Meindýr í skógum og görðum
Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vildu vera lausir við. Garðyrkjuskólinn í Ölfusi stóð fyrir haustþingi um plöntusjúkdóma, meindýr og varnir gegn þeim.
Brynja Hrafnkelsdóttir, skordýrafræðingur á rannsóknasviði Skógræktarinnar, ræddi um meindýr í skógrækt og garðrækt.
Meindýr í ungskógum
Brynja segir að afföll í skógrækt hér á landi séu mest fyrstu árin eftir gróðursetningu þar sem trjáplöntur séu viðkvæmastar fyrstu árin. „Plönturnar eru litlar með lítið af laufi og rýrt rótarkerfi og þol því ekki mikið. Fyrstu árin eru ranabjöllur og yglulirfur skæðar og skemma bæði ungar skógar og landgræðsluplöntur.“
Ranabjöllur og yglulirfur
Á Íslandi finnast um þrjátíu tegundir af ranabjöllu og tvær þeirra, hélukeppur, Otiorhynchus nodosus, og silakeppur, O. arcticus, valda mestu tjóni. Auk þess sem trjákeppur, O. singularis, getur valdið skaða og þá helst í húsagörðum.
„Lirfur bjallnanna valda mestum skaða með því að éta rætur ungplantnanna. Þannig geta plönturnar misst rótarfestu og þrífast illa.“
Yglulirfur valda oft miklu tjóni í ungskógum og þá helst jarð, Diarsia mendica, og ertuygla, Ceramica pisi
Að sögn Brynju er ertuygla innlend tegund sem var áður fyrr að mestu bundin við sunnanvert landið. „Fyrsti þekkti faraldur var árið 1991 í Morsárdal við Skaftafell en á síðustu árum hefur stofn og útbreiðsla hennar vaxið gríðarlega og faraldrar nánast árvissir á sumum svæðum. Ertuyglan veldur skaða á öllum trjátegundum og þola barrtré hana verr en lauftré.“
Birkikemba
Fannst fyrst hér á landi í Hveragerði sumarið 2005 og hefur breiðst hratt út síðan þá og skaði af hennar völdum aukist. „Fiðrildi birkikembu, Heringocrania unimaculella, verpa í lauf birkis snemma á vorin og lirfan klekst út og vex inni í blaðinu og nærist á blaðholdinu. Um mitt sumar verður lirfan fullvaxin og púpar sig.“
Birkiþéla
Brynja segir að birkiþéla, Scolioneura betuleti, sé blaðvespa sem hafi líklega verið hér í einhvern tíma þar sem hún var búin að dreifa sér talsverpt á Suðvesturlandi þrátt fyrir að hafa fyrst verið greind 2016. „Vespan verpir í blöð birkis og lirfan elst upp inni í blaðinu líkt og lirfa birkikembu.
Asparglytta
Asparglytta, Phratora vitelliane, er vel þekkt meindýr í NorðurEvrópu á trjám af víðiætt. Hún fannst fyrst hér í Kollafirði vorið 2006 og hefur breiðst út þaðan. Bjöllur asparglyttu verpa í byrjun sumars og lirfurnar skríða úr eggi um mitt sumar og lifa á laufi viðju, aspar og víðis fram undir lok sumars en púpa sig þá. Bjöllurnar skríða úr púpu fyrir vetur og liggja síðan í dvala, gjarnan í trjáberki.
Auk þess að valda skaða í skógrækt er asparglytta og lirfur hennar til verulegra leiðinda í garðrækt.
Sitkalús
Lús sem leggst á sitka og blágreni hér á landi. Sitkalús, Elatobium abietinum, fannst fyrst hér árið 1959. „Lúsin situr neðan á nálunum og stingur sograna inn í loftaugu barrsins og veldur eitrun sem hefur þær afleiðingar að barrið verður fyrst gult og síðan rauðbrúnt. Þegar sitkalúsarfaraldur gengur yfir má heita að lúsin hreinsi allt barr af trjánum nema yngstu sprotana og skemmdir eru alltaf mestar neðst í trjánum. Það er þó sjaldgæft að tré drepist af völdum sitkalúsar og yfirleitt klæðir hún af sér skemmdirnar með tímanum.“
Furulús
Alvarlegasta meindýrið á furu hér á landi er furulús, Pineus pini. „Sennilega barst hún hingað frá Noregi 1937. Á sjötta áratug síðustu aldar hafði hún borist um allt land og nánast gjöreytt allri skógarfuru á landinu á sjötta áratugnum.
Furulús situr á berki trjáa og myndar um sig ljósa vaxullarhnoðra. Hún tímgast með kynlausri æxlun. Afkvæmin klekjast úr eggi á vorin. Að klaki loknu skríða þau út á nýju sprotana.“
Meindýr í görðum
Brynja segir að nokkrar tegundir fiðrildalirfa geti valdið skaða í garðrækt hér, birkifeti, birkivefari, tígulvefari, en að haustfeti, Operophtera brumata, sé skaðlegastur.
