Nautgripir – baulaðu, búkolla
Afurðir nautgripa, kjöt og mjólk, eru meginstoðir matvælaframleiðslu í heiminum. Nautgripir njóta helgi samkvæmt trú hindúa. Í fimm löndum heims eru fleiri nautgripir en fólk.
Fjöldi nautgripa í heiminum árið 2015 er áætlaður 964,64 milljón gripir, 24 milljón færri en árið 2014. Á árunum 1995 til 2009 var fjöldi nautgripa í heiminum góður milljarður. Í fimm löndum, Úrúgvæ, Nýja-Sjálandi, Argentínu, Ástralíu og Brasilíu er að finna fleiri nautgripi en fólk.
Nautgripir eru aldir vegna kjötsins og mjólkurinnar auk þess sem þeir eru notaðir sem dráttardýr víða um heim og mykjan úr þeim notuð sem eldsneyti og byggingarefni.
Flesta gripi er að finna á Indlandi, í Brasilíu og Kína, samanlagt 64% allra nautgripa í heiminum. Nautgripir á Indlandi teljast vera rúmlega 300 milljón, 213 milljón í Brasilíu, rúmlega 100 milljón í Kína, tæplega 90 milljónir í Bandaríkjunum og um 52 milljón gripi er að finna í Argentínu.
Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru nautgripir á Íslandi 74.444 árið 2014.
Framleiðsla á nautgripakjöti
Áætluð heimsframleiðsla á nautgripakjöti árið 2015, samkvæmt FAOSTAD, var tæp 60 milljón tonn sem er rúmlega hálfu milljón tonni minna en árið 2014. Mest er framleiðslan í Bandaríkjunum rúm 11 milljón tonn, Brasilía er í öðru sæti með framleiðslu upp á 9,8 milljón tonn, lönd Evrópusambandsins framleiða tæp 7,5 og Kína 6,8 og Indland var í fimmta sæti og framleiddi um 4,5 milljón tonn af nautakjöti árið 2015. Önnur ríki eins og Argentína og Ástralía framleiða 2,7 og 2,6 milljón tonn. Mexíkó framleiddi um 1,8, Pakistan 1,7, Rússland tæplega 1,4 milljón tonn og Kanada rúm milljón tonn sama ár. Framleiðsla á nautgripakjöt á Íslandi árið 2015 var rúm 3.605 tonn.
Útflutningur mestur frá Indlandi
Stærsti útflutningsland nautakjöts í heiminum árið 2015 var Indland sem flutti út um tvö milljón tonn, Ástralía flutti út næstmest, rúm 1,8 milljón tonn, Brasilía var í þriðja sæti, rúm 1,6 milljón tonn. Bandaríkin fluttu út rúm milljón tonn. Í fimmta til tíunda sæti voru Nýja-Sjáland, Paragvæ, Kanada, Úrúgvæ og lönd Evrópusambandsins sem fluttu út frá tæpum 600.000 kílóum niður í 300.000 kíló.
Heildarverslun á nautgripakjöti milla landa árið 2015 er áætluð vera rétt rúm 9,6 milljón tonn sem er tæplega 400 þúsund tonna samdráttur frá 2014.
Innflutningur til Íslands
Innflutningur á nautgripakjöti til Íslands árið 2015 var 1.045 tonn en tæp 1035 tonn 2014 og tæp 256 tonn árið 2013. Til gamans má geta þess að árið 1999 nam innflutningur á nautgripakjöti til landsins 11,9 tonnum og því hundraðfaldast frá síðustu aldamótum. Búast má við að framleiðsla og innflutningur á nautakjöti muni aukast talsvert hér á landi á næstu árum vegna innflutnings á sæði úr norskum holdanautum og rýmri tollkvóta fyrir nautakjöt.
Neysla á mann
Íbúar í Hong Kong eru allra þjóða duglegastir að neyta nautgripakjöts eða um 56 kíló á mann á ári. Suður Ameríkanar taka líka hraustlega til matar síns þegar kemur að nautgripakjöt. Í Argentínu er neyslan á mann 44 kíló, í Úrúgvæ 37 kíló og rúm 27 kíló í Brasilíu á ári. Neysla í Bandaríkjunum er rúm 24 kíló á mann, 22,5 í Ástralíu. Því næst koma Síle, Paragvæ og Kanada þar sem neysla er um 20 kíló á mann.
