Tómmjaltir
Höfundur: Snorri Sigurðsson Sviðsstjóri Mjólkurgæðasviðs SEGES – sns@seges.dk
Ein algengasta orsök júgurbólgu hjá kúm eru rangar mjaltir og kemur þar margt til, en auðvitað er ýmislegt annað sem getur valdið júgurbólgu eins og smitvænlegt umhverfi í fjósi, spenastig, streita hjá kúm, óhreinar kýr, lág mótefnastaða vegna annarra sjúkdóma eða fóðrunar og fleira mætti nefna.
Þegar við tengjum júgurbólgu við mjaltirnar geta skýringarnar fundist víða og oftast eru það vinnubrögðin við mjaltirnar sem skipta mestu máli, en tæknilegar stillingar tækjanna eða uppsetning þeirra geta einnig valdið vandræðum. Um flest þessi atriði, sem hér eru nefnd að ofan, hefur verið fjallað í Bændablaðinu á undanförnum árum en tómmjöltum hefur þó ekki verið gerður nægur gaumur en slíkar mjaltir eru líklega þær sem valda mestum skaða þegar horft er til samspils júgurheilbrigðs og mjaltatækja.
Afhverju ekki tómmjaltir?
Þegar kýrnar eru mjólkaðar geta tómmjaltir komið til bæði við upphaf og lok mjalta. Það sem gerist, þegar tómmjaltir eiga sér stað, er að spenahylkin ganga óáreitt á spenunum án þess að mjólk komi úr spenanum. Þá eykst soghæðin við spenaendann og blóðflæðið út í enda spenans verður mikið. Hætta er á að spenaendinn skaðist af þessu, þar geti myndast hálfgert sigg og að slímhimnan í spenaopinu dragist út. Ef þetta gerist stóreykst hættan á júgurbólgu. Ef til vill er auðveldara að útskýra tómmjaltir með því að vísa í svokallaða sogbletti sem hægt er að búa til með því að sjúga húð kröftuglega og í raun má segja að það geti myndast hálfgerðir sogblettir á spenunum við tómmjaltir.
Tómmjaltir í upphafi mjalta
Þegar tómmjaltir gerast við upphaf mjalta, þ.e. kýrin selur illa eða ekki, er skýringuna langoftast að leita í röngum vinnubrögðum þar sem hefðbundin mjaltatæki eru notuð eða röngum stillingum þar sem mjaltaþjónar eru notaðir. Afar einfalt er að mæla flæði frá mjaltatækjum nú til dags en þetta má nú líka sjá all auðveldlega með berum augum. Þegar tækin eru sett á, á flæði mjólkurinnar að vera jafnt frá öllum spenum frá upphafi mjalta til lok mjalta og ekki ætti að draga úr mjólkurflæðinu á neinum tímapunkti eftir að tækin hafa verið sett á. Ef það gerist þarf að fara vandlega yfir undirbúning kúnna.
Undirbúningur kúa við hefðbundnar mjaltir
Sé flæði mjólkurinnar ekki gott þar sem hefðbundin mjaltatæki eru notuð er skýringuna líklega að finna í því að kýrnar eru ekki örvaðar nóg fyrir mjaltirnar. Hér þarf að huga sérstaklega að því að nudda spenaendana og tryggja að næg taugaboð berist frá spenaendanum sem aftur hefur áhrif á losun mjaltavakans, sem aftur hefur samdráttaráhrif á vöðvana sem umlykja mjólkurblöðrurnar og þannig þrýstist mjólkin niður í spenann. Í upphafi mjalta er alltaf til staðar svolítil mjólk sem liggur neðst í júgurholinu og hefur mjaltavakinn ekki áhrif á flæðið á þessari mjólk. Hún kemur því hratt og vel í upphafi en þegar þessi mjólk er búin á hin mjólkin, sem kýrin geymir í júgurblöðrunum, að vera komin niður svo flæðið haldist jafnt og þétt.
Það er afar misjafnt á milli kúa hve mikla örvun þær þurfa. Sumar þurfa mikla örvun en aðrar bara að heyra í sogskiptum. Hér þarf því að fara einhvern milliveg og algeng þumalfingursregla er að eftir að örvun líkur, oftast gert þegar spenarnir og spenaendarnir eru þrifnir, er heppilegt að láta um 60 sekúndur líða þar til mjaltatækin eru sett á. Þetta er auðvelt að mæla og meta á hverju búi fyrir sig. Vinnulagið við mjaltirnar þarf þá að taka mið af þessu og getur vinnulagið verið afar breytilegt á milli þeirra sem mjólka en mestu skiptir að kýrnar upplifi mjaltirnar alltaf eins. Þannig getur það t.d. hentað einum að örva og þrífa 3 kýr í einu og fara svo að setja á en öðrum að þrífa 4 kýr osfrv. Þess má geta að gott getur verið að setja litaband á fætur þeirra kúa sem selja illa eða eru seinmjólka og þurfa því meiri örvun spenaenda en aðrar.
