Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Meira um báknið
Mynd / Óskar Andri
Á faglegum nótum 3. janúar 2024

Meira um báknið

Höfundur: Oddný Anna Björnsdóttir framkvæmdastjóri.

Þegar kerfið refsar þeim sem leggja sig fram um að gera allt rétt. Það er opinbert leyndarmál að villibráðamarkaðurinn er að stærstum hluta undir yfirborðinu og enginn vilji virðist vera til að gera neitt í því.

Oddný Anna Björnsdóttir

Hins vegar er þeim sem sækja um leyfi, vinna sínar afurðir í vottuðum vinnslum, setja saman ítarlega gæðahandbók og reyna í öllu að fara eftir þeim reglum sem um starfsemina gilda, íþyngt fram úr öllu hófi. Í þessari grein verður sagt frá reynslu villibráðaframleiðanda, félagsmanni í Samtökum smáframleiðenda matvæla sem er að framleiða í vottaðri vinnslu, ásamt öðrum framleiðendum. Við höfum fengið fjölmargar sambærilegar reynslusögur frá félagsmönnum í annars konar framleiðslu, en einnig stærri aðilum innan matvælageirans og vonum að þetta dæmi hreyfi við kerfinu.

Í úttektina fyrir skilyrt leyfi mættu þrír eftirlitsaðilar. Einn þeirra hafði allt á hornum sér og var þegar búinn að ákveða að leita allra leiða til að finna eitthvað að til að geta stöðvað starfsemina. Ein af kröfunum hans var að fjaðrir fuglanna mættu ekki snerta kjötið sem er ógerlegt. Einn var jákvæður og opinn fyrir því að finna lausnir á því hvernig best væri að gera þetta. Þriðji aðilinn var hlutlaus. Þessi heimsókn sýndi vel hið mikla ósamræmi sem er á milli eftirlitsaðila og hversu mikið persónulegt vald þeir hafa. Framleiðandinn fékk skilyrt leyfi eftir þessa heimsókn, þökk sé eftirlitsaðilanum sem var tilbúinn til að hugsa í lausnum. Eftir að skilyrt leyfi er fengið tekur við reglubundið eftirlit.

Gæðahandbókin yfirfarin í hverri heimsókn

Þegar framleiðandinn fékk fyrstu reglubundnu eftirlitsheimsóknina var hann nýbúinn að ganga í gegnum strangt og sligandi leyfisveitingaferli sem hafði tekið heilt ár – meðal annars vegna þess að villibráð var hreinlega ekki til í kerfinu hjá Matvælastofnun. Samhliða því hafði hann unnið ítarlega gæðahandbók með aðstoð fagfólks.

Eftirlitsaðilinn biður um gæðahandbókina, flettir í gegnum hana og segist þurfa að fara yfir hana. Þegar eftirlitsþeginn hváir og segir að MAST sé nýbúið að samþykkja hana og spyr hvers vegna hann þurfi líka að gera það, var svarið: „Vegna þess að ég má það.“ Og til að sýna mátt sinn og megin hefur eftirlitsaðilinn eftir það tekið gæðahandbókina til yfirlestrar og rukkað fyrir það í hvert sinn sem hann hefur komið í eftirlit, þó stutt sé síðan síðast og ekkert hafi breyst í bókinni eða framleiðslunni.

Stórkostleg ofrukkun

Sami eftirlitsaðili rukkaði viðkomandi framleiðanda fyrir fjögurra klukkustunda eftirlit, þrátt fyrir að hafa verið á svæðinu í einn klukkutíma; plús akstur. Tímagjaldið eru 25.000 kr. Í ofanálag rukkaði hann annan aðila sem átti ekki að fá eftirlit þann dag, fyrir klukkutíma í eftirlit plús akstur, vegna þess að þeir áttu stutt, óformlegt spjall inni á kaffistofunni. Sem sagt tvöfaldan akstur og samtals fimm klukkustunda eftirlit fyrir heimsókn sem stóð yfir í eina klukkustund. Sem betur fer hafði framleiðandinn þor til að kvarta til MAST og var tímunum á hann fækkað í tvo.

Framleiðandinn þurfti að undirgangast óeðlilega strangt reglubundið eftirlit fyrstu árin. Komið var í eftirlitsheimsókn í hvert skipti sem hann var að framleiða sem var í 3-4 daga í senn og magnið lítið. Auk þess var salmonellusýni tekið í hvert skipti (sem hann þurfti að greiða fyrir), þrátt fyrir að allt hafi verið í góðu lagi í fyrri heimsóknum, hann aðeins fengið minni háttar athugasemdir og öll sýnin fram að því verið neikvæð. Eins voru áherslur ólíkar milli eftirlitsaðila og skortur á samræmingu og skipulagi. Eftir að hafa gert ítrekaðar athugasemdir um þetta óhóflega eftirlit og kostnað var nýlega dregið úr því.

Letjandi og dregur úr nýsköpu

Það kemur því ekki á óvart að margir matvælaframleiðendur hafi gefist upp og hætt, hikað við að útvíkka starfsemi sína eða hreinlega ekki treyst sér til að fara út í matvælaframleiðslu. Jafnvel sjálfur Fiskikóngurinn er nú búinn að gefast upp af þessum ástæðum, eins og hann greindi frá í nýlegu útvarpsviðtali.

Það að svona íþyngjandi kröfur og kostnaður sé settur á smáframleiðendur sem oft eru í árstíðabundinni starfsemi og eru að leggja sig alla fram um að framleiða einstakar, hágæða afurðir, oft samhliða fullu starfi, er með öllu ólíðandi.

Maður láir þeim ekki sem eru í þessari árstíðabundnu villibráðaframleiðslu að hika við að sækja um leyfi þegar þeir heyra sögur eins og þessa. Það er kannski það sem eftirlitskerfið helst vill. Sliga þá sem taka skrefið upp á yfirborðið og láta sem það viti ekki af þeim sem eru á svarta markaðinum. Við biðlum til matvælaráðherra, sem er æðsti yfirmaður matvælaeftirlitskerfisins, að finna leiðir til að tryggja að svona vinnubrögð fái ekki að viðgangast lengur.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...