Fjárfestingarátak fyrir ung og lítt þróuð félög
Nýsköpunarsjóður hefur hafið fjárfestingarátak fyrir félög sem komin eru skammt á veg í þróun sinni.
Markmið átaksins er að koma að fjármögnun allt að 15 nýrra félaga á ári hverju, flýta mótunarskeiði þeirra, þróa trausta stjórnarhætti og laða samhliða að aðra fjárfesta. Fjármögnun átaksins byggir á eigin fjármögnun sjóðsins og framlagið háð stöðu hans á hverjum tíma.
Fyrsti áfanginn í þessu átaki kemur til framkvæmda í maí og júní, með allt að 100 m.kr. fjárfestingu í nokkrum félögum, segir í fréttatilkynningu frá Nýsköpunarsjóði. Fjárfest verði snemma í félögum, en eitt skilyrða sé mótframlag hluthafa eða nýrra fjárfesta. Jafnframt er kveðið á um að viðskiptahugmynd félags sé vænleg til vaxtar og útflutnings og byggi á tæknilegri eða markaðslegri nýsköpun.
Ólíkt hefðbundnum fjárfestingum Nýsköpunarsjóðs verður í þessu átaki sérstakt umsóknarferli og þurfa félög að sækja um í þessum fyrsta áfanga fyrir 31. maí. Nánari upplýsingar um átakið og umsóknarferlið má finna á vefnum www.nyskopun.is/atak.