Efla þarf rannsóknir á erfðavísum sem veita þol gegn riðu í sauðfé
Á forsíðu Bændablaðsins þann 23. september sl. var því slegið upp í fyrirsögn að Halldór Runólfsson, fyrrverandi yfirdýralæknir og skrifstofustjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, leggi til í grein í blaðinu að ráðist verði í víðtækan niðurskurð á sauðfé á öllum bæjum sem eru með sauðfé í Húna- og Skagahólfi. Þessi tillaga kom fram eftir að riða greindist nú í haust á Syðra-Skörðugili.
Hér er mjög bratt farið fram svo ekki sé meira sagt. Á því svæði sem um ræðir eru líklega 15-20% af fjárstofni landsmanna eða 60-70 þúsund kindur. Áhrif á framleiðslu yrðu stórfelld, áætla má að framleiðslusamdráttur lægi á bilinu 1.500 til 1.800 tonn hið minnsta. Verði slík hugmyndafræði að veruleika yrði væntanlega einnig ráðist í niðurskurð í Tröllaskagahólfi frá Héraðsvötnum að Eyjafjarðará. Slíkt myndi valda stórfelldri röskun á sauðfjárrækt og jafnvel endalok hennar í núverandi mynd.
Slíkar aðgerðir eru bændum og fjölskyldum þeirra mikið áfall. Tilfinningalegt tjón er óbætanlegt. Þá eru bændur í tilfellum sem þessum neyddir til að ganga til samninga við atvinnuvegaráðuneytið um niðurskurð á bústofni sínum auk hefðbundins ferlis varðandi hreinsunarstarf og úttektir. Þetta þarf að gera til að bændur eigi rétt á bótum til að koma sér upp nýjum bústofni. Um þetta er ekkert val þrátt fyrir að bæturnar eins og þær eru ákveðnar með gildandi reglugerð bæti tjón bænda aldrei til fulls. Færa má fyrir því gild rök að núgildandi fyrirkomulag gangi ekki nógu langt þar sem bændur fá ekki tjón sitt að fullu bætt þrátt fyrir áskilnað eignarréttarákvæðis 72. gr. stjórnarskrárinnar. Tjón bænda er því yfirleitt gríðarlegt, bæði tilfinningalegt og fjárhagslegt. Um það vitna sögur þeirra sem hafa þurft að sæta þessum aðgerðum undanfarin ár. Þetta fyrirkomulag hefur raunar lengi verið óbreytt. Óásættanlegt er með öllu að bændur þurfi jafnvel að ráða sér lögfræðinga til að gæta hagsmuna sinna. Enginn lærdómur hefur verið dreginn af fyrri reynslu og ráðherrar látið undir höfuð leggjast að taka á málinu.
Vitað er að riða getur vel komið upp aftur eftir niðurskurð og hreinsun, jafnvel á búum sem skara fram úr í hreinlæti og snyrtimennsku. Það er því ábyrgðarhluti að hreyfa hugmyndum eins og þessum og henda á lofti án gagnrýni. Um er að ræða lífsafkomu hundruða manna, tilfinningalegt og fjárhagslegt tjón væri gríðarlegt auk mikils kostnaðar fyrir ríkissjóð. Bændur hafa glímt við þennan erfiða vágest árum saman. Þrátt fyrir það hafa stjórnvöld heykst við að leggja fjármagn í rannsóknir á riðu. Líklega eru framsæknustu rannsóknirnar í dag gerðar undir forystu bónda í Skagaheiðinni í samvinnu við þýska vísindamenn. Miklar framfarir eru í erfðarannsóknum og nú hafa fundist íslenskir gripir með erfðavísum sem líklega veita þol gegn riðu í sauðfé. Þá þarf að vinna betur úr faraldsfræðilegum gögnum sem eru til staðar eftir niðurskurð þar sem riða hefur greinst á árum áður.
Stjórnvöld eiga því nú í fyrsta lagi að tryggja að bændur sem þurfa að takast á við þetta erfiða verkefni fái fullar bætur fyrir. Jafnframt á að efla rannsóknir á riðu og leit að gripum með arfgerð sem er þolin gagnvart sjúkdómnum. Nútíma erfðatækni býður þar upp á áður óþekkta möguleika. Höfnum hins vegar strax hugmyndum sem myndu í raun geta orðið banabiti sauðfjárræktar eins og við þekkjum hana í dag.
Erna Bjarnadóttir
hagfræðingur og fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri BÍ