„Haustfeti er útbreiddur um alla Evrópu og veldur víða miklu tjóni og hann barst hingað um 1930. Lirfan er alæta á alls konar lauf og barrtré og hér finnst hann einkum á birki, víði og reyni og getur valdið miklum skaða og er hann nánast eina meindýrið sem leggst á reynivið hér á landi.“
Blaðlýs
„Hér á landi finnast nokkrar tegundir blaðlúsa eins og víðiblaðlús, víðisprotalús víðstofnlús, hegglús, sólberjalús, rifslús, hafrablaðlús, birkiblaðlús og birkisprotalús. Allar þessar lýs eru skaðlitlar
Álmlús, Tetraneura ulmi, var fyrst staðfest á Íslandi árið 1961. Lúsin veldur því að blöð álms verpast. Lífferill kvikindisins er að eftir nokkur lirfustig á álminum umbreytast lirfurnar í fullorðnar lýs sem fljúga yfir á sólber eða rifs. Lýsnar á rifsinu geta síðan af sér nýja kynslóð sem fer niður á rætur trésins. Afkomendur þeirra eru fleygir og fljúga yfir á álm, makast og verpa og loka þar með hringnum.“
Brynja segir að ekki sé vitað hvort tegundin nái öllum kynslóðum á einu ári hér á landi eða brúi veturinn á rótum rifs eða sólberja
Vespur í görðum
Auk birkiþélu eru þrjá tegundir á vespum skaðvaldar í görðum hér á landi, sagvespa á selju, furuvoðvespa og rifsþéla.
Sagvespa, Pontania bridgmanni. „Upp úr 2012 fór að bera á eins konar kýlum á laufi á selju á höfuðborgarsvæðinu og víðar um land. Inni í þessum kýlum er lirfur sagvespu.“
Furuvoðvespa, Acantholyda erythrocephala, finnst víða í Mið og NorðurEvrópu þar sem hún veldur talsverðum skaða. Hún greindist fyrst hér á landi árið 2008. „Í dag finnst hún víða á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði. Tjón af hennar völdum er vegna þess að lirfurnar éta barr frá vori og fram á mitt sumar. Þessi vespa getur lagst á margar furutegundir en helst lindifuru hér.
Rifsþéla, Nematus ribesii, fannst hér fyrst árið 2010 og hefur frá þeim tíma aukið útbreiðslu sína á höfuðborgarsvæðinu og fundist í Hveragerði, á Selfossi og líklega víðar á landinu að sögn Brynju. „Rifsþéla lifir á ýmsum rifstegundum en helst á rauðrifsi og stikilsberjum. Fullorðin dýr skríða úr púpum á hausti og aftur um mitt sumar og er því um tvær kynslóðir að ræða og éta lirfurnar laufið um mitt sumar og aftur á haustin.“
Hindberjaþéla, Cladius brullei, er nýr landnemi sem fannst fyrst hér á landi árið 2014. „Síðan hefur hún fundist víða, bæði í gróðurhúsum og í görðum. Auk þess að lifa á hindberjaplöntum hefur hún fundist á reyni og birki.“
Meindýr í útimatjurtum
„Tiltölulega fá meindýr eru til vandræða í útimatjurtarækt hér á landi. Íslensk sumur eru of stutt og köld til þess að þau lifi af og svo hefur einangrun landsins komið í veg fyrir að þau berist hingað.“
Kálfluga Delia radicum, er þekkt meindýr víða um heim og alþekkt í rófnarækt hér á landi. Auk þess sem hún leggst á fjölda káljurta. „Kálflugu varð fyrst vart hérálandiuppúr1930ogídag finnst hún um allt land. Flugan lifur í plöntum af krossblómaætt og þar á meðal villtum plöntum eins og skarfakáli og hrafnaklukku.“
Spánar- eða vargsnigillinn
Brynja segir að á landinu finnist 39 tegundir af sniglum og að sumir þeirra geti verið skaðvaldar í matjurtagörðum. Þar af er spánar eða vargsnigillinn, Arion vulgaris, sá stærsti og skaðlegasti. „Hann er upprunninn á Íberíuskaga en hefur breitt úr sér víða um Evrópu. Snigillinn verpur um 400 eggjum í jarðvegi eða undir laufi og fannst fyrst hér á landi 2003.
Sífelldar breytingar
Brynja segir að það sé sífellt að bætast í smádýrafánu landsins og að með auknum innflutningi á plöntum megi búast við að fjöldi meindýra á gróðri hér á landi aukist
„Fyrir nokkrum árum fór til dæmis að bera á enn sem komið er ógreindri lirfu á blöðum gullregns. Líklega er um að ræða æðvængju eða tvívængju og þrátt fyrir að ekki sé búið að greina tegundina er staðferst tilfelli um hana á höfuðborgarsvæðinu og í Hveragerði.“