Meðalneysla á nautakjöti á Íslandi árið 2015 var 14,1 kíló á mann samkvæmt vef Hagstofunnar. Mikil aukning hefur orðið á neyslu nautakjöts í landinu vegna vaxandi fjölda ferðamanna og því ólíklegt að Íslendingar borði tæp 14 kíló af nautakjöti á mann á ári.
Mjólkurframleiðsla
Að undanskilinni brjóstamjólk kvenfólks framleiða kýr um 83% af allri mjólk í heiminum. Buffalóa-kýr sjá mannfólki fyrir um 13% allrar mjólkur, huðnur um 2%, ær 1% og kameldýr um 0,3%. Auk þess sem eitthvað af mjólk fæst úr hófdýrum eins og ösnum og sebramerum og svo kaplamjólk.
Tölfræðingar FAOSTAD gera ráð fyrir að mjólkurframleiðsla kúa hafir verið um 782 milljarðar lítra eða 805 milljón tonn árið 2015 sem er 2% aukning frá 2014. Árið 1982 nam heimsframleiðslan 482 milljón tonnum en var 754 milljón tonn árið 2012. Framleiðslan hefur næstum tvöfaldast á þremur áratugum og mest hefur aukningin verið á Indlandi, í Kína, Pakistan og Tyrklandi.
Samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi kúabænda var innvigtuð mjólk 12,5 milljón lítrar á Íslandi árið 2015 sem er metframleiðsla og 9,4% meira en árið 2014.
Húðir og leður
Af nautgripum fást húðir sem notaðar eru til vinnslu á leðri sem notað er til að búa til skó, fatnað, tjöld, lendaskýlur, burðarpoka, töskur og svipur svo fátt eitt sé nefnt. Gróft áætlað er 65% af öllu leðri unnið úr nautshúðum.
Horn nautgripa eru nýtt í list- og nytjamuni.
Klauf- og jórturdýr
Nautgripir eru klauf- og jórturdýr af ættkvíslinni Bos en tegundaheiti taminna nautgripa sem við þekkjum best er Bos taurus á latínu. Villtir nautgripir eru yfirleitt hyrndir en tamdir hafa verið ræktaðir til að vera kollóttir.
Linnaeus skilgreindi ættkvíslina á sínum tíma í þrjár ólíkar tegundir, evrópska nautgripi B. taurus, selbúa B. indicus og úruxa, B. primigenius.
Síðasti úruxinn var veiddur og drepinn í Póllandi árið 1627 og því útdauð tegund sem talin er vera forveri taminna nautgripa B. taurus.
Í dag er ágreiningur um hversu margar tegundir tilheyra ættkvíslinni Bos og rokkar fjöldinn frá fimm og upp í ellefu séu þrjár útdauðar tegundir taldar með, B. acutifrons †, B. frontalis, B. gaurus, B. grunniens, B. mutus, B. indicus, B. javanicus, B. palaesondaicus, B. planifrons †, B. primigenius †, B. sauveli og B. taurus. Ástæða ágreiningsins stafar meðal annars af því að ólíkar tegundir geta auðveldlega átt saman afkvæmi og það gerir tegundaflokkunina erfiðari.
Ræktunarkyn B. taurus telja yfir 800 og eru ólík í hegðun, lit og lögun.
Á íslensku nefnast karldýrin naut, tarfur eða tuddi en kvendýrin kýr og stundum kallaðar beljur. Afkvæmin kallast kálfar, eldri kvenkálfar kvígur, gelt karlnaut uxi eða geldingur og graðnaut griðungur eða þarfanaut.
Nautkálfar af flestum tegundum verða kynþroska undir lok fyrsta árs. Einfaldasta leiðin til að fylgjast með kynþroska þeirra er að fylgjast með stærð pungsins á þeim. Ummál pungs á fullþroska griðungi getur verið ríflega 40 sentímetrar.
Meðgöngutími B. taurus er níu mánuðir, með 15 daga fráviki, en getur verið ellefu mánuðir hjá öðrum tegundum ættkvíslarinnar. Af þeim tíma loknum bera kýrnar yfirleitt einum kálfi og stundum tveimur.
Þyngd kálfa við burð er mismunandi milli tegunda og ræktunarkynja og getur verið frá 15 til 45 kíló.
