Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Kindur sem eru ekki arfgerðargreindar. F: faðir, M: móðir; L: lamb; MF: móðurfaðir; MM: móðurmóðir.
Kindur sem eru ekki arfgerðargreindar. F: faðir, M: móðir; L: lamb; MF: móðurfaðir; MM: móðurmóðir.
Á faglegum nótum 3. september 2024

Riðukynbótamat

Höfundur: Jón Hjalti Eiríksson, lektor við LbhÍ og Þórdís Þórarinsdóttir, ráðunautur í búfjárrækt hjá RML.

Í júlí síðastliðnum birtist þetta nýja kynbótamat fyrir riðumótstöðu í kynbótamatsyfirlitinu í Fjárvís. Það er von okkar sem stöndum að þróun og innleiðingu þess að þetta geti orðið gagnlegt hjálpartæki nú þegar sauðfjárbændur fara af fullum krafti í að innleiða verndandi arfgerðir gegn riðuveiki inn í sauðfjárstofninn.

Jón Hjalti Eiríksson og Þórdís Þórarinsdóttir.

Valið fyrir riðumótstöðu fer fram á grundvelli arfgerðar príongensins sem er hægt að greina með frekar auðveldum hætti. Samt sem áður er ljóst að ekki er raunhæft að arfgerðargreina allar kindur sem koma við sögu í þessu stóra verkefni. Ætternisupplýsingar geta aftur á móti í mörgum tilfellum gefið upplýsingar um hvaða arfgerðir kindur geta verið með þó þær séu ekki arfgerðargreindar. Slík spá fyrir alla gripi í ættartölu stofnsins er flókið verkefni, sérstaklega í ljósi þess hve margar samsætur um ræðir og hve margir möguleikar geta orðið ef reynt er að spá meira en eina kynslóð fram eða aftur í ættir. Þess vegna höfum við hjá Landbúnaðarháskóla Íslands og Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins þróað þessa frekar einföldu aðferð til að spá fyrir um riðumótstöðu kinda sem ekki eru arfgerðargreindar byggt á ætternisupplýsingum, og köllum spána riðukynbótamat.

Aðferðir

Aðferðin byggir á ákveðnum einföldunum sem gerir að hún er ekki algerlega nákvæm í öllum tilfellum. Hún hefur aftur á móti þann kost að gefa eina tölu fyrir allar kindur sem niðurstöðu sem getur verið þægilegt til að bera saman kindur með mismunandi upplýsingar á bak við sig. Spáin sem við gerum er skilgreind eins og kynbótamat, þ.e. þetta er spá fyrir um hverju hver kind skilar til afkvæma sinna frekar en spá um hvaða mótstöðu hún sjálf er með. Þetta fer þó yfirleitt saman. Jafnframt er hún sett fram á sama hátt og vaninn er með kynbótamat hér á landi, þ.e. sem tala með meðaltal 100 og staðalfrávik 10. Aðferðin er í stuttu máli þannig að fyrst er gerð spá um fjölda eintaka af hverri genasamsætu sem líklegt er að hver gripur beri. Fyrir arfgerðargreinda gripi er það vitað út frá greiningunni. Fyrir aðra gripi er byggt á ætterni. Spáin tekur tillit til óvissu með því að gefa upp tölur á milli heilu talnanna.

Í raun getur hver kind bara haft nákvæmlega 0, 1 eða 2 eintök af hverri samsætu en spáin getur þá t.d. verið 0,5 ef helmings líkur eru á að kindin erfi eina slíka samsætu. Í næsta skrefi eru niðurstöðurnar teknar saman fyrir allar samsætur. Hverri arfgerð er gefið tölugildi sem lýsir því hve mikil vernd er tengd viðkomandi samsætu samkvæmt þeim rannsóknum sem hafa verið gerðar. Byggt á því er tekið saman í eina tölu hver líkleg mótstaða afkvæma hverrar kindar er.

Riðukynbótamat fyrir arfgerðargreindar kindur.

Niðurstöður

Prófanir á aðferðinni sýndu að öryggi spárinnar, þ.e. líkur á að mótstaðan sem spáð er sé nærri þeirri sem kemur í ljós ef kindin er arfgerðargreind, er ágæt ef hátt hlutfall skyldra kinda eru greindar. Hversu örugg spáin verður fyrir einstaka bú er þannig mjög háð því hvort mikið er arfgerðargreint í hjörðinni og hve mikið sæðingar hafa verið notaðar á búinu. Sæðingarnar hafa áhrif því arfgerð sæðingahrútanna er þekkt. Niðurstöðurnar sýndu líka skýrt að það er drýgra að arfgerðargreina hrúta en ær til að þekkja arfgerðirnar í sinni hjörð því hrútarnir eiga að jafnaði mun fleiri afkvæmi en ærnar. Þessar aðferðir virðast jafnframt virka betur og eiga betur við fyrir samsætur sem eru ekki mjög sjaldgæfar. Eins og staðan er í dag eru það þannig frekar H154 (AHQ) og C151 og samsæturnar sem þessar spár eru viðeigandi fyrir. Fyrir R171 (ARR) og T137 ætti að byggja á  arfgerðargreiningum sem mest næstu 1–2 tvö árin alla vega. Þegar fram líða stundir og þessar samsætur verða algengari verður frekar gagn af spánni fyrir þessar samsætur líka og hægt að fara að spara sér arfgerðargreiningar.

Í meðfylgjandi töflum er dæmi um kynbótamat nokkurra kinda, bæði arfgerðargreindra og ekki arfgerðargreindra. Þessar örfáu arfhreinu verndandi R171 kindur sem eru þekktar eru eðlilega langhæstar, með mat upp á 167 og kindur arfhreinar með áhættuarfgerðina V136/V136 lægstar með 57. Aðrar arfgerðir raðast þar á milli, og villigerðin (ARQ/ARQ), sú algengasta fær mat um 94–95. Við skoðun á matinu sást hvernig kindur sem eru lægri en 95 reynast eiga ættingja með V136 (VRQ), áhættusamsætuna. Þær sem eru hærri en 97 reynast svo eiga forfeður eða afkomendur með mögulega lítið næmar, mögulega verndandi eða verndandi samsætur.

Notagildi

Við sem höfum unnið að þessu sjáum notagildi kynbótamats fyrir riðumótstöðu helst fyrir okkur með tvennum hætti. Í fyrsta lagi, nú þegar ræktunin gegn riðu er að byrja getur það hjálpað til við að finna ær sem mögulega bera mögulega verndandi samsætur, þá helst H154 því sú er algengust í á stofninum.

Þessar ær eru þá með kynbótamat nokkuð yfir 100 á meðan þær sem eru næsta örugglega bara með næmar samsætur fá mat undir 100. Það kann þá að vera meiri ástæða til að láta greina ær með hærra mat eða taka lömbin undan þeim til skoðunar og ásetnings. Hin leiðin til hagnýtingar verður trúlega frekar notuð þegar við verðum komin lengra í innleiðingunni, en þá gæti verið gagnlegt að horfa til riðukynbótamatsins við val ásetningsgimbra til að spara arfgerðargreiningar en reyna jafnframt að hámarka mótstöðu gimbrahópsins sem er settur á.

Skylt efni: riðukynbótamat

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...