Undirbúningur kúa í mjaltaþjónum
Þegar við horfum til mjaltaþjónanna er það vissulega mikill kostur að þeir vinna eins við hverjar mjaltir og því eru líkurnar á ólíkri meðhöndlun kýrinnar á milli mjalta sama og engar. Það breytir þó ekki þeirri staðreynd að við höfum oft mælt lélegt flæði í upphafi mjalta hjá kúm sem eru mjólkaðar með mjaltaþjóni. Þetta getur verið afar breytilegt á milli búa og einnig innan bús. Streita og áreiti á kýrnar hefur áhrif á það hve afslappaðar þær eru við mjaltirnar og ef eitthvað í umhverfinu veldur því að þær eru illa fyrirkallaðar, má vænta þess að það bitni beint á flæði mjólkurinnar. Hér skiptir því máli, rétt eins og í öllum fjósum, að búa kúnum þægilegt og öruggt umhverfi þar sem hvorki eru læti, hróp og köll né auðvitað slegið til þeirra.
Þrátt fyrir að allt sé gert samkvæmt bókinni getur samt verið að kýrnar selji ekki nógu vel og þá þarf að fara í stillingarnar á mjaltaþjóninum og breyta örvunartíma viðkomandi kýr eða tíðni örvunar s.s. burstatíðni og burstatíma svo dæmi sé tekið um mjaltaþjón með bursta. Með þessu móti er hægt að vera með einstaklingsmeðhöndlun innan fjóssins og með því ættu líkurnar að minnka á slöku mjólkurflæði.
Tómmjaltir í lok mjalta
Algengustu vandamálin sem við sjáum þegar farið er í júgurheilbrigðisráðgjöf á kúabúum er að of hátt hlutfall kúa eru tómmjólkaðar í lok mjalta. Með öðrum orðum þá eru tækin tekin af of seint. Skýringin felst oftast í því að enn er nokkurt flæði í afturspenum en framspenar orðnir tómir. Þá hangir á þeim og framspenarnir lenda í of miklu álagi. Þess utan sést of oft, séu sjálfvirkir aftakarar ekki notaðir, að tækin hanga allt of lengi á kúnum með tilheyrandi álagi á spenana. Til viðbótar eru flæðismælingar ekki alltaf réttar, sem getur leitt til þess að tómmjaltir verða þrátt fyrir að tæknin hefði átt að taka af mun fyrr. Þetta sést allt sé tölvumæling sem kölluð er „Mæling við mjaltir“ framkvæmd.
Tekið af kúnum
Þegar tækin eru tekin af kúnum eru nokkrar aðferðir í boði. Algengast erlendis er að nota sjálfvirka aftakara enda þrautreynd tækni sem virkar vel. Þessi búnaður er flæðisstýrður og því tiltölulega einfalt að stilla kerfið þannig að það taki af í tíma svo ekki komi til tómmjalta. Þessi tækni er ekki eins útbreidd hér á landi og ætla mætti miðað við að þessi tækni hefur verið notuð nú í hálfa öld. Þegar flæðisstýringarnar eru stilltar er víða erlendis miðað við að flæðið sé í kringum 500-700 ml/mínútu þegar mjólkað er tvisvar á dag. Þetta er töluvert hærra en hér er almennt notað en áður fyrr var algengt að miða við 230-300 ml/mínútu. Ástæðan fyrir breytingunni er fyrst og fremst kynbótastarfseminni að þakka en kýr í dag hanga ekki eins mikið á mjólkinni og áður og því hefur reynst nauðsynlegt að hækka þetta viðmið við flæði. Að sama skapi þarf, sé ekki notast við sjálfvirkni, að vera afar vakandi yfir tækjunum og taka af í tíma.
Þar sem mjaltaþjónar eru notaðir er miðað við allt annað flæði enda er það mælt frá hverjum júgurhluta og þá miða flestir við flæði í kringum 300 ml/mínútu.
Hreytiprófið
Þegar tækin hafa verið tekin af kúnum er afar einfalt að kanna hvort tekið hafi verið af á réttum tíma, of seint eða of snemma. Þetta kalla ég hreytiprófið og er einfaldlega gert með því að handhreyta nokkrar kýr í mál um leið og tækin hafa verið tekin af. Hreyttu hvern spena í 15 sekúndur og mældu svo hve mikilli mjólk þú náðir að safna. Sé magnið í kringum 250 ml. er líklegt að það hafi verið tekið af á réttum tíma en sé minna eftir aukast líkurnar á því að tómmjaltir hafi átt sér stað. Sé magnið meira gæti verið að það þurfi að skoða stillingarnar.
Snorri Sigurðsson
Sviðsstjóri Mjólkurgæðasviðs SEGES – sns@seges.dk