Seglar í vömbum bjarga lífi kúa
Allt of margir kúabændur í heiminum láta hjá líða að setja segla í vambir nautgripa, en það er hreint ótrúlegt hvað svona seglar gera mikið gagn enda geta víða leynst bútar af málmum og borist ofan í gripina.
Greinarhöfundi er ekki kunnugt um hérlenda rannsókn á tíðni þess að aðskotahlutir finnist í meltingarvegi sláturgripa, en það væri fróðlegt að taka slíkt saman. Erlendis hefur þetta oft verið gert og sýna tölur frá t.d. Danish Crown í Danmörku, stærsta sláturleyfishafa nautgripa þar í landi, að járnflísar og aðskotahlutir finnist í tíundu hverri sláturkú og að þær hafi þá einnig verið greindar með langvarandi bólgur í meltingarvegi vegna þessa. Af þessu má leiða líkum að því að ástæða þess að þessar kýr hafi einmitt endað í sláturhúsinu sé vegna þess að þær hafi fóðrast illa vegna þessara aðskotahluta. Þá er talið að þess utan komi til bráðatilfelli sem leiði til dauða vegna aðskotahluta. En hvernig berst járn eða málmur í kýrnar og hvernig má draga úr hættunni á því að þetta valdi skaða? Skoðum það nánar.
Hvaðan kemur málmurinn?
Málmar geta borist ofan í nautgripi úr ýmsu því sem er í umhverfinu en nautgripir kjamsa á svo til öllu svo ekki þarf að koma á óvart, ef málmur er í nærumhverfinu, að hann berist ofan í gripi. Dósir, bútar úr girðingum, járnflísar úr fóðurkerfum og færiböndum eru allt þekktir orsakavaldar aðskotahluta sem berast í nautgripi. Erlendis er reynslan þó sú að málmflísarnar megi oftast rekja til dekkja sem eru notuð til að fergja vothey í stæðum.
Afskorin dekk henta mjög vel í það að fergja plastið ofan á stæðunni en hættan er sú að úr þeim berist litlar stálflísar í fóðrið. Bændum er því ráðlagt að vera vakandi yfir gæðum afskorinna dekkja sem eru notuð í svona tilgangi og helst af öllu er mælt með því að hætta dekkjanotkun og nota þess í stað sandfyllta strigapoka sem gera sama gagn eða jafnvel betra en dekkin.
Festist í keppnum
Nautgripir flokka ekki fæðuna sem þeir innbyrða og éta því oft aðskotahluti með fóðrinu, gleypa hreinlega í sig það sem fyrir þá er lagt eða er í umhverfinu.
Ef svo illa vill til að málmur berst ofan í meltingarveg nautgrips, þá byrjar hann á því að veltast til í vömbinni en situr sjaldnast þar fastur heldur festist í keppnum og getur stungist í gegnum vegg hans og inn í önnur aðliggjandi líffæri, eins og t.d. lifur, þind eða hjartat. Keppurinn er þannig hannaður að hann á að sía frá grófara hluta fóðursins og hleypa einungis í gegn smáum og vel meltum ögnum. Fyrir vikið komast aðskotahlutirnir ekki lengra niður í meltingarveginn og hjá nautgripum er því ekki um að ræða að slíkir aðskotahlutir skili sér út um „hinn endann“, eins og líklega flestir kannast við þegar kemur að svörum lækna ef einhver tvífætlingur hefur óvart sett eitthvað óheppilegt ofan í sig. Slíkt skilar sér sem sagt í gegnum meltingarveginn hjá fólki en ekki nautgripum.Keppurinn stoppar allt slíkt og má sjá á meðfylgjandi mynd hvernig stálvírar hafa hreinlega stungist inn í vegg kepps.
Forvarnir
Besta ráðið til að forðast vandamál tengd aðskotahlutum í meltingarvegum nautgripa er auðvitað að viðhalda góðum vinnubrögðum við fóðrun og fóðurblöndun og með því móti draga úr líkum á því að eitthvað óæskilegt berist inn á fóðurgang.
En til að draga enn frekar úr líkunum á því að það gerist er alltaf mælt með því að ef notaður er fóðurblandari, t.d. heilfóðurblandari, að þá skuli hann útbúinn sterkum segli eða seglum sem þá draga til sín svona málmhluti sem kunna að leynast í fóðrinu.
En ef ekki er notaður fóður- blandari á kúabúinu er í raun eina ráðið, fyrir utan það sem hér að framan er nefnt, að setja vambarsegla ofan í gripina.
Vambarseglar
Notkun vambarsegla, sem eru oftast 30–35 mm í þvermál og um 10 cm langir, er í raun afar ódýr og einföld leið til að draga úr líkum á neikvæðum áhrifum þess ef aðskotahlutir úr málmi berast niður í nautgripina.
Í Danmörku er verið að selja svona segla frá 200 íslenskum krónum eftir styrk og gæðum svo kostnaðurinn ætti varla að standa í vegi bænda fyrir því að setja segla í gripina. Ef tekst að hjálpa einum grip, þá er kostnaðurinn búinn að margborga sig. Margar erlendar rannsóknir sýna nefnilega fram á ótvíræð jákvæð áhrif þess að nota svona segla og við slátrun gripa, sem í hafa verið settir vambarseglar, hafa oft fundist seglar sem eru þaktir litlum málmflísum eins og sjá má dæmi um á mynd 2.
Danir mæla með því að setja segla einungis í þá gripi sem ætla má að eigi að endast á kúabúinu, þ.a. ekki þá gripi sem almennt er ætlað að slátra eins og t.d. nautum. Þeir mæla með því að vambarseglar séu settir í kvígur þegar þær hafa fengið staðfest fang og ætti hver vambarsegull þá að duga þeim út ævina. Um afar einfalda og sársaukalausa aðgerð er að ræða enda er sérstöku hjálpartæki stungið ofan í gripinn og segullinn losaður beint í vömbina með einu handtaki, sjá nánar á myndum 3 og 4.
Af framansögðu má ljóst vera að það getur skipt sköpum fyrir heilsufar gripa að nota vambarsegla og eru bændur hvattir til þess að nota þá í ásetningsgripi.