Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Nythæsta kýrin á landinu árið 2019 var Svana 1639001-0753 í Flatey á Mýrum í Hornafirði.
Nythæsta kýrin á landinu árið 2019 var Svana 1639001-0753 í Flatey á Mýrum í Hornafirði.
Mynd / HKr.
Á faglegum nótum 4. febrúar 2020

Niðurstöður skýrsluhaldsársins hjá mjólkurframleiðendum 2019

Höfundur: Guðmundur Jóhannesson, ráðunautur búfjárræktar- og þjónustusviðs, og Sigurður Kristjánsson skýrsluhald og prófarkalestur
Niðurstöður skýrsluhaldsins í mjólkurframleiðslunni á árinu 2019 hafa verið reiknaðar og birtar á vef Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins, www.rml.is. Hér verður farið yfir helstu tölur úr uppgjörinu. 
 
Afurðaskýrsluhald hefur verið skilyrði fyrir greiðslum samkvæmt samningi um starfsskilyrði í nautgriparækt í rúmlega þrjú ár. Þetta hefur komið okkur á þann stall að þátttaka í skýrsluhaldi er um 100% sem mun vera einsdæmi í heiminum eftir því sem næst verður komist.
 
 
Þeir framleiðendur sem skiluðu einhverjum, en þó mismiklum upplýsingum um afurðir kúa sinna á nýliðnu ári voru 556 en á árinu 2018 voru þeir 569. Niðurstöðurnar eru þær helstar að 25.819,4 árskýr skiluðu 6.334 kg nyt að meðaltali. Það er afurðaaukning um 59 kg frá árinu 2018 en þá skiluðu 26.207,7 árskýr meðalnyt upp á 6.275 kg. Jafnframt eru þetta mestu meðalafurðir frá upphafi vega og fjórða árið í röð sem þær ná yfir 6.000 kg eftir árskú. Umreiknaðar í orkuleiðrétta mjólk (OLM) eru meðalafurðir síðasta árs 6.586 kg/árskú.
 
Meðalbústærð reiknaðist 47,6 árskýr á árinu 2019 en sam­bærileg tala var 47,1 árið á undan. Meðalbústærð reiknuð í skýrslufærðum kúm var nú 62,9 kýr en 2018 reiknuðust þær 63,0. Samtals voru skýrslufærðar kýr ársins 34.979 talsins samanborið við 35.823 árið áður.
 
 
Mestar meðalafurðir á Austurlandi
 
Svæðaskipting er nú gjörbreytt og fylgir að segja má kjördæmum. Á árinu voru mestar meðalafurðir á Austurlandi, 6.653 kg, og síðan kemur Norðurland eystra með 6.502 kg.
 
Stærst eru búin að meðaltali á Suðurlandi, 50,2 árskýr, en næststærst eru þau á Austurlandi, 49,9 árskýr.
 
Meðalbúið stendur í stað
 
Meðalbúið stækkaði milli ára í takt við breytingar á innleggi mjólkur og fækkun innleggjenda. Meðalinnlegg á bú með innlegg allt árið nam 277.417 lítrum samanborið við 274.340 lítra á árinu 2018. Þetta er nánast sama meðalinnlegg og árið 2018 eða aðeins aukning um 0,03%. Á sama tíma fækkaði innleggjendum mjólkur um þrettán og voru kúabú í framleiðslu 543 talsins nú um áramótin 2019-2020.
 
Gríðarleg vanhöld á kálfum
 
Athygli vekur hversu gríðarlega mikil vanhöld eru á kálfum. Þannig fæðist eða drepst í fæðingu meira en fjórði hver kálfur hjá kúm við 1. burð og nú er svo komið að vanhöld á fyrstu sex mánuðum æviskeiðsins eru 10%. Þar er verið að tala um kálfa sem fæðast lifandi. Fyrir nokkrum árum síðan var nánast óþekkt að kálfar sem á annað borð fæddust lifandi dræpust. Þetta leiðir hugann að því hvort að aðbúnaði og umhirðu sé á einhvern hátt ábótavant þar sem ekki er því að heilsa að sjúkdómar hrjái íslenska kálfa í stórum stíl eins og gerist og gengur víða erlendis. Getur verið að við hönnun nýju, stóru og tæknivæddu fjósanna hafi láðst að huga að ungviðinu sem þarf þá að hírast í kulda og trekki úti í horni?
 
