Báru sig vel þrátt fyrir hvassviðri í maílok
Víða má nú sjá merar með nýköstuð folöld sín sem eru að feta sín fyrstu spor í þessu lífi. Margir voru því með hugann við þessa fallegu ferfætlinga þegar stormur skall á sunnan- og vestanvert landið síðustu helgina í maí.
Eiríkur Vilhelm Sigurðarson er einn þeirra sem fór að líta eftir folöldunum sem voru í haga í stóðinu í Árbæjarhjáleigu II, Rangárþingi ytra, rétt vestan við Ytri-Rangá sunnudagskvöldið 30. maí.
Eiríkur sagði í samtali við Bændablaðið að fölöldin hafi borið sig nokkuð vel þrátt fyrir rokið, enda var hvorki kalt né mikil rigning. Smellti Eiríkur nokkrum fallegum myndum af folöldunum til að gleðja augu lesenda Bændablaðsins.
Eiríkur starfar annars sem markaðs- og kynningarfulltrúi á Hellu og var ráðinn af Rangárbökkum, þjóðarleikvangi íslenska hestsins ehf., sem framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna 2020. Mótið átti sem kunnugt er að halda á Hellu, en ekkert varð af því vegna COVID-19. Eiríkur stefnir samt ótrauður á að halda mótið sumarið 2022. Segir hann alla aðstöðu á mótsvæðinu vera mjög góða og með stóru og vel búnu tjaldsvæði. Þar er á hverju ári plantað fjölda trjáa til að mynda skjólbelti sem smám saman er að taka á sig svip.
„Þá er búið að skipuleggja lóðir fyrir hesthúsahverfi þarna á svæðinu og þegar búið að úthluta 8 lóðum. Þar fer uppbygging væntanlega af stað í haust,“ segir Einar.