Steiger – stórir traktorar
Stórar dráttarvélar í dag eiga það flestar sameiginlegt að vera fjórhjóladrifnar, með öll dekkin í sömu stærð og vera knúnar af hundruð hestafla sex strokka dísilvél.
Bræðurnir Doug og Maurice stigu sín fyrstu skref í hönnun og smíði dráttarvéla í gamalli hlöðu á kúabúi sínu í Minnesota-ríki í Bandaríkjum Norður-Ameríku um miðjan áratug síðustu aldar. Hugmyndin var að smíða stóra og kraftmikla dráttarvél sem uppfyllti allar kröfur búsins. Traktorinn, sem að sjálfsögðu var kallaður Steiger, var frumsýndur vorið 1957 og reyndist vel og margir sýndu honum áhuga.
Fjöldaframleiðsla
Árið 1963 hófu þeir fjöldaframleiðslu á dráttarvélunum og settu saman 125 slíkar af ólíkum gerðum í fjóshlöðunni næstu árin. Allir áttu dráttarvélar Steiger bræðra það sameiginlega að vera fjórhjóladrifnar, öll hjólin jafnstór og vélin vel yfir hundrað hestöfl og knúin áfram af sex strokka dísilvél. Hönnunin var svo vel heppnuð að flestar stórar dráttarvélar byggja á henni enn í dag.
Steiger dráttarvélarnar hafa frá upphafi verið stórar og kraftmiklar. Frumgerðin var 238 hestöfl og vélarnar sem fyrir tækið framleiddi á árunum 1963 til 1974 voru á bilinu 118 til 300 hestöfl.
Að sex árum liðnum var orðið nauðsynlegt að stækka við sig og byggðu bræðurnir með hjálp fjárfesta dráttarvélaverksmiðju í Fargo og réðu 26 manns í vinnu. Framleiðsla óx hratt næstu árin og traktorarnir seldust vel og Steiger náði 36% markaðshlutdeild í sölu á stórum dráttarvélum í Bandaríkjunum og Kanada.
Árið 1974 var reist enn önnur verksmiðja og er það verksmiðjan þar sem Steiger dráttarvélar eru settar saman í dag.
Stærð og afl dráttarvélanna hélt áfram að aukast á níunda áratug síðustu aldar í ríflega 500 hestöfl. Steiger vélarnar þykja vandaðar og eru þær auglýstar sem lífstíðareign.
Erfitt efnahagsástand á níunda áratug tuttugustu aldarinnar reyndist fyrirtækinu erfitt og um tíma starfaði það á 25% afkastagetu. Árið 1986 var fyrirtækið sett í gjaldþrotaskipti og sama ár keypti Case þrotabúið.
Framleitt fyrir aðra
Eftir að nýja verksmiðjan var tekin í notkun tók fyrirtækið að sér að setja saman dráttarvélar fyrir framleiðendur eins og Allis-Chalmers, CCIL Canadian CO-OP og International Harvester. Árið 1979 setti fyrirtækið saman sína tíu þúsundustu dráttarvél.
18 mínútur að setja saman dráttarvél
Reyndar er búið að margendurbæta verksmiðjuna frá 1974 og í dag vinna þar um 1.100 manns og er sagt að það taki menn og vélmennin ekki nema átján mínútur að setja sama fullbúna nýja dráttarvél.