Sitkagreni (Picea sitchensis)
Fyrsta tréð sem vitað er að hafi náð þrjátíu metra hæð á Íslandi frá því fyrir ísöld er sitkagrenitré sem gróðursett var 1949 á Kirkjubæjarklaustri.
Tréð náði þrjátíu metra markinu sumarið 2022 og mældist í sumarlok 30,15 metra hátt. Það fékk heiðursnafnbótina Tré ársins hjá Skógræktarfélagi Íslands og sló Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra máli á tréð við hátíðlega athöfn á Klaustri 12. september.
Sitkagreni er mjög stórvaxin trjátegund og ljóst þykir að hún muni ná að minnsta kosti 40 metra hæð hérlendis. Hvort áðurnefnt tré á Klaustri nær því marki fyrst trjáa verður að koma í ljós en það tré hefur vaxið hálfan metra á ári undanfarin ár og gæti því orðið fjörutíu metra hátt eftir tuttugu ár eða svo.
Að vaxtarlagi er sitkagreni einstofna, beinvaxið tré með breiða, keilulaga krónu. Hérlendis er einnig talsvert ræktað af blendingi sitkagrenis og hvítgrenis, svokallaður sitkabastarður, sem hefur ekki jafnreglulega krónu og hreint sitkagreni en aftur á móti þann kost að þola betur frost um lok vaxtartímans.
Sitkagreni vex hægt í fyrstu á nýjum skógræktarsvæðum en eftir 10-15 ár frá gróðursetningu eykst vaxtarhraðinn og verður hraður eða mjög hraður áratugum saman. Tegundina má rækta um allt land að því gefnu að sérkröfur hennar séu uppfylltar. Forðast ber að gróðursetja sitkagreni í frostpolla og rýra lyngmóa. Best gengur ræktun þess í frjósömu og hæfilega röku landi sem víða er til dæmis í neðanverðum fjallahlíðum og brekkurótum inn til fjarða og dala. Sitkagreni hefur gott vind- og saltþol og því er það einnig ákjósanleg tegund í skógrækt á annesjum og nálægt sjávarsíðunni. Það þolir ágætlega vorfrost þótt það sé viðkvæmt fyrir frosti síðsumars og fram á haust.
Timbur sitkagrenis er með því besta sem völ er á. Það er létt en gríðarsterkt miðað við þyngd. Það hentar því vel í ýmiss konar smíði þar sem reynir á styrk svo sem í burðarvirki húsa en einnig í flugvélasmíði og margt fleira. Fyrsta íslenska límtréð sem vottað er og því hæft til mannvirkjagerðar er úr sitkagreni og framleitt hjá Límtré-Vírneti á Flúðum.
Helstu veikleikar sitkagrenis eru, eins og fram hefur komið, haustkal á ungplöntum, sem þær vaxa þó upp úr. Einnig hefur tegundin verið mjög útsett fyrir ágangi sitkalúsar, smágerðrar blaðlúsartegundar sem er sérhæfð til að nærast á safa evrópskra grenitegunda en hefur tekið fagnandi hinu norður-ameríska sitkagreni líka. Á síðari árum hefur þó borið minna á tjóni vegna sitkalúsar og er ekki ólíklegt að fjölgun glókolls hérlendis, minnsta fugls Evrópu, sé að þakka.
Sitkagreni er ein mikilvægasta og verðmætasta tegundin í skógrækt á Íslandi, sérstaklega til timburframleiðslu og bindingar á kolefni.
Vel er líka hægt að nota sitkagreni sem jólatré þótt fólk setji gjarnan fyrir sig beittar barrnálarnar. Liturinn er fallega grænn með bláleitum tóni og greinabyggingin þétt. Standi sitkagreni í stofunni um jólin þarf að gæta þess vel að aldrei þorni á því. Sé það gert heldur það barrinu alla hátíðina.
Í upprunalegum heimkynnum sínum á vesturströnd Norður-Ameríku getur sitkagreni víða náð meira en 70 metra hæð og árið 2021 var tré í Kaliforníu mælt rétt rúmir hundrað metrar.
Til þess þurfa trén að lifa í nokkur hundruð ár. Elstu tré af þessari tegund eru talin hafa náð 700–800 ára aldri.