Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Hópmynd af fundarmönnum Finnlandsmegin við landamæri Rússlands.
Hópmynd af fundarmönnum Finnlandsmegin við landamæri Rússlands.
Af vettvangi Bændasamtakana 14. október 2024

Norrænu fjölskylduskógarnir

Höfundur: Hlynur Gauti Sigurðsson, starfsmaður búgreinadeildar skógarbænda.

Skandinavíuþjóðirnar eiga mikið undir timburiðnaði, mismikið þó. Þessar frændþjóðir okkar halda úti hagsmunasamtökum; Norrænu fjölskylduskógunum (NFS), í frjálslegri þýðingu.

Þau eru með starfsstöð í Brussel og árlegir aðalfundir eru haldnir með bróðurlegri skiptingu milli landanna. Síðustu ár hafa þau boðið fulltrúum skógarbænda á Íslandi að sitja fundi og kynnast fólkinu og samtökunum.

Rætt hefur verið um hvort íslenskir skógarbændur væru gjaldgengir aðilar að samtökunum. Bæði hefur það verið rætt meðal Íslendinga um hvort það væri mögulegt, æskilegt og hvað það hefði í för með sér. Einnig kemur umræðan reglulega komið upp innan norrænu samtakanna sjálfra og þau gera sér grein fyrir mikilvægi samstöðunnar þrátt fyrir að Ísland komist ekki í hálfkvisti við hinar þjóðirnar.

Íslensku ferðalangarnir, Hlynur og Dagbjartur, á vinnslusvæði Pölkky- sögunarmyllunnar.

Nú í september síðastliðnum fóru tveir fulltrúar á vegum búgreinadeildar BÍ til Finnlands á aðalfund NFS. Íslensku fulltrúarnir voru Dagbjartur Bjarnason, stjórnarmaður deildarinnar og Hlynur Gauti Sigurðsson starfsmaður. Hér á eftir verður greint frá því helsta sem fór fram í ferðinni, hvernig tengslin styrkjast og hvað fór fram á aðalfundinum í landi jólasveinsins.

Í hópi Norðurlandaþjóða eru Íslendingar yfirleitt fremur bláeygðir í málum timburiðnaðar. Það er ekkert skrítið. Á meðan þær hafa í aldaraðir byggt hús og jafnvel háhýsi út timbri úr þeirra eigin heimaræktuðu skógum hafa Íslendingar lagt megináherslur á ósjálfbæran innflutning steinefna til húsbygginga. Við erum eftirbátar þeirra, um það verður ekki spurt en íslensku sendiboðarnir tveir voru allavega komnir á fundinn til að hlusta og blanda geði.

Við Raate-veginn má finna ýmis ummerki eftir stríðsátök, svo sem skotgrafir.
Ferðalagið

Finnska borgin Oulu er við Helsingjabotn, þ.e. nyrsta hluta Eystrasaltsins, og deilir hnattrænni breiddargráðu með Reyðarfirði og Stykkishólmi. Á flugvellinum í Oulu hittust fundarmenn í rjómablíðu, sunnudaginn 8. september, fyrir utan tvo Dani sem höfðu ákveðið að keyra. Það fór reyndar þannig að þau sameinuðust ekki hópnum fyrr en að morgni þriðjudags, sem var hinn eiginlegi fundardagur en líka dagur heimferðar. En allt í góðu. Föruneytið var skipað einum Dana (hann kom með flugi), tveimur Íslendingum, þremur Norðmönnum, fjórum Finnum, sjö Svíum og starfsmanni NFS, Ungverja búsettum í Brussel.

Strax við upphaf ferðar var komin seinkun sem varð þess valdandi að á fyrsta skoðunarstað var ekki farið út úr rútunni heldur einungis horft út um gluggann. Það var áhugaverður barna- og unglingaskóli í smábænum Pudasjarvi þar sem byggingar voru sérstaklega vistvænt hannaðar og skólastarfið tók mið af því. Skólasvæðið er um einn hektari og var byggt fyrir átta árum. Þessi nálgun á námið skilar sér í meiri vellíðan og betri námsárangri. Og talandi um uppbyggjandi leik og starf fyrir krakka þá eru Finnar nýlega búnir að kynna skemmtilegan tölvuleik sem heitir Pocket Forest, gefið út af Koko games.

Á leiðinni á náttstað á hótel Iso-Syöte, mátti víða sjá hreindýr inni í víðfeðmum barrskóginum. Íslendingar furðuðu sig á því hvað lítið væri um hefðbundið landbúnaðarland á þessum slóðum. Það kemur víst til út af rótgrónum búskaparháttum. Leið okkar lá við jaðar Lapplands, ekki langt frá heimili jólasveinsins í Rovaniemi þar sem er fyrst og fremst stundaður hjarðbúskapur með hreindýr. Svo virtist sem hreindýrin nytu þess að spígspora þurrum fótum innan um stæðileg furutrén, en manni sýndist að án trjánna hefði landið verið ein stór mýri.

Við sólarupprás morguninn eftir sáum við döggina læðast yfir viði vaxnar hæðir og spegilslétt vötn allt um kring. Stórfengleg sýn. Að hugsa sér, að svona gæti það litið út alla Skógarströndina við Breiðafjörð.

