Meðbyr
Það var gott hljóð í bændum á fundaferð Bændasamtakanna og atvinnuvegaráðherra um landið í vikunni. Orðin bjartsýni og trú heyrðust ítrekað á fyrsta fundinum sem undirritaður sat í Félagslundi í Flóahreppi, enda augljós meðbyr með íslenskum landbúnaði sem þrátt fyrir æ erfiðari rekstrarskilyrði það sem af er öldinni hefur skilað ótvíræðri hagræðingu og framleiðsluaukningu um leið og afurðir hans eru heilnæmari en gengur og gerist á byggðu bóli. Markvisst ræktunarstarf og nýsköpun, auk útsjónarsemi í rekstri hefur umfram allt skilað þessum árangri en hann má raunar einnig mæla í sterkri ímynd og markaðsstöðu íslenskra landbúnaðarvara, umhverfishollustu þeirra og áfram mætti telja.
Aðstæður hafa svo orðið til þess að vitund stjórnvalda og alls almennings um mikilvægi landbúnaðar við að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar hefur orðið æ sterkari. Sú breytta heimsmynd sem blasir nú við hverju mannsbarni – og kemur vitanlega ekki til af góðu – setur innlenda matvælaframleiðslu framar í forgangsröðina. Um leið og stjórnvöld ætla skiljanlega að auka fjárframlög til öryggis- og varnarmála um tæp fjórtán prósent á næstu árum, hljóta þau að tryggja heilbrigðan rekstrargrundvöll landbúnaðarins og eðlileg tækifæri til nýsköpunar og nýliðunar í greininni. Með því er hægt að virkja enn frekar bjartsýnina, kraftinn og útsjónarsemina sem býr í íslenskum bændum og tryggja sjálfbæra matvælaframleiðslu í landinu og fæðuöryggi.
Eins og oft hefur verið bent á er það sömuleiðis brýnt lýðheilsumál að skjóta styrkari stoðum undir framleiðslu íslenskra landbúnaðarafurða. Í því sambandi má rifja upp að eitt af upphaflegum markmiðum búvörusamninganna á síðustu öld var að gera sem flestum fært að njóta þessara heilnæmu og öruggu matvæla óháð efnahag. Gera þarf betur ef það markmið á að nást enda hefur neysla gjörunninna matvæla aukist á síðustu árum og áratugum.
Allt blasir þetta við hverjum þeim sem skoða vill, enda standa nú vonir til þess að þétt og ákaflega uppbyggilegt samtal bænda og ráðherra á undanförnum dögum og vikum, meðal annars á sterku Búnaðarþingi í mars sl., muni skila sér í raunverulegum breytingum á rekstrarskilyrðum landbúnaðar og bættri afkomu bænda sem margir hverjir hafa allt of lengi þurft að setja sinn eigin efnahag í annað sætið. Náist þessar breytingar í gegn nú er auk heldur ljóst að sterkari grundvöllur að aukinni nýliðun og nýsköpun hefur verið lagður.
Nýjungar
Eins og lesendur hafa væntanlega komið auga á eru nokkrar nýjungar í efni og umbroti Bændablaðsins í dag. Forsíðu blaðsins hefur verið breytt lítillega og sömuleiðis þessari opnu hér, leiðaraopnunni. Á síðu sjö má nú finna pistil formanns Bændasamtakanna, auk annars skoðunarpistils sem skrifaður verður af völdum hópi fólks. Neðst á síðunni er svo höfundarlaus pistill þar sem ritstjórn blaðsins mun færa í tal ýmislegt, bæði stórt og smátt, sem henni liggur á hjarta. Að endingu skal bent á stuttan pistil aftarlega í blaðinu sem fengið hefur yfirskriftina Hrifla en þar mun skrifari benda á það sem helst hefur hrifið hann á sviði menningar og lista. Vonandi leggjast þessar breytingar vel í lesendur.