Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
Myntur – undirheimaátök og mojito
Á faglegum nótum 24. júlí 2015

Myntur – undirheimaátök og mojito

Höfundur: Hafsteinn Hafliðason

Grikkir og Íslendingar eiga ýmislegt sameiginlegt. Báðar þjóðirnar hafa auðgað heiminn með söguarfi sínum og hvorug þeirra hefur hundsvit á peningum. En um það fjallar ekki þessi pistill. Heldur mynturnar sem við getum ræktað í görðunum okkar okkur til gagns og gamans.

Nafnið mynta hefur ekkert með mynt að gera og hefur því enga tengingu við peninga ef einhver hefur haldið það. Aldeilis ekki.

Goðafræðin

Í grísku goðafræðinni er Hades guð undirheimanna og þykir ekki við eina fjölina felldur líkt og oftast er með undirheimahyski. Kona hans heitir Persefone. Hún gengur reyndar undir ýmsum nöfnum, eftir því hvert tilefnið er. En upphaflega hafði Persefone önnur áform, ætt og stöðu en að lenda í þessari hjónasæng. Hún er dóttir Seifs og Demeter, gyðju frjóseminnar og uppskerunnar. Og það par hefur líklega haft aðrar fyrirætlanir um fyrirhugaðan eiginmann handa dóttur sinni. Dóttirin er gyðja vorkomu og  gróandinnar. Og óspjölluð mær þegar hér er komið sögu. En með klókindum og óheiðarleika, jafnvel helberum ruddaskap, hafði Hades rænt Persefone og gert hana nauðuga að brúði sinni. Við það að Persefone hvarf niður í undirheimana fór gróður að sölna, fuglar þögnuðu og uppsprettur þvarr. Þar við sat eða næstum því hefði Demeter ekki gripið inn í eftir bestu getu og beðið Seif bónda sinn að senda nú sendiboðann Hermes niður í undirheimana til að semja við Hades um að láta nú af þessu óþokkabragði og senda Persefone aftur upp á grænar grundir. Eftir japl og jamm féllst Hades þó á það að skila Persefone – og gaf henni, svo lítið bar á, granateplafræ í nesti. En þegar Persepone hafði gætt sér á granateplafræjunum féllu á hana álög Hadesar um að hún skyldi fylgja honum þriðjung ársins, ýmist um síðsumarið þegar þurrkar herjuðu í sveitunum við Miðjarðarhaf eða á veturna. Þannig eru nú þær veðurfarssveiflur komnar til.

En Hades hegðaði sér víst mest þannig að heimta og hrifsa allt það sem honum datt í hug að komast yfir. Meðal annars stúlkuna Minthe, eina vatnadísanna sem dvöldu við eitt af þeim neðanjarðarvötnum sem umlykja ríki hans, hið klakabundna Kokytos. En Persefone kom þar að og forðaði Minthe frá að Hades kæmi fram vilja sínum. Það gerði hún með því móti að breyta stúlkunni í lágvaxna, skriðula og ilmandi jurt. Þar með fengum við myntuna.

Aðrar heimildir segja að Minthe hafi verið ein af fjalladísunum sem héldu til við fjallið Ilia og að mæðgurnar Demeter og Persefone hafi breytt henni í jurtina, með samstilltu átaki, þegar Minthe hafði stært sig af því að vera í alla staði fremri Persefone. En hvort að sú frásögn sé eitthvað réttari kemur út á eitt.

Víðfeðm ættkvísl

Sænski grasafræðingurinn Carl von Linné notaði goðsögnina þegar hann valdi ættkvíslinni heiti í nafnakerfi sínu. Ættkvíslarheitið Mentha er ritháttur hans og hver tegund hefur svo sitt viðurnefni. Og að við skrifum myntunöfnin með ypsilon-i en ekki einföldu er líka arfur frá Linné. Þótt skrifað sé „mint“ í öðrum málum, er sú hefð viðhöfð að nota ypsilonið í öllum Norðurlandamálunum.

Mynturnar mynda nokkuð stóra og víðfeðma ættkvísl umhverfis allt norðurhvel jarðar. Þær eru af Varablómaætt, Lamiaceae. Sú plöntuætt er þekkt fyrir fjölda plantna sem leggja okkur til sterkar, rokgjarnar olíur, oftast nokkuð velilmandi og mikið notaðar sem krydd eða ilmgjafar. Stundum sem skordýravarnir.

Ræktun á myntum er næsta auðveld. Þær kjósa flestar frjóa, jafnraka mold og setja það ekki fyrir sig þótt nokkurn skugga beri á þær lengi dags. En í görðum hafa þær orð á sér, og það ekki að ástæðulausu, að þær skríði óhóflega út um allt neðanjarðar og skjóti upp kollinum hvar sem er í beðinu. Algjörlega án tillits til þess hverju ræktandinn hafði gert ráð fyrir. Í veg fyrir þetta má koma með því að grafa niður botnlaus ílát, s.s. múrarabala, víð plaströr eða stóra blómsturpotta sem ná að minnsta kosti 30cm niður fyrir moldaryfirborðið. Síðan þarf bara að taka þær upp, skipta þeim og smækka þegar þörf er á og þær byrjaðar að láta á sjá í prísundinni. Þetta er best að gera á vorin í þann mund sem þær eru byrjaðar að bæra á sér. Og auðvitað þurfa þær þá líka að fá nýja mold í bólið sitt.

