Aukinn kraftur í úrvinnslu og markaðssetningu á lífrænt vottuðu grænmeti
Elínborg Erla Ásgeirsdóttir keypti fyrir nokkrum árum eyðijörðina Breiðargerði í Skagafirði í þeim tilgangi að rækta þar lífrænt vottað grænmeti.
Hún fór í gegnum aðlögunarferli að lífrænum framleiðsluháttum með stuðningi Matvælastofnunar og fékk lífræna vottun á land sitt og grænmeti árið 2021.
Hún hefur unnið hægt og bítandi að vöruþróun og markaðsmálum – og innan skamms verður hægt að eiga milliliðalaus viðskipti við hana í gegnum vefverslun Breiðargerðis.
Elínborg er einyrki í Breiðargerði, en alin upp á nágrannabænum Hól þar sem stunduð var sauðfjárrækt. Hún hafði takmarkaðan áhuga á þeim búskap en þeim mun meiri áhuga á allri ræktun og gróðri. Hún byrjaði á því að rækta gulrætur – í margvíslegum litbrigðum – sem hafa verið hennar aðaltegund, en áhugann á þeim fékk hún þegar hún vann við gulrótarupptöku hjá Akurseli í Öxarfirði. Síðan hafa fleiri grænmetistegundir bæst við og gjarnan sérstaklega litríkar, eins og blómkál, brokkólí, hvítkál, grænkál, toppkál og kóralkál (romanesco).
Kláraði Garðyrkjuskólann á aðlögunartímanum
Aðlögunartímabil fyrir lífræna útiræktun á einæru grænmeti eru tvö ár. Á þeim tíma náði Elínborg að klára garðyrkjunámið við Garðyrkjuskólann á Reykjum, sem hún stundaði í fjarnámi um fjögurra ára skeið. Hún segir að það tímabil hafi verið lærdómsríkt að mörgu leyti því það taki tíma að átta sig á hvernig best sé að gera hlutina. Til dæmis hafi hún þurft að finna út úr hvaða áburðarefni virkuðu best og hvernig best sé að haga sáðskiptum.
Hún útskrifaðist frá Reykjum vorið 2020 af braut garðyrkjuframleiðslu með áherslu á lífræna ræktun matjurta.
Úrvinnsla og vöruþróun
Á síðustu misserum hefur Elínborg haslað sér völl sem úrvinnsluaðili úr lífrænt vottaða grænmeti sínu – og er með áhugaverða vöruþróun í gangi. Hún fékk styrk frá Uppbyggingarsjóði Norðurlands vestra til markaðssetningar sem hefur gert henni kleift að opna vef (breidargerdi.com) og á næstu vikum verður þar orðin virk vefverslun þar sem matgæðingar um allt land geta keypt sér matvörur úr vöruþróun Elínborgar. Á vefnum má einnig finna mataruppskriftir og hugmyndir að notkun á vörunum frá garðyrkjubýlinu.
Elínborg hefur bætt við sig ræktunartegundum jafnt og þétt, nú síðast hindberjum. „Síðasta sumar fékk ég fyrstu uppskeru af hindberjum, en þau eru reyndar ekki komin með lífræna vottun. Það orsakast af því að ég keypti plöntur sem ekki voru lífrænt vottaðar og fjölærar plöntur þurfa þrjú ár í aðlögun áður en þær teljast lífrænar.
Hindberin fóru í verslanir í Varmahlíð og á Sauðárkróki og fengu góðar móttökur, sem er auðvitað mjög skemmtilegt.“
Sjálfsafgreiðslukofi við veginn
„Síðasta haust setti ég upp sjálfsafgreiðslu niðri við veg, í timburkofa þar sem fólk getur nálgast vörur frá mér og greitt fyrir annaðhvort með því að setja pening í bauk á staðnum eða með millifærslu. Þetta mæltist líka vel fyrir og var opið fram að fyrstu alvöru frostum, og verður síðan opnað aftur næsta vor,“ segir Elínborg.
Hún stefnir á að hafa þessa þjónustu opna yfir aðaluppskerutímann, en lokað á veturna.
Góð nýting allra afurða
Að sögn Elínborgar leggur hún mikið upp úr góðri nýtingu á öllum sínum afurðum.
„Ég er þegar að framleiða nokkrar vörur þar sem uppistaðan er svokallað annars flokks grænmeti, grænmeti sem einhverra hluta vegna er ekki hægt að selja á fullu verði.
Ég byrjaði að þróa vörur árið 2019 og er búin að prófa ýmislegt. Þær vörur sem ég er ánægðust með úr þeirri vöruþróun og hef framleitt mest af eru gulrótachutney, rófuchutney og grænkálssalt. Sumt geri ég reglulega en í minna upplagi, til dæmis kryddað krækiberjahlaup og vallhumalshlaup, og svo fellur kannski til hráefni sem hefur ekki verið til áður og þá reyni ég að finna því farveg. Til dæmis gerði ég bæði sellerísalt og hindberjasalt í fyrsta skipti síðasta haust sem ég geri ráð fyrir að halda áfram að framleiða.“
Prófar sig áfram með tilbúna grænmetisrétti
Núna í vetur hefur hún svo haldið áfram vöruþróun, þökk sé styrknum frá Uppbyggingarsjóði Norður- lands vestra. „Núna er ég að prófa mig áfram með öðruvísi vörur en áður, alls konar tilbúna grænmetisrétti og svo er ég líka að prófa að þurrka afurðir og skoða notkunarmöguleika þar.
Í þessari vöruþróun er ég aðallega að vinna með alls konar kál, bæði útlitsgallað og afskurð, og síðan rófur og gulrætur.
Þetta er allt á frekar miklu tilrauna stigi enn þá, en ýmislegt lofar góðu svo ég geri ráð fyrir að söluvörur verði til úr þessu ferli.
Svonalagað getur samt tekið langan tíma að fínpússa svo ég veit ekki hvort ég á að fullyrða nokkuð um hvenær nákvæmlega það verður, en stefni auðvitað á að geta nýtt uppskeru næsta hausts. Það er margt sem þarf að huga að, umbúðir, merkingar, geymsluþol, útlit og bragð auðvitað.“
Vallhumallinn spennandi
Elínborg segir að gamla nytja- og lækningajurtin vallhumall sé spennandi hráefni. „Vallhumalshlaupið mitt er sætt hlaup úr vallhumli og sítrónum, til þess að nota til dæmis með ostum og á ristað brauð. Ég er einmitt líka að leggja lokahönd á nýja vöru þar sem vallhumallinn er aðalbragðefnið.
Vallhumall er vissulega ekki beinlínis aukaafurð frá grænmetis- ræktuninni, nema hvað að hann getur orðið óþarflega ágengur í gulrótabeðunum.
Þar sannast enn einu sinni að illgresi getur verið mjög víðtækt hugtak, og algerlega háð aðstæðum hverju sinni. Ég allavega ákvað að ég ætlaði að finna leiðir til að nýta vallhumalinn, frekar en bara að eyða tíma í að fjarlægja hann.“ Hún bendir á nýja vefinn fyrir þá sem eru áhugasamir um hennar afurðir og vörur.
„Á heimasíðunni geta áhuga- samir fengið nánari upplýsingar um starfsemina, ræktunina og framleiðsluna. Þar má nálgast upplýsingar um sölustaði, fram- leiðsludagatal, fréttir og síðan alls konar uppskriftir þar sem vörur frá mér eru í aðalhlutverki,“ segir Elínborg.