Rjúpan
Rjúpan er eini hænsnfuglinn sem lifir villtur á Íslandi. Hún er einstaklega harðgerður fugl og hefur eindæma eiginleika til að aðlagast og lifa af íslenska veðráttu. Hún er einnig mjög vinsæl veiðibráð og þykir einstaklega góður matur. Núna 20. október hefst veiðitímabilið og er rétt að fjalla aðeins um aðdraganda og fyrirkomulag veiða árið 2023. Undanfarin ár hefur verið farið í löngu tímabæra vinnu við stjórnunar- og verndaráætlun rjúpu og nýtt stofnlíkan fyrir rjúpnastofninn. Markmiðið með þessari vinnu er að efla faglegan grunn veiðistjórnunar, efla traust meðal hagsmunaaðila og stofnana og auka gagnsæi og fyrirsjáanleika í árlegri veiðistjórnun. Stefna stjórnvalda er að nýting rjúpnastofnsins skuli vera sjálfbær. Mikilvægur þáttur í þessu er að rjúpnaveiðimenn stundi hóflega veiði til eigin neyslu og er rétt að minna á að algjört sölubann er á rjúpu. Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra hefur staðfest að veiðitíminn í ár skuli vera frá 20. október–21. nóvember. Heimilt verður að veiða rjúpu frá og með föstudögum til og með þriðjudögum á þessu tímabili.