Myntur eru góðar tejurtir. Laufin má þurrka á stað þar sem loftar vel um án þess að sól skíni á. Þegar hægt er að mylja laufin milli fingranna er kominn tími til að koma þeim í þéttlokuð ílát, s.s. glerkrukkur eða blikkdósir með smelltu loki og geyma á dimmum, þurrum og svölum stað.

Myntunum er auðvelt að fjölga með því að stinga greinum í glas með vatni. Þar róta þær sig á tæpri viku og eru þá settar í mold. Og svo má auðvitað fjölga þeim með skiptingu og rótarbútum.

Nokkrar góðar

Hér á Íslandi þekkjum við og ræktum nokkrar myntutegundir. Stórvöxnust og kröftugust er líklega eplamyntan, Mentha suaveolens. Viðurnefnið gefur til kynna að af henni leggi þokkafullan ilm. Eplamyntan er fremur blaðstór, blöðin ljósgræn og lóhærð. Vegna hæringarinnar eru þau lítt eftirsóknarverð í salöt eða ómatreidd. En þau eru góð að hafa með í ávaxtamauk af öllu tagi. Og svo má auðvitað fínsaxa þau. Bragðið er milt piparmyntubragð með eplakeim.

Hvítflekkótt afbrigði hennar er líka í ræktun og kallast ananasmynta. Af því er sætara bragð. Notað á sama hátt.

Eina myntan sem telst til íslensku flórunnar er vatnamynta, Mentha aquatica, sem eins og viðurnefnið bendir til vex helst á votum stöðum. Breiða af henni vex við hverasvæði á Reykjanesi við Djúp og hefur verið þar langalengi. Í það minnsta mundi afi minn, sem var fæddur 1888 og heimamaður á svæðinu, vel eftir henni frá unglingsárum sínum. Vatnamyntan er fremur lágvaxin, með lóhærð, tungulaga blöð. Hún er bragðsterk en bragðið nokkuð rammt piparmyntubragð sem kemur nokkuð á óvart séu blöðin tætt niður í hrásalat.

Nokkrir þekkja og rækta grænmyntu, Mentha spicata (viðurnefnið dregið af því að blómin eru saman í löngu axi). Hún er næstum hárlaus, en blöðin aflöng og afar bragðsterk. Í enskumælandi löndum er hún kölluð „spearmint“. Bragð sem við sem munum eftir Wrigleys tyggjói könnumst við. Afbrigði hennar með hrokknum, ögn breiðari blöðum finnst líka í ræktun. Það er kallað hrokkinmynta.

Akurmyntan, Mentha arvensis, er sjaldan ræktuð. Hún er afar hraðskreið og fljót að fylla alla bása sem henni eru úthlutaðir. Viðurnefni sitt fær hún af því að hún var algengasta myntan á slóðum og tímum Linnés. Hún vex eiginlega við allar akurreinar og bæjarhlöð í sænskum sveitum. Akurmyntan er bragðsterk, dálítið beisk samt, en lítið notuð í matargerð. Aftur á móti er gott að þurrka hana og nota sem tejurt.

Mojito - mohito

Piparmynta, Mentha × piperita (viðurnefnið þarf varla að útskýra), er ófrjór blendingur milli akurmyntu og vatnamyntu. Þ.e. hún blómgast gjarna en myndar aldrei fræ. Því verður að fjölga henni með græðlingum eða rótarskotum. Nokkrir klónar eru í umferð en sá sem er langsamlega algengastur og vinsælastur er rauðleitur, allt að því rauðfjólublár. Úr honum er unnin piparmyntuolía sem nota má sem skordýrafælu eða bragðefni í ýmiss konar sælgæti, tannkrem og jurtalyf.

Í breskri matseld er piparmyntan talsvert notuð sem krydd með lambakjöti. Einnig í reyniberjahlaup og ýmsar sultur. Og eftir að drykkurinn mojito varð lífelexír lattelepjandi liðsins í hjarta Reykjavíkur er mikið farið að bera á piparmyntunni þar sem svo háttar til að horfa má inn á miðbæjarlóðirnar frá gangstéttum borgarinnar. Mojito- eða mohito-drykkurinn er upprunninn hjá ánauðugu fólki á eynni Kúbu á meðan þrælahald var þar enn við lýði. Menn kreistu einfaldlega læmaldinsafa út í vatnsblöndu með sykurreyrslegi. Krömdu út í það myntulauf og helltu smáskvettu af rommi saman við. Drykkurinn varð heimsfrægur meðal skálda og bóhema um leið og það fréttist að rithöfundurinn Ernest Hemingway lægi í þessu á kránum í Havana. Og vinsældirnar hafa ekkert hjaðnað þótt langt sé um liðið síðan Hemingway horfði á heiminn í hinsta sinn. Síður en svo. En hvað varðar nánari útlistanir á þessum drykk verður að virða íslensku áfengislöggjöfina og gæta að sóma Bændablaðsins með því að vísa bara til viskuveitunnar google punktur com. 

Skylt efni: Garðyrkja | Mynta

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...