 
Mestar meðalafurðir á Hurðarbaki í Flóa
 
Mest meðalnyt eftir árskú á nýliðnu ári, 2019, var á Hurðarbaksbúinu ehf. á Hurðarbaki í Flóa. Segja má að þetta bú sé einn hástökkvara ársins en meðalafurðir þar jukust um ein 1.314 kg/árskú milli ára en á árinu 2019 var nytin á Hurðarbaki að meðaltali 8.678 kg/árskú. Á Hurðarbaki er nýlegt legubásafjós með mjaltaþjóni og hafa afurðir aukist hraðstiga þar á bæ frá því nýja fjósið var tekið til notkunar. Í öðru sæti að þessu sinni var bú þeirra Ólafar og Valgeirs í Hvammi á Barðaströnd. Þetta bú skipaði áttunda sætið við ársuppgjör 2018 en við afurðaaukningu upp á 207 kg/árskú milli ára endar búið í öðru sæti yfir landið. Kýrnar í Hvammi mjólkuðu til jafnaðar 8.394 kg/árskú á árinu 2019.
 
Þriðja í röðinni við uppgjörið nú og annað árið í röð var bú Guðlaugar og Jóhannesar Eybergs á Hraunhálsi í Helgafellssveit á norðanverðu Snæfellsnesi en þar var meðalnyt árskúnna 8.307 kg. Í fjórða sæti var bú Stóru-Tjarna ehf. á Stóru-Tjörnum í Ljósavatnsskarði í Þingeyjarsveit þar sem meðalafurðir kúnna reiknuðust 8.294 kg. Fimmta sætið skipar bú Brúsa ehf. á Brúsastöðum í Vatnsdal en þetta bú hefur á undanförnum árum verið með alafurðahæstu búum landsins og dugar þar að nefna annað sætið 2018 og fyrsta sætið 2013, 2014, 2016 og 2017. Auk þess er búið handhafi Íslandsmets í meðalafurðum, 8.990 kg/árskú. Kýrnar á Brúsastöðum mjólkuðu að þessu sinni 8.292 kg/árskú. Sjötta í röðinni var svo afurðahæsta bú síðasta árs og búið í öðru sæti árið 2017, bú þeirra Karls Inga og Erlu Hrannar á Hóli í Svarfaðardal. Þar var meðalnyt ársins 8.286 kg/árskú.
 
Þessum búum til viðbótar náðu átta bú yfir 8.000 kg meðalafurðum eftir árskú eins og sjá má í meðfylgjandi töflu. Búin þar sem meðalafurðir voru 8.000 kg. á árskú og þar yfir eru því jafnmörg og á árinu 2018.
 
 
Svana 0753 í Flatey í Hornafirði mjólkaði mest 
 
Nythæsta kýrin á landinu árið 2019 var Svana 1639001-0753 í Flatey á Mýrum í Hornafirði, undan Grána 0608 sem var sonarsonur Lóa 01008. Reyndar er Svana nokkuð skyldleikaræktuð en föðurfaðir og móðurfaðir hennar eru eitt og sama nautið. Svana mjólkaði 14.345 kg með 3,59% fitu og 3,23% próteini. Burðartími hennar féll mjög vel að almanaksárinu en hún bar sínum fimmta kálfi 13. desember 2018 og sínum sjötta kálfi bar hún 15. desember síðastliðinn. Svana fór hæst í 55,7 kg dagsnyt á nýliðnu ári en geldstaða hennar var stutt eða nánast engin og eftir síðasta burð komst hún í 40 kg dagsnyt um áramótin. Svana er fædd á Svanavatni í Austur-Landeyjum í september 2011 en við lok mjólkurframleiðslu þar flutti hún sig um set. Því miður voru ekki haldnar mjólkurskýrslur á Svanavatni á þessum tíma og því eru ekki til gögn um afurðir Svönu á hennar fyrsta mjólkurskeiði. Skráðar æviafurðir hennar, sem ná þá frá öðru mjólkurskeiði til og með byrjunar þess sjötta, voru 49.368 kg um síðustu áramót.
 