Stærð og þyngd fullorðinna nautgripa er mismunandi milli kynja, tegunda og ræktunarkynja. Fullvaxta nautgripir minnstu kynja eru milli 300 og 400 kíló að þyngd. Þyngsti nautgripur sem skráður er vó 2.140 kíló. Kjötmagn sem mundi duga í um það bil 45 þúsund hamborgara. Til samanburðar var Guttormur, þyngsti skráði íslenski nautgripurinn, 897 kíló.
Líftími nautgripa í náttúrunni er 18 til 25 ár en elsti tamdi nautgripur sem vitað er um náði 48 ára aldri.
Nautgripir eru jurtaætur sem hafa langa og sterka tungu sem þeir nota til að rífa upp gras eða setja upp í sig fóður sem þeir tyggja með stórum tönnum. Tungan er hrjúf eins og allir vita sem hafa látið kálf sjúga á sér fingur þegar átt hefur að gefa honum mjólk.
Eins og önnur jórturdýr hafa nautgripir fjórskiptan maga, vömb, kepp, vinstur og laka. Gerð magans gerir jórturdýrum mögulegt að melta gróft fóður og grængresi. Fyrst er átan tuggin og kyngt, síðan selt upp og tuggið aftur. Þegar átunni er kyngt í annað sinn fer hún í vömbina þar sem bakteríur brjóta hana niður.
Útbreiðsla og félagsform
Nautgripir eru hjarðdýr að eðlisfari sem finnast í öllum heimsálfum að Suðurskautinu undanskildu. Búsvæði þeirra er misjafnt eftir tegundum, gresjur og regnskógar og allt þar á milli. Sumar tegundir eru fardýr sem reika milli beitarsvæða eftir árstímum.
Í hverri hjörð eru frá tíu og upp í hundrað dýr, þar af eitt alfa naut. Goggunarröð í nautgripahjörðum er vel skilgreind og erfa kvígur stöðu móður í virðingarstiganum en ungnaut njóta meiri virðingar í hjörðinni en mæður þeirra og systur við tveggja ára aldur. Lægra sett dýr sýna undirgefni með því að sleikja þau sem eru ofar í goggunarröðinni.
Í eldi til mjólkurframleiðslu eru kálfarnir skildir frá móður strax eftir burð en við náttúrulegar aðstæður fylgja kálfar mæðrum sínum og eru á spena í átta til ellefu mánuði. Eftir það sýna kýr afkvæmum sínum verulega mismunun og hygla uppáhalds afkvæminu en reka hin frá sér. Uppáhalds afkvæmið er síðan beitarfélagi móður næstu fjögur til fimm árin.
Yfirráð ríkjandi karldýrs í hjörð er um fjögur ár. Valdaskipti milli forustunauta eiga sér oftast stað án beinna átaka og felast fremur í ógnunum og sýndarvaldi. Áður en ungnaut getur skorað forustunaut á hólm þarf það að vinna sig upp eftir virðingarstiga hjarðarinnar og sanna sig gagnvart öðrum keppendum um tignina. Stærð horna hefur mikil áhrif á stöðu karldýra í virðingarstiga hjarðarinnar.
Fæðuöflun nautgripa í náttúrunni er mest á morgnana og seinni part dags. Dýrin hvíla sig og jórtra yfir hádaginn, kvöldin og á nóttinni. Svefntími nautgripa eru fjórar til sex klukkustundir á sólarhring í náttúrunni.
Nautgripir og menn
Talið er að fyrstu nautgripirnir, B. primigenius, hafi veri tamdir í Tyrklandi og Pakistan á níundu öld fyrir upphaf okkar tímatals eða fyrir um 10.500 árum. Fyrst vegna kjötsins og sem dráttar- og burðardýr en síðar vegna mjólkurinnar.
Rannsóknir á erfðaefni nautgripa benda til að B. taurus sem nútíma ræktunarkyn eru komin af reki uppruna sinn til Suðaustur-Tyrklands og norðurhluta Íraks.
Stofn angló-saxneska kven-nautgripaheitisins „cow“ er hljóð-breyting á „cu“ sem kemur úr indó-evrópsku máli „gous“. Á persnesku er það „gav“, „go“ á sanskrít, „buwsh“ á velsku, „ki“ eða „kie“ á miðalda ensku, „key“ á gamalli skosku, „ko“ á dönsku og kýr og kú á íslensku.
Þeir sem heyra baul íslenskra nautgripa eru ekki sammála um hvort það sé „mu“ eða „mú“ og á sá ágreiningur eflaust eftir að vefjast fyrir mönnum um ókomna framtíð.
