Litaflækjur – Þrílit hross og nautgripir
Flestir nautgripir og hross eru einlit eða bera einn lit sem er megineinkenni þeirra um hvora tegundina sem er að ræða. Þó er það til að tveir eða þrír litir sjáist á sama gripnum. Í sumum tilvikum stjórnast þessi litasamsetning af erfðalögmálum, en í öðrum ekki.
Litirnir í brúnum hrossum og rauðum og svörtum og rauðum nautgripum stjórnast af því að í skepnunum er framleitt tvenns konar litarefni, svart og rautt. Á þessum tveim litarefnum, styrk þeirra og dreifingu um skrokkinn, byggjast allir aðrir litir gripanna. Það getur gerst með þeim hætti að bæði litarefnin koma fyrir í sömu skepnunni, eins og t.d. í jörpu hrossi eða bröndóttum nautgrip. En það getur líka gerst þannig að litarefnin eru lýst upp eftir ákveðnum reglum sem leiðir til allt annarrar ásýndar, nýs litar. Nefna má móálótt hjá hrossum sem dæmi, en sá litur er afleiðing þess að svarta litarefnið í annars brúnu hrossi hefur verið lýst upp fyrir tilstuðlan ákveðins gens og á sama hátt er bleikt hross bleikt vegna þess að rautt litarefni hefur verið lýst upp. Lýsing litarefnanna gerist ekki endilega eins um allan skrokkinn og þá kemur fram litbrigðamunur innan litarins sem myndar einkennandi litmynstur.
Mörgum finnst að sum jörp hross séu í raun tvílit, rauðleit á bolinn en svört á fax og tagl, og svipað á við um álótt og vindótt hross, annar litblær á faxi og tagli en bol. Þó litir í þessum tilvikum stjórnist af áhrifum ákveðinna erfðaþátta er gripurinn alls ekki einlitur í ströngustu merkingu þess orðs, liturinn er ekki alls staðar eins. En þessir „mislitu“ gripir teljast þó vera einlitir þar sem breytileikinn er bundinn ákveðnum reglum og stjórnast fyrst og fremst af erfðalögmálum og liturinn hefur sjálfstætt nafn, telst einn af þeim litum sem kynið ræður yfir í litaflóru sinni. Ef við sjáum þrílitan grip, er hvítt jafnan einn af litþáttunum þrem. Hvítt í hrossum og nautgripum er yfirleitt mynstur en ekki sjálfstæður litur. Hvítt er afleiðing þess að erfðirnar sjá til þess að í fóstrinu er ekki framleitt litarefni um allan líkamann. Þá koma fram hvítir blettir, litlausir blettir eða skellur, ásamt hinum hefðbundnu lituðu flekkjum. Þetta eru í raun hvít litmynstur en ekki sjálfstæður hvítur litur. Hvít litmynstur erfast óháð litunum. Þau geta því komið fram með hvaða lit sem vera skal og viðkomandi tegundir ráða yfir. Þannig verða gripirnir tvílitir, samanber rauðskjótt og brúnskjótt svo dæmi séu tekin úr hrossheimum og svartskjöldótt og rauðskjöldótt svo nefnd séu dæmi af nautgripum.
Það er þó til, og er alls ekki óalgengt, að skepnur beri þrjá liti en þá eru hvít svæði jafnan hluti af þeirri litasamsetningu og lituðu flekkirnir eru byggðir á lit sem hefur tvílita ásýnd, ef svo má segja, ásýnd eins og lýst var hér að ofan, t.d. jarpt og móálótt hjá hrossum og bröndótt og kolótt hjá nautgripum. Þannig kemur fram þrílitt ef þessir gripir eru jafnframt skjóttir eða skjöldóttir. Í báðum tilvikum eru sýnileg svæði á líkamanum sem bera bæði svart og rautt litarefni auk hvítu skellanna.
En það kemur einnig fyrir, þó sárasjaldgæft sé, að nautgripir og hross beri þrjá liti, t.d. hvítan, rauðan og svartan, án þess að það byggist á litum með tvílita ásýnd. Þessi þrílitu tilbrigði stjórnast ekki af hefðbundnum erfðalögmálum eins og aðir litir og litmynstur, heldur eru þau til komin vegna frávika í fósturþroskanum, sem alls ekki tengjast erfðum. Eitthvað gerist í þróun fóstursins sem yfirprentar erfðamynstur litanna staðbundið ef svo má taka til orða.
Hér með fylgja þrjár myndir sem sýna þannig sjaldgæfan þrílit í grip.
Rauðskjöldótta bolakálfinn, Reykjabola, með stóra svarta flekkinn á annarri hliðinni, sem nær yfir hrygginn og aðeins út á hina hliðina, rakst ég á í fjósinu á Stóru-Reykjum í Flóa. Reykjaboli er að erfðum rauðskjöldóttur en ber auk þess svartan flekk sem er ótengdur erfðagerð hans, er
fósturþroskaafbrigði.
Rauðlitförótta hryssan með svarta lærið er Frostrós frá Norður-Hjáleigu, hér stödd í Víðidalstungurétt. Þó hún sé rauð að grunnlit og hvíta litmynstrið hennar sé litförótt en ekki skjótt þá ber hún stóran svartan flekk á lærinu og það sérkennilega við þann blett er að hann er ekki litföróttur eins og rauði hlutinn. Þetta er líka fósturþroskaafbrigði.
Mósótta folaldið með svarta flekkinn á lærinu hitti ég í Vesturkoti fyrir mörgum árum. Hér er ekki um þrílit að ræða eins og honum var lýst hér að ofan. Það er ekkert rautt til staðar. Folaldið er móálótt blesótt en með tvær ólíkar ásýndir svarta litarefnisins.
Móálótti liturinn byggist á svörtu litarefni sem er lýst upp samkvæmt erfðareglum um álótta litmynstrið en svarti flekkurinn sýnir svarta litarefnið í fullum litstyrk, eins og í brúnu hrossi og er fósturþroskaafbigði en ekki erfðatengt.