Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Endurnýjun furuskógar í Norður- Svíþjóð. Hrímið dregur fram köngulóarvefinn sem ber vott um grósku vistkerfisins.
Endurnýjun furuskógar í Norður- Svíþjóð. Hrímið dregur fram köngulóarvefinn sem ber vott um grósku vistkerfisins.
Mynd / Pétur Halldórsson
Á faglegum nótum 31. janúar 2023

Skógarfura

Höfundur: Pétur Halldórsson

Silvestris er latneskt lýsingarorð sem þýðir bæði „villtur“ og „úr skóginum“ eða eitthvað á þá leið.

Silva er skógur á latínu, skrifað með -i- á klassíska tímanum en -y- er síðari tíma ritháttarbreyting. Auðvitað var hin villta náttúra víðast hvar í Evrópu skógur áður en maðurinn ruddi stóran hluta skóglendis álfunnar og sums staðar nær allt, svo sem á Íslandi. Skógur var því land hins óþekkta, dulúðuga og ógnvænlega. Íslenska heitið skógarfura hæfir vel tegundinni sem hér er rætt um því hún er eitt helstu einkennistrjáa í skógum um stóran hluta Evrópu og norðanverðrar Asíu. Rétt eins og við tölum um dýr merkurinnar gætum við kannski talað um skógarfuru sem tré merkurinnar enda merkti orðið mörk skógur fyrrum. Skógarfura var vonarstjarna í skógrækt á Íslandi um miðbik síðustu aldar en reyndist vonarpeningur.

Hraust skógarfura í Bæjarbrekkunum á Akureyri, á að giska 70 ára gömul, án allra merkja um furulús.

Útbreiðslusvæði skógarfuru er gríðarstórt og nær frá Skandinavíu austur um Rússland og Síberíu allt að Japanshafi en líka suður um Mið- og Austur-Evrópu og í fjöll Suður-Evrópu, til Skotlands og víðar. Skógarfura er stórt tré og ætti að geta náð a.m.k. 25 metra hæð hérlendis en tegundin verður hæst um 35 metrar í upprunalöndum sínum. Hún leitast við að vaxa upp sem einstofna, beinvaxið tré með fremur mjóa krónu. Við erfiðari skilyrði, svo sem nærri sjó eða til fjalla, verða skógarfurutré gjarnan skemmtilega kræklótt og svipsterk.

Á greinum skógarfuru eru nálarnar tvær í knippi og könglar fremur smáir. Skógarfura er dugleg að kvista sig upp í villtum skógi og því eru skógarfuruskógar gjarnan bjartir og aðgengilegir með ríkulegum botngróðri. Hún er fallega græn og börkurinn fær með tímanum á sig einkennandi rauðan blæ sem þykir til mikillar prýði. Vaxtarhraði skógarfuru er fremur hægur á Íslandi en hún getur þrifist víða um land þar sem skilyrði eru fyrir hendi. Tegundin er ljóselsk, sem skýrir m.a. hvernig neðri greinar drepast og falla af þegar skógur hækkar og þéttist.

Einn helsti styrkleiki skógarfuru er að hún hefur gott frostþol og ætti frosthætta því ekki að vera sá þáttur sem hindraði vöxt skógarfuru helst hérlendis. Hún gefur líka góðan og eftirsóttan við og er oftast mjög beinvaxin þannig að skógarfura ætti að vera úrvalstré til timburnytja á Íslandi, ef ekki væri fyrir veikleika hennar sem nú skulu tíundaðir.

Meðal helstu veikleikanna eru hægur vöxturinn. Skógarfuru er líka hætt við nálakali í íslenskum vetrarnæðingi, einkum skara- og saltveðrum. Stærsti veikleikinn hefur hins vegar verið furulús (Pineus pini). Lúsin sú varð til þess að gróðursetning skógarfuru lagðist nánast af með öllu á Íslandi þegar kom fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Framan af hafði þessi trjátegund lofað mjög góðu og þrifist vel en laust fyrir 1950 barst furulúsin til landsins, líklega með innfluttum skógarfuruplöntum frá norskum gróðrarstöðvum. Það tók lúsina svo ekki nema áratug að breiðast út um allt landið. Afleiðingarnar voru í stuttu máli þær að bróðurparturinn af þeim skógarfurum sem gróðursettar höfðu verið, milljónir plantna, ýmist drapst úr lúsinni um og eftir 1960 eða var hreinsaður burt síðar, enda voru sýktu trén sem tórðu óásjáleg og uxu lítið.

Þó er fátt svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott. Hin harða atlaga furulúsarinnar kom af stað mjög hörðu náttúruvali sem hefur sýnt sig vel í kvæmatilraunum Skógræktarinnar síðustu árin. Þar hefur komið í ljós að afkomendur þeirra skógarfurutrjáa sem best þoldu ásókn lúsarinnar standa sig best. Af þeim mætti rækta sterkan íslenskan stofn skógarfuru sem í það minnsta gæti orðið verðmætt garðtré og til skrauts og aukinnar fjölbreytni í skógum. Ekki er gert ráð fyrir að skógarfura verði megintegund í nytja- og kolefnisskógum hérlendis á næstunni, hvað sem fjarlægari framtíð kann að bera í skauti sér.

Skylt efni: Skógrækt

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...