Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 ára.
„Mál er að mæla,“ sagði kýrin
Á faglegum nótum 30. desember 2015

„Mál er að mæla,“ sagði kýrin

Höfundur: Vilmundur Hansen

Kýr fá mannamál á nýársnótt og ræða saman um allt milli himins og jarðar. Einu sinni lá maður úti í fjósi á nýársnótt til að heyra um hvað kýrnar töluðu þegar þær fengu málið.

Hann heyrði eina kúna segja: „Mál er að mæla.“ En þá segir önnur: „Maður er í fjósinu“, tekur þá þriðja kýrin til máls og segir: „Hann skulum við æra.“ Og sú fjórða: „Áður en ljósið kemur“. Maðurinn náði að segja heimafólki frá atburðinum um morguninn en síðan gekk hann af göflunum.

Ýmislegt annað er kynngimagnað á nýársnótt og andrúmsloftið skrýtið. Nýársnótt skipar því veglegan sess í íslenskri þjóðtrú. Álfar flytja búferlum, selir kasta hamnum, vatn breytist í vín, kirkjugarðar rísa, þá er óskastund og mark er takandi á öllu sem mann dreymir á nýársnótt.

Árni Björnsson segir í bók sinni Saga daganna að hér á landi „verði 1. janúar að nýársdegi á 16. öld, og virðist sú venja fylgja siðaskiptum. Áður höfðu áramót verið talin á jólunum og 1. janúar var þá áttundarhelgi jóladagsins. Jólanótt var því áður hið sama og nýársnótt og hafa þær svipaða drætti í þjóðtrú en á síðari öldum hefur slíkur átrúnaður færst æ meira yfir á núverandi nýársnótt og þrettándanótt.“

Horft í spegil

Á gamlárskvöld geta menn séð konuefnið sitt og konur mannsefnið með því að sitja í koldimmu herbergi og horfa í spegil. Til að þetta geti orðið þarf að fara með eldgamla þulu sem fáir kunna og ekki verður höfð eftir hér. Enginn má vita af uppátækinu og enginn má vera viðstaddur athöfnina því þá getur farið illa. Það fyrsta sem birtist í speglinum er kynjamyndir en síðan kemur út úr honum hönd sem heldur á hníf eða einhverju vopni.

Höndin kemur út þrisvar sinnum og réttir einhvern hlut að horfandanum en hann má ekki fyrir nokkurn mun taka við hlutnum því verður hann fyrirmikilli ógæfu. Myndirnar í speglinum fara smám saman að skýrast og að lokum birtist hin rétta mynd í nokkrar sekúndur.

Á krossgöngum

Ef legið er í krossgöngum, til dæmis, þar sem búr- og eldhúsdyr mætast í bæjum, birtist manni eða konu tilverandi maki þeirra. Myndir þeirra koma og bjóða þeim sem liggur ýmsar fallegar gjafir en ekki má þiggja þær vegna ógæfunnar sem fylgir því að falla í freistni. Einu sinni fyrir langalöngu lá maður í krossgöngum og kom til hans konuefni hans og bauð honum margar góðar gjafir. Maðurinn stóðst freistingarnar til að byrja með en þáði að lokum forkunnarfagran hníf af konumyndinni. Mörgum árum seinna, eftir að þau voru gift, varð hjónunum sundurorða og endaði rimman með því að maðurinn stakk konuna sína með hnífnum og drap hana.

Álfar á ferð

Álfar og huldufólk eru mikið á ferli á nýársnótt og því er til siðs að láta ljós loga alla nóttina, einnig þótti sjálfsagt í gamla daga að skammta eitthvert góðgæti á disk og setja á afvikinn stað ef huliðsverurnar skyldu eiga leið hjá.

Árið 1913 voru nokkrir vinir saman komnir til nýársfagnaðar á Ísafirði. Þegar leið á nóttina fékk fólkið sér göngutúr og gekk upp Fjarðarstræti og er það kom að Pólgötu sá það sex smástelpur, um tíu ára gamlar, á götunni.

Stúlkurnar voru næstum allar jafnstórar, héldust í hendur og dönsuðu hringdans á miðri götunni þannig að pils þeirra stóðu beint út í loftið. Þær voru allar stuttklipptar með dökkt hár og hvíta slaufu í hárinu.

Kjólarnir sem stóð út í loftið voru hvítir á litinn og stuttir þannig að langir og mjóir fótleggirnir sáust vel. „Allt útlit þeirra og hreyfing bar vitni um dásamlegt ytra form og yndisleik." Þegar fólkið hafði horft á stúlkurnar um stund hurfu þær sjónum þess á augabragði. Þeir sem sáu stúlkurnar voru ekki í neinum vafa að um álfabörn hefði verið að ræða.

Afkomendur farós

Einu sinn fyrir löngu var ungur maður á ferð á nýársnótt meðfram sjó á Suðurnesjum. Maðurinn kom að stórum helli og gekk inn í hann. Þar sá hann tólf undurfagrar stúlkur og tólf selshami rétt hjá þeim, maðurinn greip einn haminn og hljóp á brott. Stúlkurnar sáu hann taka haminn og hlupu á eftir honum og grátbáðu manninn um að skila þeim. Hann neitaði því og spyr þá sem á haminn hver hún sé. Hún segist vera einn af afkomendum farós í Egyptalandi og að þær breytist í menn á nýársnótt. Maðurinn neitar staðfastlega að skila hamnum og segir stúlkunni að hún skuli koma með honum heim og verða konan hans. Þegar heim kemur lokar hann haminn ofan í kistli og hafði lykilinn ávallt í buxnavasa sínum.

Líða nú sjö ár og þau eignast sjö börn. Á áttunda ári komst selkonan yfir lykilinn og notaði tækifærið til að ná í haminn og hélt niður að sjó. Þegar maðurinn varð þess var að konan var horfin með haminn fór hann á eftir henni niður að sjó og þegar hún sá hann koma stakk hún sér í sjóinn og kvað:

Mér er um og ó,
ein af fólki Faraó,
á sjö börn í sjó
og sjö í landi þó.

Segir sagan að oft hafi sést til konunnar í selslíki þar sem hún lónaði við ströndina og að hún hafi komið á land og leikið sér við börnin þegar þau léku sér við sjóinn.

Kirkjugarðar rísa

Dauðir rísa úr gröfum sínum á nýársnótt og er það kallað að kirkjugarður rísi. Hinir framliðnu koma þá upp í líkblæjum, ganga til kirkju og halda messu en hverfa síðan.

Á meðan hinir dauðu eru ofan jarðar eru grafir þeirra opnar og þá ganga svipir þeirra sem deyja á næsta ári í garðinn og máta sig í gröfunum.

Einu sinni var ung stúlka í kirkjugarðinum á nýársnótt og sá hún svipina koma einn af öðrum í garðinn. Þar á meðal sá hún svip unnusta síns og sjálfs sín.

Skuldlaus um áramót

Víða erlendis er því trúað að einstaklingar og heimilin eigi að borga upp allar skuldir fyrir áramót og hefja nýja árið kvitt við guð og menn því þá vegni einstaklingnum og heimilinu vel. Sem betur fer er þessi trú ekki í hávegum höfð hér á landi þar sem megnið af þjóðinni byrjar nýja árið með skuldabagga kreditkortanna og annarra lána á herðunum.

Gleðilegt nýtt ár!

Skylt efni: þjóðtrú | áramót

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...