanni Grasagarðsins og garðyrkjustjóra Kópavogs. Mörgum árum af gagnavinnslu síðar var komin upp áhugaverð staða í málinu: Eldra tréð kom upprunalega til landsins árið 1965 frá Þýskalandi og var þá merkt sem purpuragreni! Ég legg til að lesendur taki smá pásu hér til að ná aftur blóðþrýstingnum niður.
Fölsuð skilríki: Af hverju þurfti að leyna réttu nafni?
Enskur sérfræðingur kom til landsins árið 1982, sá tréð og var harður á því að merkingin gæti ekki staðist. Plantan væri í raun kákasusgreni. Það reyndist ekki vera í síðasta sinn sem Englendingur mótmælti Þjóðverjum og sökum þessa Englendings var trjágreyið skyndilega fjarlægt úr sambandi purpuragrenitrjáa.
Fræga fólkið í sögunni
Þetta leynimakk á kaldastríðsárunum var orðið ansi dularfullt. Hafsteinn Hafliðason, garðyrkjumaður Íslands, man eftir því þegar tréð kom til landsins, í strigapoka, ásamt fleiri barrtrjám. Hann var nefnilega staddur þarna við tvö aðra menn að planta þessum trjám. Þetta eintak var svo sannarlega merkt purpuragreni við komuna. En hvað þá með tréð í Meltungu, sem var plantað löngu eftir brottför Englendingsins dularfulla?
Kemur þá til sögunnar annar þjóðþekktur maður í bransanum, Jón Guðmundsson, garðyrkjufræðingur og aðal ávaxtaræktandi Akraneskaupstaðar, ef ekki landsins. Upp úr aldamótum starfaði hann við gróðrarstöðina Mörk í Fossvogi og höfðu þau fengið nokkra grenisprota frá Grasagarðinum. Hugmyndin var að reyna fjölgun þeirra. Sjálfur staðfesti hann við mig að hafa grætt þessa sprota á aðra rótarstofna af greniætt. Hann klónaði þar með tréð í Laugardalnum og árið 2011 var eitt slíkt klón gróðursett í nærliggjandi trjásafni, undir fölsku nafni móðurplöntunnar. Tréð „unga“ í Meltungu, er því í raun sama tréð og í Laugardalnum!
„Og nú á tveimur stöðum á landinu ...“
Skyldi tréð í Laugardal þá vera blendingur, sem hafi ruglað þann enska í ríminu, eða sigldi sá kannski undir fölsku flaggi og var í raun bara pylsusali frá Óðinsvé? Líklega munum við aldrei komast að hinu sanna í málinu, en hitt virðist þó ljóst að tréð sem var upprunalega purpuragreni, er bara enn þá purpuragreni. Purpuragreni sem óttaðist kannski um framtíð sína og laumaði því afleggjara sínum í burtu á öruggari stað.
Óstöðugleiki nútímans
Öryggistilfinningin hverfur hratt þessa dagana. Stöðugleiki virðist enginn. Svart er í raun hvítt, en svo skyndilega aftur orðið svart áður en maður veit af. Við þessu er bara eitt ráð: drífa sig að skoða trén í Meltungu og Laugardal áður en skiltunum er breytt, svo maður geti haldið áfram í gömlu tímana. Sé fólk hins vegar háð síbreytilegri fjölbreytni nútímans, þá getur það drifið sig á staðinn sem fyrst og svo skroppið aftur ef/þegar skiltin hafa verið uppfærð. Hvílík rússibanareið!
Hvað með Akureyri?
Til að halda í við þessar hröðu breytingar tilverunnar þarf líklega að heimsækja þessa staði sem oftast, svo maður missi nú ekki af neinu í hasarnum. En ekki takmarka ykkur við þessa tvo staði, Lystigarður Akureyrar getur boðið ykkur upp á eintak af purpuragreni sem hefur alla tíð verið rétt merkt – eða reynist það kannski að lokum vera kákasusgreni?
Gangið, nei hlaupið, í Garðyrkjufélagið og styrkið Skógræktina, heimsækið skógana sem okkur er loks að takast að rækta upp hér á landi og dáist að görðum samlanda ykkar á garðaskoðunardegi Garðyrkjufélagsins. Án þessara samtaka hefði vantað heilu línurnar í þessa frásögn, svo ekki sé minnst á hinar risastóru eyður sem væru í okkar landslagi og görðum!