Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Neyð almennings og matarsóun haldast í hendur við loftslagsmál.
Neyð almennings og matarsóun haldast í hendur við loftslagsmál.
Mynd / SP
Líf og starf 1. mars 2023

Bökum kleinur þegar mjólkin súrnar

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Yfir tíðina hefur of oft þótt skömm að því að nýta sér það sem af gengur hjá öðrum, hvort sem um ræðir matvörur, fatnað eða aðra nauðsyn. Það er kannski alveg spurning um að breyta hugsunarhættinum jafnvel þótt alls konar sálrænar flækjur geti truflað það ferli sem ætti að vera eðlilegra en ekki.

En hvað er eðlilegt? Jú – að nýta það sem er til, burtséð frá efnahag.

Ef við höfum í huga þá matarsóun sem á sér því miður stað hérlendis mættu allir landsmenn vera með hausinn á betri stað – duglegri við það að gefa, nýta sér, eða leyfa öðrum að nýta það sem umfram er.

Í mælingum Umhverfisstofnunar frá árinu 2019 kemur til dæmis fram að íslensk vísitölufjölskylda hendir sem svarar um 7 kg af mat vikulega – matarsóun heimila hérlendis er ríflega 60% af heildarsóun. Fyrir utan það að nýtanlegum mat er hent, teljum við allt of oft að urðun matar sé ekki sérstakt vandamál, því matur sé að mestu lífrænn og brotni því auðveldlega niður.

Sú er þó reyndar ekki raunin að urðun lífræns úrgangs sé jákvætt ferli. Á vefsíðu stefnunnar Saman gegn sóun má finna ýmislegt áhugavert tengt þessum misskilningi, ma. kemur fram að „... meirihluti matarúrgangs á Íslandi er urðaður, sem krefst sífellt meira landsvæðis og leiðir til myndunar og losunar gróðurhúsalofttegunda. Þegar lífrænn úrgangur brotnar niður við loftfirrðar aðstæður, líkt og myndast við urðun, þá myndast metangas. Metan er 21 sinnum virkari gróðurhúsalofttegund en koltvíoxíð og því töluvert verri.“

Urðunarmálin ítrekuð

Okkur langar flestum að bjarga heiminum og samkvæmt aðgerðaáætlun íslenskra stjórnvalda er varða loftslagsmál frá árinu 2020 höfðu yfirvöld einhverjar hugmyndir þess efnis, eða svokallað tíu ára plan. Áætlað var að stuðla að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda til ársins 2030 og leggja þannig grunn að markmiði stjórnvalda um kolefnishlutleysi Íslands árið 2040.

Urðunarskattur var meðal þess sem hátt var á baugi, en í ljós kom að sú hugmynd vakti litla hrifningu og í raun mikilli andstöðu, meðal annars hjá stjórnendum sveitarfélaganna og Sorpu. Laut ríkisstjórnin í lægra haldi þarna í umræðunni og ekkert varð úr urðunarskattinum, sem þó var áætlaður að yrði hvati til flokkunar úrgangs og myndi draga saman tæp 30 þúsund tonn CO2 ígilda árið 2030.

Síðastliðið haust benti Landvernd hins vegar á að þingsályktunin er varðaði ofangreint ætti fullan rétt á sér og fengi fullan stuðning stjórnar Landverndar. Meðal annars kom fram í skýrslu frá þeim er send var Alþingi;

„Jafnframt ítrekar stjórn sam- takanna að þörf er á öflugum aðgerðum þar sem stjórnvöld verða að fara á undan með skýrum lagaramma og áætlanagerð og samdrætti í losun frá starfsemi ríkisins. Dæmi um þetta eru:

  • lögfesting markmiða um samdrátt
  • hátt kolefnisgjald á alla geira, líka sjávarútveg og ferðaþjónustu
  • styrkjakerfi í landbúnaði sem ekki einblínir á dýraafurðir
  • bann við sölu á nýjum bensín- og díselbílum
  • landskipulagsstefna þar sem beit á illa förnu landi er heft, votlendi er endurheimt og nýjar framræsingar háðar leyfum
  • urðunarskattur og allsherjarbann við urðun lífræns úrgangs“

Fyrir hönd stjórnar Landverndar klykkir svo framkvæmdastjórinn, Auður Önnu Magnúsdóttir, út með orðunum: „Ekki er þörf á að brýna fyrir alþingisfólki hversu bráðnauðsynlegar aðgerðir í loftslagsmálum eru. Að lýsa yfir neyðarástandi í loftslagsmálum hvetur til aðgerða og því telur stjórn Landverndar brýnt að þingsályktunin verði samþykkt.“

Á meðan ráðamenn komast að niðurstöðu gætum við litið okkur nær og tekið skref í þá átt sem æskileg er. Til dæmis með því að kynna okkur verkefni sem er nú finna á landsvísu, svokallaða Frí-skápa.

