Fæddist með skógarbakteríuna og hefur kennt tálgun í rúmlega tuttugu ár
Ólafur Oddsson hefur verið með tálguskóla og námskeið í tengslum við fjölmarga skóla fyrir nýja leiðbeinendur í um tvo áratugi. Á vegum hans hefst t.d. heilsárs leiðbeinendanámskeið í staðnámi og fjarnámi í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands nú í febrúar.
Ólafur lærði uppeldisráðgjöf í Noregi og vann m.a. við starfsþjálfun ungmenna í skógi eftir námið. Hann starfaði síðan í Reykjavík með börnum og unglingum í vanda, m.a. sem forstöðumaður Rauða kross hússins í fimm ár.
Tálgunámskeiðin „Lesið í skóginn“ hafa notið mikilla vinsælda hjá öllum aldurshópum. Mynd / Ólafur Oddsson
„Fyrsta „Lesið í skóginn og tálgað í tré“-námskeiðið var haldið í Haukadalsskógi árið 1999. Það varð til með samstarfi okkar Guðmundar Magnússonar, þá smíðakennara á Flúðum, en hann sótti tálgutæknina og ferskar viðarnytjar á námskeiði hjá sænska Heimilisiðnaðarfélaginu. Þar höfðu svokölluðu „öruggu hnífsbrögðin“ orðið til og borist á milli kynslóða m.a. vegna tálgunar á „dalahestinum“ svokallaða.
Við kenndum saman við Guðmundur í mörg ár vítt og breitt um landið en unnum jafnframt að því að tengja tálgunina við skógarhirðu og nytjar í skólastarfi, fyrst í Flúðaskóla en síðan í gamla Kennó og í öllum landshlutum var unnið með skólum sem tóku þátt í þróunarstarfinu,“ segir Ólafur Oddsson, aðspurður hvenær hann hafi fyrst komið að tálgunámskeiðum en hann er einn færasti leiðbeinandi landsins á þessu sviði.
Valnámskeið hjá Háskóla Íslands
Ólafur segir að Lesið í skóginnnám-skeiðið sé búið að vera valnámskeið í grunnnámi kennaramenntunar hjá Menntavísindasviði Háskóla Íslands í nær 20 ár. Á vorönn 2021 eru til dæmis 32 nemendur á námskeiðinu og komust færri að en vildu. Námskeiðið er líka í boði á meistarastigi og heitir „Útikennsla og græn nytjahönnun“.
„Síðan við Guðmundur byrjuðum hafa Lesið í skóginn námskeiðin teygt sig inn í fjölbreytta kima samfélagsins. Í leik- og grunnskólastarfi, þar sem skógurinn hefur orðið að vettvangi skógartengds útináms, tengsl skólastiga, s.s. með verkefninu „Gullin í grenndinni“ í Árborg og síða í Flóaskóla. Þá má bæta við „Tálgað í takt við náttúruna“ í Listaháskóla Íslands og á margs konar námskeiðum hjá Landbúnaðarháskólanum enda hefur Garðyrkjuskólinn/Lbhí stutt okkur Guðmund í námskeiðahaldinu fyrir almenning og einstaka hópa, s.s. skógarbændur, sumarhúsafólk og fyrir fólk í mörgum starfsgreinum og hópum,“ segir Ólafur.
Ólafur Oddsson segist hafa fæðst með skógarbakteríuna, enda hefur líf hans snúist meira og minna um skóga og skógrækt. Ljósmynd / Ólafur Oddsson
Fæddist með skógarbakteríuna
En hvernig byrjaði þetta allt saman, af hverju skógrækt og þessi mikli áhugi á nytjum skógarins?
„Já, þú segir nokkuð, ég fæddist með skógarbakteríu og vann á sumrin við skógrækt með námi. Ég lærði síðan uppeldisráðgjöf í Noregi og vann við starfsþjálfun ungmenna í skógi eftir námið og starfaði síðan í Reykjavík með börnum og unglingum í vanda, m.a. sem forstöðu-maður Rauða kross hússins í fimm ár, sem var neyðarathvarf fyrir börn og unglinga,“ segir Ólafur.
„Slæmur árangur barna og unglinga í námi var oft upphafið að brotthvarfi úr skóla með aukinni hættu á vímuefnaneyslu og meiri vandamálum.
Ég hef alltaf verið upptekinn af því að auka fjölbreytni í viðfangs-efnum í skólastarfi, gefa börnum og unglingum tækifæri til að tengjast náttúru og fást við verkefni tengd henni. Eftir að ég hætti sem forstöðumaður Rauða kross hússins fór ég að vinna að kynningar- og fræðslumálum hjá Skógrækt ríkisins og fléttaði þar saman uppeldi og skógrækt með verkefninu „Lesið í skóginn“ sem margir skólar tóku þátt í og gerðu skólastarfið fjölbreyttara og fyrir suma nemendur árangursríkara með skógartengdu útinámi. Það hefur síðan þróast í þá átt að kenna tálgun og hitt og þetta tengt skógarmenningu á fjölbreyttum námskeiðum og í ólíkum hópum með fjölbreyttu fólki.“
Það er hægt að gera ýmsa fallega hluti úr trjánum en nú á að þjálfa upp tíu nýja leiðbeinendur til að kenna fólki réttu handbrögðin við tálgun og vinnslu trjáafurða. Mynd / Ólafur Oddsson
Einföld áhöld og ferskur og mjúkur viður
Ólafur er því næst spurður hvaða aðferðir hann noti helst á námskeiðunum og hvað hann sé aðallega að kenna fólki.