Önnur í röðinni árið 2019 var Spurning 1818 í Birtingaholti 1 í Hrunamannahreppi, undan Skjá 10090, en hún mjólkaði 13.617 kg með 3,72% fitu og 3,31% próteini. Þessi kýr bar sínum fjórða kálfi þann 11. desember 2018 og fór hæst í 49,0 kg dagsnyt á árinu 2019. Skráðar æviafurðir hennar eru 41.284 kg. Þriðja nythæsta kýrin var Rækja 2073 í Flatey í Hornafirði, undan Kóngi 11059, en nyt hennar á árinu var 13.515 kg með 3,78% fitu og 3,45% próteini. Hún bar sínum þriðja kálfi 18. nóvember 2018, fór hæst í 47,5 kg dagsnyt og skráðar æviafurðir hennar eru 31.252 kg. Fjórða nythæsta kýrin var Píla 1288 í Garði í Eyjafirði, dóttir Afla 11010, en hún mjólkaði 13.476 kg með 3,00% fitu og 3,00% próteini. Hún bar þriðja sinni 20. desember 2018 og fjórða sinni 14. desember síðastliðinn. Á árinu 2019 fór hún hæst í 57,9 kg dagsnyt og skráðar æviafurðir eru 39.110 kg. Fimmta í röðinni var kýr nr. 643 í Lyngbrekku í Flekkudal á Skarðsströnd, dóttir Svips 10038. Hún bar fjórða kálfi sínum 20. janúar 2019 og fór hæst í 52,6 kg dagsnyt en hún skilaði samtals 13.219 kg á árinu með 3,57% fitu og 3,09% próteini. Skráðar æviafurðir eru 37.798 kg.
 
Alls skiluðu 130 kýr afurðum yfir 11.000 kg og þar af 43 yfir 12.000 kg. Árið 2018 náði 91 kýr nyt yfir 11.000 kg.
 
Á árinu rufu tvær kýr 100 tonna múrinn
 
Á árinu 2019 gerðist nokkuð sem má allt að því kalla undur og stórmerki þegar tvær kýr náðu æviafurðum upp á 100.000 kg mjólkur. Við sjáum gjarnan í erlendum nautgriparæktartímaritum kýr sem ná 100 tonna æviafurðum heiðraðar. Þar er oftar en ekki um að ræða Holstein-kýr sem mjólka mun meira að meðaltali en íslenskar kýr og því ekki hægt að segja annað en að það sé mikið afrek hjá kúm af kyni þar sem meðalafurðir eru ríflega 6.000 kg á ári að ná 100 tonna æviafurðum. 
 
Afrekskýrin Braut 112 á Tjörn á Skaga náði þessum merka áfanga um miðjan mars. Braut var fædd 12. september 2005, dóttir Stígs 97010, og átti sinn fyrsta kálf 23. október 2007 en alls bar hún 10 sinnum að meðtöldum tveimur fósturlátum. Þrátt fyrir þau áföll náði Braut að mjólka 101.351 kg mjólkur á ævinni en hún var felld þann 27. júní síðastliðinn sökum elli. Mestum afurðum á einu almanaksári náði hún 2011, 10.961 kg, en á árinu 2017 hjó hún nærri því er hún mjólkaði 10.699 kg. Mestum afurðum á einu mjólkurskeiði náði hún á sínu 10. og síðasta, 20.750 kg, enda var það langt en hún bar síðast 7. febrúar 2017. 
 
Um mánaðamótin nóvember-desember bættist afrekskýrin Jana 432 á Ölkeldu 2 í Staðarsveit á Snæfellsnesi í hóp þeirra afreksgripa sem rofið hafa 100 tonna múrinn í æviafurðum. Nú um áramótin hafði hún mjólkað 100.449 kg mjólkur yfir ævina en hún var í 12,0 kg dagsnyt þann 28. desember. Jana 432 er fædd 8. mars 2005, dóttir Stígs 97010. Hún bar sínum fyrsta kálfi þann 18. september 2007 og hefur borið níu sinnum síðan þá, síðast 28. desember 2017. Mestum afurðum á einu ári náði Jana árið 2013 þegar hún mjólkaði 10.372 kg en hún náði einnig ársafurðum upp á meira en 10 þús. kg árið 2018. Mestu mjólkurskeiðsafurðir hennar eru á yfirstandandi mjólkurskeiði sem er æði langt, spannar orðið tvö ár. Hún er nú komin í 15.694 kg frá síðasta burði. Illa hefur gengið að koma kálfi í hana eftir síðasta burð en hún var síðast sædd 11. nóvember síðastliðinn og gæti því verið fengin. Afkomendur Jönu eru fjölmargir víða um land en hún skilaði nauti á stöð sem fékk dóm til framhaldsnotkunar sem reynt naut og því fékk sæði úr því mikla dreifingu. Þar er um að ræða Öllara 11066 en faðir hans var Ófeigur 02016.
Núverandi Íslandsmet í æviafurðum á Mókolla 230, dóttir Snarfara 93018, á Kirkjulæk 2 í Fljótshlíð, 114.635 kg.
 
Mjólkurframleiðendum öllum, en ekki síst ábúendum á Hurðarbaki í Flóa og Flatey á Mýrum í Hornafirði, óskum við til hamingju með glæsilegan árangur og þökkum gott samstarf á nýliðnu ári. 
„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...