Þjóðfélagsstaða ætti ekki að skipta máli er kemur að sóun

Eins og kom fram í Bændablaðinu í júnílok árið 2021 stóðu þau Kamila Walijewska og Marco Pizzolato fyrir opnun þess sem kallað er Freedge og þau kalla Frískáp á íslensku. Freedge er alþjóðleg hreyfing sem stendur fyrir uppsetningu svokallaðra samfélagskæla (frískápa) með það fyrir augum að draga úr matarsóun og byggja upp sterkara samfélag.

Þau Kamila og Marco settu fyrsta frískápinn upp á Bergþórugötu 20, við hús sem kallast Andrými, og standa félagsmenn Andrýmis einmitt fyrir því sem þau kalla „Free Supermarket“. Um ræðir, eins og nafnið gefur til kynna, ókeypis matvörur sem eru á boðstólum alla föstudaga á milli kl. 17.30 og 19.00.

Koma matvörurnar frá nærliggjandi bakaríum, veitingastöðum og ruslagámum þar sem gjarnan eru hirt fersk matvæli. Flokkast slíkt undir það sem hefur verið þekkt sem „dumpster diving“ og fer væntanlega fyrir brjóstið á mörgum – en vekur sjálfsagt að sama skapi fólk til umhugsunar um hverju er fargað. Allt sem er á boðstólum er vel útlítandi og boðlegt á hvaða disk sem er.

Nú, tæpum tveimur árum frá stofnun Frískápshreyfingarinnar hérlendis, hefur sprottið upp nokkur fjöldi skápa til viðbótar.

Eins og staðan er núna má finna frískápa í Reykjavík á svæðisnúmerum 101, í 105 við safnaðarheimili Lauganeskirkju, við Neskirkjuna á svæði 107, að Suðurlandsbraut 72, við Hjálpræðisherinn í 108, við Brúna Völvufelli í 111, á Kársnesinu, 200 Kópavogi svo og á Höfn í Hornafirði og á Akureyri. Í deiglunni er að setja upp frískápa í 108 sunnan Bústaðavegar, í hverfi 112 Grafarvogi, í Mosfellsbæ, miðsvæðis í Hafnarfirði, á Völlunum, í Reykjanesbæ og á Selfossi.

En hverjir eru þeir sem sækja í þessa frískápa? Jú – þeir sem vilja deila sínu og/eða næla sér í góðgæti. Engu máli skiptir hver þjóðfélagsstaða frískápaunnenda er, einungis er þarna um að ræða fólk sem er tilbúið til að gera sitt lítið af hverju þegar kemur að matarsóun.

Starfsemi Andrýmis er að finna á Bergþórugötu 20 í Reykjavík, en þar má finna starfræktan bæði frískáp og það sem kallast „Free Supermarket“ - matvöru sem í boði er ókeypis alla föstudaga. Á föstudögum má að auki koma með fatnað og velja sér á móti það sem aðrir hafa lagt til.

Með réttsýni að leiðarljósi

Þrátt fyrir þrálátan orðróm um gífurlega sóun í matvælaiðnaði, eru þau þó nokkur fyrirtækin sem gefa það sem umfram er eða þá þær vörur sem nálgast dagsetningu.

Til að mynda fer þó nokkuð af góðum mat til Fjölskylduhjálparinnar, en formaðurinn, Ásgerður Jóna Flosadóttir, segir að í Iðufellið sæki fjölskyldur sér aðstoð reglulega, frá bæði Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði, enda ekki um aðra aðstoð fyrir fólk úr þeim bæjarfélögum að ræða. Hópurinn sé misleitur þegar kemur að þjóðerni og menningu eða trúarbrögðum, en eigi það sameiginlegt að vera manneskjur í neyð.

