Þegar Þokugenið var fundið
Á þeim tímamótum sem nú eru í sambandi við nýtingu á Þokugeninu í íslenskum sauðfjárbúskap getur verið tímabært að rifja upp söguna að baki því þegar genið var fundið og hvernig byrjað var að nýta það í sauðfjárræktinni hér á landi og síðan hvernig þekking á geninu hefur þróast.
Í byrjun er ef til vill rétt aðeins að rifja upp hver voru almenn viðhorf í fræðaheiminum til frjósemi sauðfjár á þessum tíma, við upphaf níunda áratugar síðustu aldar. Á þeim tíma hefur líklega óvíða eða hvergi í heiminum verið öllu meiri áhersla á frjósemi í ræktunarstarfi en hér á landi. Víðtækar og tiltölulega nýlegar rannsóknir Sveins Hallgrímssonar og skömmu síðar hjá mér höfðu staðfest að arfgengi frjósemi hjá íslensku sauðfé var það hátt að mjög vel var hægt að ná verulegum árangri í kynbótum fyrir aukinni frjósemi ánna með vali á grundvelli afkvæmarannsókna og ætternis.
Arfgengi frjósemi meiri hjá íslensku fé en mörgum erlendum sauðfjárkynjum
Víðast erlendis var lítil áhersla á frjósemi í ræktunarstarfi. Þar töldu menn arfgengi eiginleikans það lágt að of lítils árangurs væri að vænta. Arfgengi frjósemi hjá erlendum sauðfjárkynjum er yfirleitt öllu lægra en hjá íslensku fé. Í ræktunarstarfi þar var fremur horft til möguleika á að auka frjósemi með skipulegri blendingsrækt. Einnig hafði víða verið áhugi á að mynda ræktunarkjarna með að safna saman ofurfrjósömu fé af stórum svæðum í einn ræktunarhóp.
Við Stefán Aðalsteinsson höfðum þannig fengið á annan tug lamba haustið 1976 að tilraunabúinu á Skriðuklaustri í þeim tilgangi og fluttum þá gripi úr Suðursveit sem síðar kom í ljós að báru Þokugenið. Þá höfðu í Eyjaálfu (Ástralíu og Nýja-Sjálandi) verið í gangi úrvalstilraunir um áratugaskeið fyrir aukinni frjósemi hjá sauðfé.
Fréttir höfðu borist af því að 1980 hefðu vísindamenn suður þar komist að því að ofurfrjósemi í svonefndum Booroola-hópi sem þeir voru með í einni af úrvalstilraununum með Merinófé í Ástralíu skýrðist af stórvirku geni. Þá höfðu þeir í þrjá áratugi verið að vinna með frjósemisniðurstöður fyrir þetta fé, þegar þeir fundu þessa að því er virðist eftirá einföldu skýringu.
Í ársbyrjun 1983 var ákveðið að boða til heimsráðstefnu um frjósemi sauðfjár í Skotlandi. Stefán Aðalsteinsson var í þeim hópi sem þarna kom að verki og hafði hann úhlutað okkur í sameiningu að taka að okkur að fjalla um áhrif stakerfðavísa á frjósemi hjá sauðfé. Í þeim efnum var eitt og annað til af rannsóknarniðurstöðum en flest tengdist það afbrigðilegheitum þannig að yfirleitt var ekki um að ræða fé til nýtingar í almennu ræktunarstarfi. Áhrif litaerfðavísa á frjósemi sem Stefán hafði þá sett fram rúmum áratug áður var að vísu búið að staðfesta einnig hjá erlendum sauðfjárkynjum og gátu boðið heim hagnýtingu í ræktunarstarfinu.
Spurning vaknaði um erfðir ofurfrjósemi í íslensku fé
Strax kom upp hjá okkur hvort mögulegt væri að hinar einföldu erfðir ofurfrjósemi væri að finna víðar, jafnvel hjá íslensku sauðfé. Við þekktum hina óvanalegu frjósemi, sem þá var til staðar hjá fé á nokkrum búum í Suðursveit. Fyrst hafði ég komist í kast við þetta fé þegar ég var að vinna hjá Sveini Hallgrímssyni á námsárunum og hann fékk mig til að leita að villum í forritum vegna sauðfjárskýrsluhaldsins, sem þá var verið að byggja upp á tölvutæku formi. Þá rakst ég á þessar tölur úr Suðursveit sem voru á allt annan veg en hjá öðru fé í landinu. Aðeins nánar kynntist ég fénu þarna þegar við Stefán sóttum lömbin þangað 1976 og áður er nefnt auk einstakra fjárskoðana.