Allt frá 9. öld fyrir Krist hafa nautgripir verið mælikvarði á ríkidæmi og eru það enn víða um heim. Nautgripir hafa lengi verið notaðir sem verslunarvara og skiptimynt í viðskiptum og sem heimanmundur við kaup á brúður.
Fyrsta kýrin sem vitað er um að hafi ferðast með flugvél var kölluð Nellý og var flogið með hana milli staða í Missouri-ríkis í Bandaríkjunum árið 1930.
Trú og nautgripir
Samkvæmt Veda-helgiritunum eru nautgripir tákn um auðlegð og frjósemi og þeir njóta helgi í trú hindúa. Trúin kveður á um að fólki beri að umgangast nautgripi af sömu nærgætni og móður sína. Guðinn Krishna var alinn upp af nautahirðum og Shíva notar nautið Nandi sem reiðskjóta.
Egypsku guðirnir Apis og Hathor, gyðja ásta og frjósemi, tengjast nautgripum og var nautum iðulega fórna handa þeim. Dánarbeður faraósins Tutankhamun í grafhýsi sínu lýtur út eins og gyðjan Hathor í kýrlíki,
Í grískum goðsögnum er til tvífætt vera með nautshaus en líkama manns sem kallast Mínótáros og hefst við í völundarhúsi Míosar konungs í Knossos á Krít.
Í norrænni goðatrú varð frumkýrin Auðhumla til þegar frost úr Niflheimi blandaðist eldum Múspellsheims í Ginnungagapi. Úr júgri hennar runnu fjórar mjólkurár. Jötunninn Ýmir varð til á sama tíma og nærði Auðhumla hann á mjólk. Auðhumla nærðist aftur á móti á hrímsteinum. Einu sinni þegar hún var að sleikja hrímstein birtist hár manns, næsta dag höfuð og þriðja daginn maðurinn allur. Maðurinn var kallaður Búri.
Nautum og mönnum att saman
Uppruni nautaata er í Rómaveldi til forna þar sem skylmingaþrælum og nautum var att saman almenningi og aðlinum til dægrastyttingar. Nautaöt njóta talsverðra vinsælda í sumum löndum Suður-Evrópu og Suður-Ameríku en talsverður munur er á atinu milli landa. Frægust eru nautaötin á Spáni sem Ernest Hemingway lýsti frábærlega í bókinni Death in the Afternoon. Í hefðbundnu spænsku nautaati eru nautin sex og nautabanarnir þrír og felst leikurinn í því að æsa nautin til árásar sem nautabanarnir verjast með rauðri nautaveifu. Hápunktur atsins er þegar nautabaninn dregur fram sverð og rekur það milli herðablaða nautsins í þeim tilgangi að drepa það.
Til er siður þar sem nautum er sleppt inn á þröngar götur þar sem ungir karlmenn hafa safnast saman. Leikurinn felst í því að komast undan æðandi nautunum óslasaður og sanna þannig karlmennsku sína.
Margt skrýtið í kýrhausnum
Atferlisrannsóknir sýna að nautgripir geta hæglega lært og munað hvar fæðu er að finna og að þeir fara á milli þeirra staða. Gripirnir muna einnig hvar besta fæðan er í boði. Ungir gripir eiga auðveldara með að læra en eldri en langtímaminni eldri gripa er meira.
Rannsóknir benda til að nautgripir í ræktun greini á milli manna eftir andlitum og fari mannamun. Ein rannsókn, þar sem klónuðum kálfum frá nokkrum foreldrum var blandað saman í hóp, sýndi að kálfar undan sama foreldri hópuðust saman og mynduðu minni hópa.
Sjón nautgripa markast af því að augun eru staðsett á hliðinni á hausnum en ekki framan á honum. Fyrir vikið er sjónsvið þeirra vítt eða 330° en á sama tíma eru þeir með blint svæði beint framan við hausinn. Nautgripir greina betur milli lita með langa bylgjulengd eins og gulra, appelsínugulra og rauðra en lita með stutta bylgjulengd eins og blárra, grárra og grænna.
Heyrn nautgripa er góð og mælingar benda til að þeir heyri betur en hestar og að baul sé mikið notað í samskiptum nautgripa á milli.
Á tungu nautgripa eru um 20 þúsund bragðlaukar og bragðskyn þeirra vel þroskað og geta þeir greint á milli fæðu sem er sæt, sölt, bitur og súr. Þeir forðast bitra fæðu en sækja í sæta og salta.
