Bændabýlin þekku
Orðsins list kemur að þessu sinni frá Steingrími Thorsteinssyni.
Steingrímur fæddist árið 1831 á Arnarstapa á Snæfellsnesi og ólst þar upp. Fór í latínuskólann í Reykjavík fimmtán ára gamall. Lauk embættisprófi í málfræði og sögu frá háskólanum í Kaupmannahöfn.
Á Hafnarárum sínum lagði hann stund á bókmenntir og fagurfræði og þýddi þá á íslensku ýmis fræg ritverk, auk þess sem eftir hann birtust allmörg kvæði. Eftir 21 árs óslitna dvöl í Danmörku gerðist Steingrímur kennari við latínuskólann í Reykjavík. Var hann þá orðinn þjóðkunnur af kvæðum sínum og þýðingum. Rektor við sama skóla, sem þá nefndist Hinn almenni menntaskóli, varð hann sjötíu og þriggja ára að aldri.
Af þýðingum Steingríms eru Þúsund og ein nótt og Ævintýri Andersens kunnastar. Þá þýddi hann fjölda ljóða eftir ýmis frægustu skáld Evrópu og orti sjálfur í anda rómantísku stefnunnar.
Yrkisefni Steingríms eru oft bundin við náttúruna, fegurð landsins og árstíðirnar. Í kvæðum sínum bregður hann upp mynd umhverfisins og laðar fram þann hugblæ, sem við það er bundinn.
Hann lést árið 1913.
Sveitasæla
Man ég grænar grundir,
glitrar silungsá,
blómabökkum undir,
brunar fram að sjá.
Bændabýlin þekku
bjóða vina til,
hátt und hlíðarbrekku,
hvít með stofuþil.
Léttfætt lömbin þekku
leika mæðrum hjá,
sæll úr sólskinsbrekku
smalinn horfir á.
Kveður lóu kliður,
kyrrlát unir hjörð.
Indæll er þinn friður,
ó, mín fósturjörð.
Ó, þú sveitasæla,
sorgarlækning bezt,
værðar vist indæla,
veikum hressing mest,
lát mig, lúðan stríðum,
loks, er ævin dvín,
felast friðarblíðum
faðmi guðs og þín.
Skólaljóð, Ríkisútgáfa námsbóka, 1964