Að loknu morgunkaffinu var farið á fyrsta skipulagða viðkomustað dagsins; Pölkky Oy sögunarmylluna í sveitarfélaginu Taivalkoski. Vinnsluálmurnar voru risastórar, vélarnar voru tæknilegar og öll gólf voru með ólíkindum þrifaleg. Að jafnaði skilar vinnslan 85 metrum af flettum borðviði á mínútu. Það virtist því sem flokkunin færi fram bæði vélrænt og sjónrænt því vaktmenn fylgdust vel með öllu. Uppistaða hráefnisins var skógarfura 80% og rauðgreni 20%. Vinnslusvæðið er á um 100 hekturum og þjónustusvæðið er í um 150 kílómetra radíus. Til samanburðar er bein lína frá Siglufirði til Víkur í Mýrdal 300 kílómetrar. Í Pölkky starfa 80 manns í allt og unnið er á tveimur vöktum á sólarhring. Þegar eftir því var spurt sagði hæstráðandi að það væri ekkert útilokað að þeir réðu Íslending til starfa yrði eftir því leitað.

Á hótel Kiannon Kuohut í sveitarfélaginu Suomussalmi var næst fyrirlestur frá einu finnsku landshlutabundnu félagi skógarbænda en umfang þess er ögn landminna en Ísland. Síðustu ár hefur starfið gengið þungt og hafa bændur selt jarðir sínar til stórfyrirtækja. Samstöðumátturinn er aftur að koma saman enda mikið í húfi fyrir bændur.

Í elstu sjoppu Finnlands var allt gamalt.

Að lokum var straujað í átt til rússnesku landamæranna með örstuttu túristastoppi hjá elstu sjoppu Finnlands; Jalavan Kauppa, þar sem skoðaðir voru innanstokksmunir frá gamla tímanum. Ferðinni var heitið að Raate road-safninu, þar sem frægasta orrusta finnska vetrarstríðsins átti sér stað árið 1939. Okkur var boðið upp á kaffi og finnskan kleinuhring (Munkki) þegar við komum. Hvort sem illska Sovétmanna fól í sér óttablendna undirgefni við herra Stalín eða harðræðið foringjans gagnvart þegnunum, þá er stórmerkilegt að fámennt herlið Finna hafi stráfellt óvininn eins og raun bar vitni. Einungis Finnlandsmegin við landamærin er sögu stríðsins haldið á lofti, en ekki minnst á það austan megin. Alger þöggun. Það verður þó ekki þagað um það að hópurinn lét taka mynd af sér skammt frá landamærunum.

Fundurinn

Að morgni þriðjudags hófst formlegur fundur. Þótt NFS kljáist fyrst og fremst við Evrópusambandið eiga þjóðirnar sjálfar við ýmsar grýlur að glíma heima fyrir. Daginn áður höfðu fulltrúar hvers lands haldið stuttan annál í rútunni. Þar var sagt frá helstu verkefnum og áskorunum. Líkt og á Íslandi er hávær umræða um líffjölbreytni, uppkaup lands og viðskiptakerfi með kolefniseiningar. Það er skemmtileg tvíræðni að umræðan um líffjölbreytnina á Norðurlöndum snýr að verndun auðugs skógvistkerfis á meðan nýskógrækt sé ógn við líffjölbreytileika á Íslandi.

Að loknum umræðum um ársreikninga var vikið að öðrum málum fundarins. Á árinu ætla samtökin að skipuleggja herferð sem er ætlað að útskýra gildi Family forest og ætlað að ná til valdhafa í sem víðustum skilningi. Málefni norðurslóða, sama og hreindýrahalds voru sérstaklega rædd á fundinum. Breyttur heimur og menningarmynstur hefur keðjuverkandi áhrif, meðal annars á venjur og þróun skógræktar á svæðinu. Að lokum fóru Finnar yfir það helsta sem hefði áunnist í stjórnartíð þeirra á árinu og færðu loks Dönum að taka við stjórninni fram að næsta fundi að ári. Eitt af þeim verkefnum sem Dönum var falið var að vinna náið með Íslendingum um hvort og þá með hvaða hætti þeir vildu eiga aðild að NFS. Þetta þótti skemmtilegt á fundinum og höfðu Danir orð á því að með þessu yrðu þeir ekki lengur minnsta skógarþjóðin í samtökunum og hlökkuðu til að taka upp frekara samtal.

Störf hagsmunasamtaka skipta máli. Að baki hvers lands í NFS eru félög skógarbænda. Í hverju félagi skógarbænda er fólk sem hefur hag af sterku Norðurlandasamstarfi. Það getur einnig átt við um Ísland. En nú er spurningin hvað lítil deild skógarbænda innan raða BÍ vill gera hvað varðar aðild að NFS.

Myndband úr ferðinni má sjá á Youtube-síðu Bændasamtaka Íslands.

Marko Mäki-Hakola kynnir mögulega aðild Íslendinga að NFS.

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll
Lesendarýni 20. desember 2024

Vangaveltur um verðlagsgrundvöll

Í lok nóvember sl. stóðu Bændasamtökin fyrir kynningarfundi fyrir félagsmenn um ...

Hið rétta um raforkuna
Lesendarýni 19. desember 2024

Hið rétta um raforkuna

Við hjá Landsvirkjun höfum bent á það í rúman áratug að nauðsynlegt sé að vinna ...

Verðugur launa sinna
Lesendarýni 16. desember 2024

Verðugur launa sinna

Það hefur löngum þótt sjálfsagður hlutur að veiðimenn á vegum sveitarfélaga séu ...

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum
Lesendarýni 13. desember 2024

Garðyrkja og myndlist í hversdeginum

Nú er hreyfing í garðinum sem umlykur Listasafn Árnesinga í Hveragerði og bæjarb...

Þankar um loftslagsvegvísi bænda
Lesendarýni 11. desember 2024

Þankar um loftslagsvegvísi bænda

Í síðasta Bændablaði er fjallað um loftslagsvegvísi bænda og losun frá landbúnað...

Minkaveiðiátak
Lesendarýni 10. desember 2024

Minkaveiðiátak

Þegar ég var ungur maður fyrir hátt í mannsaldri síðan sagði móðir mín, sem var ...

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...