„Það sem vekur áhuga og ánægju fólks á námskeiðunum eru einföld áhöld, kennsla um notkun þeirra og umhirða. Einnig góð handverks- og tálgutækni, ferskur og mjúkur viður.
Sköpunarþátturinn skiptir líka miklu máli og tengslin við skóginn sem myndast þegar fólk vinnur í skóginum við grisjun og fær fræðslu um vistfræði skógarins, fjölbreytt lífríki, ólíkar trjátegundir og uppsker gripi sem unnir eru úr ólíkum trjátegundum til ólíkra nota. Það getur svo yfirfært það á sitt eigið umhverfi, s.s. garð, sumarhúsalóð og skóg.
Þessi tenging við nærumhverfi þátttakenda gefur lífsfyllingu sem nærir hugmyndina um sjálfbærni og góð tengsl manns og náttúru. Til verða fjölbreyttir gripir þegar sleppir skylduverkefnum sem tengjast því að lesa í form og eiginleika trjátegundanna, t.d. sleifar og spaðar, krúsir og snagar.“
Allir geta lært að tálga
Ólafur segir að allir geti lært að tálga, enda hefur hann kennt öllum aldurshópum galdurinn við tálgutæknina.
„Já, já, það geta allir lært að tálga en það tekur kannski mislangan tíma fyrir fólk að ná tökum á tækninni. Það hefur færst í vöxt að foreldrar og börn komi saman á námskeið og geri „Lesið í skóginn“ og tálgunina að sameiginlegu viðfangsefni og lífsstíl. Þannig býr fólk sjálft til eldhúsáhöld og nytjahluti úr efni í garðinum í stað þess að kaupa þau,“ segir Ólafur.
Sandskófla úr blæösp eftir Ólaf. Mynd / Ólafur Oddsson
Gripirnir seldir sem minjagripir
Það er gaman að segja frá því að upp úr tálguninni og öllum námskeiðunum sem hafa verið haldin hefur sprottið menning í þjóðfélaginu þar sem fólk hefur atvinnu af því að tálga gripi og selja sem minjagripi, s.s. íslensku fuglana, fígúrur og íslensku dýrin. Allt er það unnið úr íslenskum viði.
„Já og í skólastarfi hefur líka orðið til skógartengd menning þar sem grenndarskógar skólanna eru notaðir í margs konar náms- og þroskatilgangi,“ bætir Ólafur við.
Mjúku trjátegundirnar bestar
Þegar kemur að því að forvitnast hjá Ólafi um þær trjátegundir, sem sé best að tálga úr segir hann það vera víði, ösp, elri og furu til að vinna frumgerðir eða sýnishorn af nytjahlutum en margar þessara tegunda henta ágætlega í eldhúsáhöld og aðra nytjahluti, sérstaklega þegar um byrjendur er að ræða.
Tálguskóli 12. og 13. febrúar
Ólafur byrjar með leiðbeinendanámskeið í tálgun í samvinnu við Landbúnaðarháskóla Íslands dagana 12. og 13. febrúar þar sem aðeins tíu sæti verða í boði. Námskeiðið stendur yfir í heilt ár í staðnámi og fjarnámi og endar með útskrift leiðbeinendanna.
„Það má segja að þetta sé tálguskóli en námskeiðið er haldið vegna sívaxandi eftirspurnar í þjóðfélaginu fyrir góða leiðbeinendur í tálgun. Á námskeiðinu verður sérstök áhersla lögð á hlutverk leiðbeinandans í tálgun, nokkurs konar kennslufræði tálgunar. Í því sambandi er margt sem þarf að hafa í huga svo þátttakendur njóti fræðslunnar sem best. Gert er ráð fyrir að þau sem klára námskeiðið geti undirbúið og framkvæmt dagskrá og kennslu við ólíkar aðstæður.
Ég vonast til að það verði fjölbreyttur hópur fólks sem sæki námskeiðið sem geti síðan tekið að sér ýmiss konar samþætta fræðslu í tálgun, trjáhirðu, skógarupplifun og gerð áhalda, skrautmuna og ýmiss konar nytjahluta fyrir ólíka hópa í samfélaginu. Það gæti t.d. verið í skóla- og frístundastarfi, náms- og starfsendurhæfingu, félagsstarfi eldi borgara, heilsutengdu starfi, skapandi greinum í skólastarfi og fleira og fleira. Hægt er að skrá sig á námskeiðið á https://endurmenntun.lbhi.is/talgun-i/.