Ákveðið var að ég færi austur og kannaði nánar upplýsingar sem þar væri ef til vill að finna. Í byrjun júní fór ég austur. Þar fékk ég ákaflega góðar móttökur og komst þar í feitan efnivið vegna þess að á mörgum búunum þar var að finna vandaðar færslur á gömlu sauðfjárbókunum með æviupplýsingum ánna á einni síðu.
Ofurfrjósemi rakin til Smyrlabjarga
Ég hafði ekki lengi blaðað í þessum fjárbókum þegar ég þóttist sjá að ættir á öllum þessum ofurfrjósömu ám mátti rekja að Smyrlabjörgum til ærinnar Þoku sem þar hafði fæðst árið 1950.
Flest af þessu fé var á þessum tíma að finna á Smyrlabjörgum á búi Karls Bjarnasonar sem þar bjó þá með fjölskyldu sinni og á búinu hjá Ragnari Sigurðssyni í Borgarhöfn, en hann hafði átt eina hrútinn sem undan Þoku var alinn, Tossa 58-165, sem hann notaði til fjölda ára og mótaði hann mjög féð hjá honum á þessum tíma.
Vegna hins aðgengilega skýrsluhalds þarna varð gagnasöfnun mjög auðveld. Eftir helgina hélt ég því til baka nestaður gögnum. Við Stefán settumst strax yfir þessi gögn og þegar við förum að stilla þeim upp miðað við þá einföldu hugmynd að það væri aðeins eitt gen sem réði því hvort ærnar yrðu fleirlembdar eða ekki kom í ljós að þau féllu með ólíkindum að þeirri hugmynd. Þannig var hugmyndin um Þokugenið staðfest á stuttum tíma. Stefán kynnti síðan niðurstöðurnar á heimsráðstefnunni nokkrum vikum síðar og vöktu þær athygli víða um heim.
Einsýnt að genið hafi orðið til við stökkbreytingu í Þoku
Út frá því sem ég veit um eiginleikann í dag virðist einsýnt að genið hafi orðið til við stökkbreytingu í Þoku sjálfri. Ekki tókst að finna neinar frásagnir um eiginleikann hjá forfeðrum hennar og engir slíkir einstaklingar komið fram sem ekki rekja ætti beint til Þoku. Nákvæmar upplýsingar um afurðir hennar er ekki að finna en sjálf var hún mjög frjósöm og kom þrílembd. Fjölmargar ær voru aldar undan henni og erfðu margar eiginleikann frá móður sinni og ekki hafði síður mikil áhrif að eini hrúturinn sem alinn var undan henni erfði eiginleikann. Í þessu sambandi má minna á að við Emma Eyþórsdóttir settum í upphafi þessarar aldar fram gögn um hliðstæða stökkbreytingu hjá ánni Lóu í Hafrafellstungu í Öxarfirði og þar má fullyrða að stökkbreytingin verður hjá ættmóðurinni.
Strax var farið að huga að notkun þessa eiginleika hér á landi og ljóst að einfaldasta leiðin væri að fá hrúta til notkunar í sæðingum. Haustið 1984 komu þar til notkunar Sveppur 78-821 sem var fæddur hjá Ragnari, afkomandi Tossa. Á Smyrlabjörgum var þá komin fram Angi 79-608 sem ljóst var að bæri genið. Angi var afkomandi Þoku í beinan móðurlegg í fjórar kynslóðir. Angi var aldrei falur fyrir stöðvarnar en 1984 kom sonur hans, Svipur 83-822, á stöð en kom fljótt í ljós að hann bar ekki genið og hlutverki hans í ræktunarsögunni þar með lokið. Haustið 1985 komu hins vegar tveir synir Anga sem báru genið á stöð, þeir Skúmur 81-844 og Þristur 83-836, en báðir voru þeir gráir að lit. Allir hrútar sem síðan hafa verið á stöðvunum og bera genið hafa erft það frá einhverjum af þessum þremur fyrstu hrútum úr Suðursveit.
