Fjórar gimbrar og tveir hrútar fengu 20 stig fyrir læri
Höfundur: smh
Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn 12. október síðastliðinn á Hellu. Helst bar þar til tíðinda að fjórar gimbrar og tveir hrútar fengu fullt hús stiga fyrir læri í lambadómum.
Að sögn Huldu Brynjólfsdóttur, frá Félagi sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu, sem stóð að viðburðinum, var þátttaka mjög góð og margir gestir komu til að sjá fallegt fé, hitta sveitungana og eiga góðan dag saman.
Ræktunarbú ársins 2018 var Meiritunga 4, en ábúendur þar eru Þórdís Ragna Guðmarsdóttir og Tyrfingur Hafsteinsson.
Bakvöðvi frá Skíðabakka 43 sentimetra þykkur
„Hæstu lambhrútar úr heimasýningum voru boðaðir til sýningarinnar, en auk þess mátti koma með ódæmda hrúta á staðinn. Þá voru gimbrar einnig velkomnar, bæði dæmdar og ódæmdar.
Óhætt er að segja að þykkir vöðvar hafi ráðið ríkjum á sýningunni, en hvorki meira né minna en sex lömb fengu 20,0 fyrir læri. Þá var þykkasti bakvöðvi sýningarinnar á gimbur frá Skíðbakka, en hann var 43 mm,“ segir Hulda.
„Dagurinn var hefðbundinn, en byrjað var að dæma lömb fyrir hádegi og síðan raðað í sæti eftir hádegi. Verðlaunað var fyrir hyrnd og kollótt lömb hvort í sínu lagi. Meiritunga 4 var útnefnt ræktunarbú ársins 2018, en þar eru ábúendur Þórdís Ragna Guðmarsdóttir og Tyrfingur Hafsteinsson. Besta fimm vetra ær sýslunnar er frá Árbæjarhjáleigu, númer 14-401, en þar eru ábúendur þau Kristinn Guðnason og Marjolyn Tiepen. Besti veturgamli hrúturinn er frá Teigi í Fljótshlíð, Þrjótur númer 17-396, en þar eru ábúendur þau Arna Dögg Arnþórsdóttir, Guðni og Tómas Jennssynir. Sú nýbreytni var að ekki voru dæmdir veturgamlir hrútar, heldur fékk sá veturgamli hrútur sem skilaði bestum afurðum árið 2018 viðurkenningu.
Áhorfendur hafa valið litfegursta lambið að undanförnu og það atriði var einnig núna, en auk þess komu nokkur börn með vel skreytt lömb sem áhorfendur kusu um hvert væri best skreytt.“
Gimbur í happdrættisvinning
Hulda segir að margir aðilar styrki hátíðina sem er árviss viðburður í sýslunni; sveitarfélögin þrjú; Rangárþing ytra, Rangárþing eystra og Ásahreppur sem styrkja með fjárframlagi, Sláturfélag Suðurlands sem gefur kjötsúpu, Rangárhöllin sem gefur afslátt af húsnæðinu og nokkrir aðilar sem gefa vinninga í happdrætti, en þar má meðal annars vinna efnilega gimbur.
„Við þökkum öllum þeim sem komu að sýningunni með einum eða öðrum hætti, kærlega fyrir þeirra framlag. Styrkjendum af heilum hug og þeim sem gáfu happdrættisvinninga og hlökkum til næstu sýningar sem verður í október 2020,“ segir Hulda.
Besti veturgamli hrútur ársins 2018 kom frá Félagsbúinu Teigi, en ábúendur þar eru Arna Dögg Arnþórsdóttir, Guðni Jensson og Tómas Jensson.