Ásgerður segir stolt frá því að daginn sem við tölum saman sé matarúthlutun, ferskt og gott nautahakk, vínber og epli helsta nýmetið, en einnig eru í boði frosnar pitsur, úrval grænmetis, brauðmeti, niðursoðnar vörur og Royal búðingur svona í tilefni bolludags. Starfsfólk setur saman í poka dagsins, vel útilátinn, og jákvæðni og dugur er allsráðandi en hjá þeim starfa um 40-50 sjálfboðaliðar og maturinn komi frá fyrirtækjum sem eigi umfram sitt.

Áhugavert er að taka til þess að á meðan hinn almenni Íslendingur borðar nær allt sem hönd á festir, er til dæmis ekki hægt að segja það sama um þá sem aðhyllast íslam. Þar er blátt bann við því að borða svínakjöt í nokkru formi og því illmögulegt fyrir þá að taka við matarpoka með slíku góðgæti.

Kartöfluæturnar Íslendingar eru að sama skapi vanafastar á sitt meðlæti á meðan fólk annarra þjóða kjósa í mörgum tilfellum frekar hrísgrjón með mat.

Hentugt væri því að geta boðið fólki af öðrum menningarheimi og trú upp á matarpoka aðra daga en Íslendingum sem hafa alist hér upp frá barnsaldri.

Þá sérstaklega með trú múslima í huga í stað þess að þeir líði skort þegar áætluð matargjöf dagsins inniheldur svínakjöt – en einungs ein tegund poka er í boði hverju sinni.

Aðspurð tekur Ásgerður undir þessa hugmynd og segist áður hafa íhugað slík dagaskipti. Sú umræða var hins vegar blásin upp í fjölmiðlum og hún sögð hafa illan bifur á erlendu fólki. Það er þó fjarri lagi, enda er hér kona með sterka hugsjón og réttlætiskennd sem hefur staðið vaktina með reisn. Slíkt er ekki auðvelt enda staða þar sem þörf er á mikilli yfirsýn og skipulagshæfni eins og nærri má geta.

Leggjum til það sem af fellur

Ekki fyrir löngu komst á laggirnar svokallaður matarbanki í Iðufellinu, en þangað gefa fyrirtæki matvæli sem eiga stutt í að verða útrunnin, í stað þess að setja í urðun. Einnig fara þangað vörur sem settar hafa verið í frost fyrir síðasta söludag og skulu notast strax og teknar eru úr frysti. Allt eru þetta vel nýtanlegar vörur enda dagsetningar ekki alltaf það sem miða þarf við. Slíkur hugsanaháttur á einmitt við þegar tekið er til bæði matarsóunar og þá loftslagsmála.

Mæðrastyrksnefnd stendur einnig fyrir matargjöfum tvisvar sinnum í mánuði og reka að sama skapi öflugt og vel metið starf í Hátúni 12 í Reykjavík.

Báðar stofnanir má styrkja með fjárframlögum inn á banka- reikninga. Fyrirtæki sem hafa ráð á að gefa matvæli eða nauðsynjavörur ættu að hafa samband – jafnvel þó skammt sé í að matvælin séu að renna út á tíma.

Verum skynsöm, bökum kleinur

Að lokum má ekki gleyma kynslóðum fyrri ára sem ólust upp við að fara vel með, nýta það sem hægt var og frysta það sem komið var á dag. Til ítrekunar má ekki gleyma fleygum orðum móður minnar fyrir nokkru: „Þegar mjólkin fór að súrna voru bakaðar kleinur“. (Hluti þeirra væntanlega frystur í kjölfarið).

Og – það er engin skömm að því að nýta það sem af gengur, engin skömm að því að vera meðvitaður um kolefnisspor iðnaðarins og engin skömm að því að þiggja þegar þörf er á. Við erum heldur ekkert að finna upp hjólið þegar kemur að nægjusemi þó hún sé í umræðunni núna varðandi kolefnisspor og loftslagsmál.

Loftslagsváin ætti ekki einu sinni að vera hvatinn heldur einungis það að við eigum að fara vel með.

Reynum að láta þetta síast inn.

Skylt efni: matarsóun

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...