Ekki var notkun á þessum fyrstu hrútum mikil en samt slík að genið breiddist út um nær allt land. Einstaka bændur ætluðu samt strax að ná miklum árangri og notuðu þessa hrúta talsvert.
Vonbrigðin urðu samt víða veruleg. Vegna þess að afkvæmin voru sitt á hvað með genið eða höfðu ekki erft það þá ollu hrútar og ær sem farið höfðu á mis við eiginleikann vonbrigðum. Aðrir sem verið höfðu „heppnir“ vegna þess að þeir fengu hrúta með genið fjölguðu þessu fé hratt og um of þar sem þeir höfðu ekki alveg gert sér ljóst hvað það var að búa með þetta fé.
Hugmyndir um að nota arfhreina hrúta að veruleika 25 árum síðar
Ég setti því strax 1990 fram þær hugmyndir í erindi á ráðstefnu um ofurfrjósemi í Frakklandi að til þess að nýta mætti eiginleikann þannig að hann kæmi að tilætluðum notum þyrftu stöðvarnar að geta boðið upp á arfhreina hrúta til notkunar. Það eru þær hugmyndir sem nú eru fyrst að verða að veruleika 25 árum síðar.
Genið vakti athygli erlendis
Genið vakti athygli erlendis og strax haustið 1985 var fengið sæði úr gráu Angasonunum til Skotlands. Einnig keyptu þeir örfá lömb frá Smyrlabjörgum sem voru talin geta borið genið. Á þessum grunni var komið upp ræktunarhópum bæði í Skotlandi og Wales með blöndun við þarlent fé. Þeir ræktunarhópar urðu síðan grunnur fyrir efnivið til að einangra genið sjálft upp úr aldamótunum. Þar var staðfest það sem strax hafði vaknað grunur minn um að arfhreinar ær væri ekki að finna í framleiðslu. Ær sem eru arfhreinar, þ.e. hafa Þokugenið í báðum sætum gensins, eru alltaf ófrjóar. Grunsemdirnar höfðu vaknað vegna þess að ég taldi mig hafa séð nokkur dæmi um ær sem aldrei áttu lömb, sem ætla mátti að væru arfhreinar, en einnig sást aldrei skipting í tvo hópa hjá ofurfrjósömu ánum sem hefði átt að sjást ef sumar væru arfblendnar og aðrar arfhreinar nema genið væri fullkomlega ríkjandi sem þótti ósennilegt.
Nú er búið að þróa aðferðir til að greina genið sjálft út frá sýnum frá gripum. Þannig er mögulegt af fullkominni nákvæmni að flokka einstaklinga með tilliti til þess hvort þeir hafi genið eða ekki og hvort þeir séu arfblendnir eða arfhreinir.
Kaflaskil
Það stig sem þekkingin er nú komin á skapar þau kaflaskil að héðan í frá á aðeins að dreifa þessum eiginleika með notkun arfhreinna hrúta á sæðingastöð. Þannig er það hver og einn fjáreigandi sem velur það alveg sjálfur hve mikið eða lítið hann vill nota þennan eiginleika. Notkun á þessum eiginleika er fljótvirkasta og einfaldasta leiðin sem til boða er til að auka frjósemi ánna með ræktun. Á þetta var bent strax eftir fund gensins af írska vísindamanninum Hanrahan, sem vann nokkur ár að skoðun á frjósemiseiginleikum hjá íslenskum ám.
Með notkun á arfhreinum hrútum fá allar dæturnar eiginleikann og fullkomin stjórn verður á umfangi hans í hjörðinni. Aðeins eru sæddar ær sem ekki hafa genið sjálfar með þessum hrútum vegna þess að arfhreinu ærnar eru ófrjóar. Það verður síðan sérfræðivinna þeirra sem annast hrútaval fyrir stöðvarnar á hverjum tíma að standa að framleiðslu arfhreinna hrúta fyrir stöðvarnar. Þar skapast verulegir möguleikar til að auka gæði á þessum hrútum með tilliti til annarra eiginleika. Þannig eru þær hugmyndir sem settar voru fram fyrir 25 árum að koma til framkvæmda í dag.
Hver einstakur fjárbóndi er ekkert að fást beint við ræktun á fé með Þokugenið. Hann sækir eiginleikann aðeins í ærstofninn með sæðingum eins og að framan greinir. Arfblendnir hrútar eiga ekki lengur erindi í notkun á einstökum búum.