Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Minnumst mikilvægi heyefnagreininga
Mynd / smh
Á faglegum nótum 31. ágúst 2018

Minnumst mikilvægi heyefnagreininga

Höfundur: Jóna Þórunn Ragnarsdóttir ráðunautur í fóðrun hjá RML, jona@rml.is
Veðurgæðum sumarsins var mjög misskipt eftir landshlutum þetta árið. Norðlendingar og Austlendingar fengu feiknagott veður til heyskapar en Sunnlendingar og Vestlendingar fengu hins vegar heldur lakara veður til að afla vetrarfóðursins þó ekki væri beint um rosasumar að ræða. 
 
Víða um land eru til miklar fyrningar frá sprettusumrinu 2017, auk góðrar uppskeru í ár, svo margir hyggja á það að flytja út fóður til Noregs, þar sem skortur er yfirvofandi. Við minnum því bændur og búalið á mikilvægi þess að taka lýsandi heysýni af heyforðanum til að hægara sé að skipuleggja fóðrun vetrarins og eins hvað mætti mögulega bjóða falt til annarra eða til útflutnings.
 
 
Ekki gleyma sýnum í frystinum!
 
Hversu oft höfum við ráðunautar ekki fengið heysýnapoka senda frá bændum með hangikjötslykt, því gjarnan vill gleymast að senda heysýnin til greiningar þó skilmerkilega hafi verið staðið að því að taka sýni um sumarið. Hirðingasýni eru góð og gild fyrir forþurrkað fóður og oft þægilegri í framkvæmd en að taka verkuð sýni. 
 
Farið er um túnið stuttu áður en hirt er og tekin visk hér og þar sem lýsandi er fyrir uppskeruna af túninu. Plastpokinn er lofttæmdur og merktur og honum komið fyrir í frysti. Þær upplýsingar sem þurfa að fylgja til efnagreiningastofanna er sendandi, heimilisfang, kennitala og búsnúmer, netfang þangað sem senda má niðurstöður en einnig upplýsingar um sýnið, s.s. hvenær slegið var og hirt, spildunúmer og heiti spildunnar. Auk þess þarf að velja hvað skuli greint í sýninu. Ráðunautar RML geta verið innan handar þegar greiningarkostur er valinn. 
 
Gróffóður fyrir mjólkurkýr borgar sig að hafa fulla greiningu á (leysanlegt prótein, ómeltanlegt tréni, verkunarsýrur o.fl.) en einnig er spurning hversu mörg stein- og snefilefni skulu greind í sýnunum. Gott er að miða við að hafa snefilefnagreiningu á a.m.k. einu sýni ár hvert til að fylgjast með joð- og selen-innihaldi heyjanna og breytingu milli ára. Slík greining getur gefið okkur vísbendingar um áburðargjöf næsta árs.
 
Varðandi fóður fyrir sauðfé og hross þá þarf ekki eins ítarlega greiningu á því, þó svo sannarlega geti það verið áhugavert. Sérstaklega getur selen- og joð-innihald heyja fyrir sauðfé verið áhugavert.
 
Að taka verkuð sýni
 
Verkuð sýni eru tekin 4-6 vikum eftir að hirt var, en þá ætti verkun að vera lokið. Þó getur verkun verið langdregnari séu hey mikið sprottin, gróf, geymslur illa lofttæmdar eða vegna rangrar gerjunar (smjörsýrugerjun). 
 
Gott er að miða við að taka sýni úr 3-4 rúllum af hverri spildu fyrir gott meðaltal fyrir hvert sýni og sé tekið sýni úr flatgryfjum og stæðum er gott að miða við að stinga á t.d. 4 stöðum langs eftir gryfjunni. Heysýnabor þarf að ná góðum þverskurði af heygeymslunni (ná alla leið inn í kjarna rúllu eða í botn á stæðu). 
 
Verkuð sýni eiga sérstaklega vel við sé þurrefnisinnihald heyjanna innan við 50%, þar sem hægt að fanga þá breytingu á fóðrinu sem verður við verkun, en þá breytingu er ekki hægt að fanga með því að taka hirðingasýni. 
 
Greiningaratriði sem hægt er að nota til að meta gæði verkunar er t.d. magn og innbyrðis hlutfall verkunarsýra (edik-, mjólkur- og smjörsýra), ammóníak- og nítrat-innihald.
 
Mikilvægi upplýsinganna
 
Heysýnataka gefur okkur mikilvægar upplýsingar um fóðrið að því leyti að við vitum betur hvað við erum að gefa gripunum okkar, hvaða viðbótarfóður þarf í gripina, hvernig túnin skila uppskeru sinni, hvaða áburð ætti að bera á að ári, hvort borgi sig að endurrækta eða breyta sláttutíma af einhverju viti. Þá er hægt að raða saman ólíkum heytegundum til að mynda betri heyblöndu en væri bara gefin ein tegund í einu o.þ.h. 
 
Heyefnagreining gefur okkur líka vísbendingar hvort fóðrið sé nægilega kröftugt fyrir framleiðslu­kerfið okkar – hvort við þurfum að fóðra á miklu kjarnfóðri eða jafnvel þannig að við getum selt umframbyrgðir.
 
Verð á algengum heyefnagreiningum
 
Efnagreining á Hvanneyri og Eurofins í Hollandi eru samstarfsaðilar RML hvað heyefnagreiningar varða. 
Algengustu greiningakostir fyrir mjólkurkýr eru sennilega greiningar 4 (hirðingasýni), 5 (verkuð sýni) og 6 (með gerjunarafurðum) hjá Efnagreiningu og greining á verkunarsýnum með ýmist 10 eða 14 steinefnum hjá Eurofins. Þeir sem selja hey til útflutnings ættu að velja þessa greiningarkosti því Norðmenn eru vanir að fá fulla greiningu á sín heysýni. 
 
Gott er að skrifa á fylgiseðla með heyjum sem ætluð eru til útflutnings að um útflutning sé að ræða til að tryggja rétta greiningu sýnanna. Útdráttur af verðlistum beggja fyrirtækja sjást í töflunni sem hér fylgir en ítarlegri verðlista má nálgast á heimasíðu RML sem og heimasíðu Efnagreiningar.
 
Fyrir sauðfé og hross borgar sig að velja greiningarkost 2 hjá Efnagreiningu eða greiningarkost 3 sé þess óskað að selen sé greint.
 
Ráðunautar RML eru nú á ferð um landið til að taka heysýni. Hægt er að panta heysýnatöku og fóðuráætlanagerð á heimasíðu RML eða með því að hringja beint í RML í síma 516-5000.
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...