Lykillinn að betri árangri
Höfundur: Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir
Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins – RML – er nú á sínu fjórða rekstrarári og eins og fram kom í skrifum framkvæmdastjóra fyrirtækisins í Bændablaðinu 22. mars síðastliðinn, náðist góður viðsnúningur í rekstrinum á síðasta ári þegar fyrirtækið skilaði um 16 milljóna króna hagnaði.
Mörg af umfangsmestu verkefnum fyrirtækisins tengjast búfjárrækt bæði hvað snýr að ráðgjöf til bænda en einnig verkefni sem tengjast framkvæmd skýrsluhalds og ræktunarstarfs í nautgriparækt, hrossarækt og sauðfjárrækt.
Á búfjárræktarsviði RML starfa 19 starfsmenn í 15 stöðugildum. Faghópar sauðfjár-, nautgripa- og hrossaræktar eru þar stærstir en einnig starfa á sviðinu tveir skýrsluhaldsfulltrúar og starfsmenn sem sinna loðdýrarækt, svínum og alifuglum.
Mörg umfangsmikil verkefni
Verkefni tengd búfjárrækt hafa verið stór hluti af starfi flestra ráðunauta í gegnum tíðina og verða áfram veigamikil innan RML. Mörg þessara verkefna eru mjög umfangsmikil og má þar sérstaklega nefna vinnu tengda búfjárdómum, sérstaklega kynbótadómum á vorin og lambaskoðunum á haustin, en vel á fjórða tug starfsmanna kemur að báðum þessum verkefnum.
Önnur umfangsmikil verkefni má nefna skoðanir á kvígum á fyrsta mjaltaskeiði en um 6.500 kvígur eru dæmdar árlega og starfsmenn RML sjá um alla faglega vinnu við þróun skýrsluhaldskerfa Bændasamtaka Íslands og þjónustu við notendur þeirra kerfa. Þá má að sjálfsögðu bæta við að ábyrgðarmenn sauðfjárræktar og nautgriparæktar sjá um val kynbótagripa fyrir sæðingastöðvarnar og njóta til þess fulltingis annarra starfsmanna eftir því sem þörf er á.
Við stofnun RML kom saman hópur starfsmanna sem sinnt hafði fjölbreyttum verkefnum bæði hjá búnaðarsamböndum víðs vegar um landið og Bændasamtökum Íslands. Stór hluti af þessum verkefnum tengdust búfjárrækt á einn eða annan hátt. Það var því mikilvægt fyrsta skref að ná góðri yfirsýn yfir vinnuþörf við helstu verkefni og einnig hvernig þau kæmu út fjárhagslega enda var krafa eigenda skýr um að hagræða þyrfti í vinnu og stefna ætti að því að hvert verkefni stæði undir sér fjárhagslega.
Verkefnaskráning og betra utanumhald
Með því að innleiða verkskráningu og betra utanumhald einstakra verkefna hefur náðst að hagræða í vinnu og ná betri útkomu í mörgum stórum verkefnum. Góð verkskráning er einnig mikilvægur þáttur í því að nýta vinnutímann betur og skapa þannig svigrúm fyrir ný verkefni og þá ráðgjöf sem bændur kalla eftir.
Við höfum þessi fyrstu ár einbeitt okkur að því að ná betur utan um þau stóru verkefni sem nefnd eru hér að ofan þannig að þau séu unnin innan þeirra markmiða sem okkur hafa verið sett. Sumt hefur gengið vel, annars staðar má gera betur og munum við halda ótrauð áfram á þeirri vegferð að gera betur á þeim vettvangi.
Mikil vinna að baki góðum árangri
Að baki þeim árangri sem náðst hefur á síðustu þrem árum liggur mikil vinna allra starfsmanna RML sem tókust á við það krefjandi verkefni að gerbreyta ráðgjafarþjónustu í íslenskum landbúnaði í takt við þá nýju stefnu sem bændur höfðu markað um endurskipulagningu ráðgjafarþjónustunnar í landinu. Í þeirri stefnumótunarvinnu sem nú er farin af stað fyrir fyrirtækið er mikilvægt að fram komi hvaða væntingar bændur gera til okkar, það er tvennt ólíkt að vinna samkvæmt skýrum markmiðum eða óskýrum.
Ef horft er til þeirra verkefna sem snúa að búfjárrækt er nauðsynlegt að skilgreina grundvallarþætti sem snúa að framkvæmd ræktunarstarfsins og forgangsraða verkefnum og fjármunum þannig að tryggt sé að við séum að gera eins vel og við getum hvað varðar notkun á bestu mögulegu þekkingu og tækni. Einnig þarf að svara þeirri spurningu hvort tryggja þurfi að ákveðin grunnþekking sé til staðar og þar með aðgengi að ráðgjöf þó að eftirspurn sé ekki stöðug eða hvort eftirspurn eigi algerlega að ráða framboði ráðgjafar hjá fyrirtækinu.
Öflug ráðgjafarþjónusta til eflingar landbúnaði
Þessi fyrstu þrjú ár hafa skapað góðan grundvöll til að takast á við framhaldið og vinna áfram að því að byggja upp öfluga ráðgjafarþjónustu sem vinnur með bændum að því að efla íslenskan landbúnað samkvæmt þeim markmiðum sem sett voru í upphafi um hagkvæma nýtingu fjármuna og að tryggja öllum bændum aðgengi að öflugri ráðgjafarþjónustu í takt við breyttar kröfur bænda og samfélagsins.