Rannsóknastofa Landgræðslunnar
Rannsóknastofa Landgræðslunnar er staðsett í Gunnarsholti í Rangárvöllum, hún samanstendur af mörgum vinnusvæðum.
Tilgangur hennar er að veita þjónustu sem verkefni Landgræðslunnar þarfnast á hverjum tíma. Fyrir 20 árum má segja að helstu verkefni rannsóknastofunnar hafi verið hin árlega framleiðsla á Rhizobium bakteríunni til að smita lúpínufræ ásamt stöku spírunarprófi á fræi. Í dag er hlutverkið stærra og víðtækara og felst helst í umsjón og skipulagi á söfnun og vinnslu sýna og gagna, meðal annars í verkefnum sem tengjast loftslagsbókhaldi Íslands og rannsóknum á lífrænum og tilbúnum áburði. Einnig eru gerð spírunarpróf bæði sem hluti af gæðaeftirliti á fræi framleitt hjá Landgræðslunni og fyrir innflutningsaðila í samstarfi við MAST til að endurnýja vottorð á fræi sem fer í sölu.
Mikil þekkingaröflun hefur átt sér stað ásamt þróun aðferða og hönnunar, einnig smíði tækja og tóla fyrir ýmis verkefni á rannsóknastofunni. Vinnuaðstaðan hefur verið byggð upp og bætt gegnum árin og er orðin mjög góð.
Aðstöðunni er skipt upp í þrjú megin vinnusvæði:
Rannsóknastofuna, þar sem gerðar eru þurrefnismælingar á gróður-, jarðvegs- og fræsýnum, ásamt gæðaeftirliti og spírunarprófi á fræjum.
Gróðurkofann, þar sem m.a. fer fram sigtun og mölun á gróðursýnum.
Moldarkofann, þar sem m.a. fer fram sigtun og mölun á jarðvegssýnum.
Í umsjón Rannsóknastofunnar er þurrkherbergi fyrir sýni, Bauhaus (húsið hennar Bau rannsóknastjóra) og Áhalda- herbergið til geymslu tækja og tóla.
Fjölbreytt vinna á mismunandi tímum ársins
Rannsókna- og vöktunarverkefnum má skipta í tímabil eftir verkþáttum.
Sýna- og gagnavinnsla er í gangi allt árið en í mars til maí bætist við skipulag og undirbúningur fyrir vettvangsvinnu, eða svokallað felt, sem fer aðallega fram á tímabilinu júní til september.
Vinna með fræ skiptist aðallega á tvö tímabil, í september og október er fylgst með þurrkunarferlinu á nýuppskornu Landgræðslufræi þar sem gerð eru þurrefnismælingar. Í nóvember er byrjað að taka á móti fræi til spírunar og standa spírunarprófin fram í apríl.
Eitt helsta rannsókna- og vöktunarverkefnið er CO2LuR
CO2LuR er umfangsmikið og sennilega einstakt verkefni á heimsvísu sem hefur verið í gangi hjá Landgræðslunni síðan 2007. Það er margþætt og hefur m.a. að markmiði að meta aðferðafræði við mismunandi uppgræðsluaðferðir og skoða gróðurframvindu, einnig er kolefnisinnihald metið og niðurstöðurnar notaðar í loftslagsbókhald Íslands. Rúmlega 650 rannsóknareitir 10x10 m að stærð sem dreifast á uppgræðslusvæði um land allt.
Á sumrin er farið í felt þar sem heimasmíðuð verkfæri eru notuð til mælinga á gróðri og jarðvegssýnatökum. Stærð og þróun verkefnisins hefur gert nauðsynlegt að bæta aðstöðu bæði til geymslu og sýnavinnslu.
Að lokinni feltvinnu eru sýnin í þurrkuð í Bauhaus í Gunnarsholti, gróðursýnin við 40°C í stórum ofni sem starfsmaður Landgræðslunnar Sigurður Ásgeirsson heitinn smíðaði en jarðvegssýnin eru þurrkuð við herbergishita. Þegar sýnin eru þurr fara þau í vinnslu í Gróður- eða Moldarkofanum.
Rannsóknastofan gegnir margþættu hlutverki sem hefur breyst, stækkað og þróast gegnum tíðina í takt við breytingar á landgræðslustarfinu og spennandi verður að taka þátt í þessari þróun á komandi árum.
Ef áhugi vaknar á Rannsóknastofunni er velkomið að hafa samband við Anne Bau rannsóknastjóra á anne.bau@landgraedslan.is.