Gróðurhúsalofttegundir og mykja
Samkvæmt skýrslu sem Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, sendi frá sér fyrir nokkrum árum losar búfé um 18% af gróðurhúsalofttegundum heimsins í dag og talið er að sú tala geti tvöfaldast fyrir 2050. Nautgripir eru þar stórtækastir enda prumpa þeir mikið. Í skýrslu FAO kemur einnig fram að mykja geti orðið umtalsvert vandamál á næstu áratugum verði ekkert að gert til að nýta hana.
Fjölbreyttir litir einkenna íslenska stofninn
Íslenskir nautgripir eru skyldastir norskum gripum og taldir vera sama kyn og landnámsmenn fluttu með sér til landsins. Lítils háttar var flutt inn af nautgripum til landsins á 18. og 19. öld en sá innflutningur hafði lítil áhrif á stofninn.
Í einni af elstu sögnunum um landnám Íslands segir frá því að þrælar Hjörleifs Hróðmarssonar, fóstbróður Ingólfs Arnarsonar, hafi fellt uxa hans og sögðu að skógarbjörn hefði drepið uxann til að leiða Hjörleif og menn hans í gildru.
Samkvæmt hinni fornu Hauksbók mátti kona helga sér land með því að leiða tvævetra kvígu vorlangan dag sólsetra í millum um það land sem numið var en karlmaður fór um landið með eldi sólsetra á milli.
Nautgripum fjölgaði hratt eftir landnám og í tíð Snorra Sturlusonar. Handritin eru skráð á nautgripahúðir.Hlutfall nautgripa á landinu var talsvert hærra frá landnámi og fram til 1500 en af sauðfé.
Eitt af því sem einkennir íslenska nautgripastofninn eru fjölbreytilegir litir og litaafbrigði og finnast gripir sem eru rauðir, svartir, gráir skjöldóttir, kolóttir, bröndóttir, bleikir, hvítir, huppóttir og rauðgrönóttir svo dæmi séu tekin. Ekki má gleyma gráum kúm sem ýmsir telja að séu af kyni sækúa. Nautgripir geta verið kollóttir, hyrndir og hnýflóttir.
Við kynbætur á íslenskum mjólkurkúm er gefin einkunn eftir átta þáttum. Afurðir gildir 44% af einkunninni. Síðan eru sjö þættir sem hver gildir 8%, mjaltir, júgur, spenar, skap, ending, frjósemi og frumtala í mjólk, sem er mælikvarði á júgurheilbrigði.
Kúa er oft getið í þjóðsögum og sagt er að þær fái mannamál á nýárs- og Jónsmessunótt og ræða saman um allt milli himins og jarðar. Einu sinni lá maður úti í fjósi á nýársnótt til að heyra um hvað kýrnar töluðu þegar þær fengu málið. Hann heyrði eina kúna segja: „Mál er að mæla.“ En þá segir önnur: „Maður er í fjósinu“, tekur þá þriðja kýrin til máls og segir: „Hann skulum við æra.“ Og sú fjórða: „Áður en ljósið kemur.“ Maðurinn náði að segja heimafólki frá atburðinum um morguninn en síðan gekk hann af göflunum.
Þorgeirsboli
Sagan um Þorgeirsbola er líklega með óhugnanlegri draugasögum. Í sögunni segir frá manni sem hét Þorgeir og ákvað að vekja upp draug og senda á konu sem vildi hann ekki.
Þorgeir komst yfir nýborinn nautkálf sem hann skar og fláði aftur á malir og vakti svo upp með göldrum. Í sárið, þar sem kálfurinn var fleginn, lét hann átta hluti, einn af lofti, einn af fugli, einn af manni annan af hundi, einn af ketti og mús og einn af sjókvikindum tveimur. Átti boli með þessu að geta brugðið sér í allra þessara kvikinda líki og farið jafnt um loft sem lög og láð og komið fyrir sjónir í öllum þeim myndum sem í honum voru náttúrur. Loks steypti Þorgeir sigurkufli af nýfæddu barni yfir drauginn, og átti hann þannig að verða svo gott sem ósigrandi.
Þeir sem sáu til Þorgeirsbola sögðu höfuðið á draugnum flegið langt aftur á skrokkinn og blóðrisa. Stór hluti húðarinnar dregst á eftir bola svo að holdrosinn snýr út.