Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Tungurétt er hundrað ára, elsta steinsteypta rétt landsins. Afmælisnefndin: F.v. Jón Bjarki Hjálmarsson, Tjörn, Atli Þór Friðriksson, Koti, Þórarinn Hjartarson frá Tjörn og Jón Þórarinsson, Hnjúki.
Tungurétt er hundrað ára, elsta steinsteypta rétt landsins. Afmælisnefndin: F.v. Jón Bjarki Hjálmarsson, Tjörn, Atli Þór Friðriksson, Koti, Þórarinn Hjartarson frá Tjörn og Jón Þórarinsson, Hnjúki.
Mynd / Jóhann Snær Arnaldsson
Líf og starf 29. ágúst 2023

Gangnamaðurinn hylltur

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Við Tungurétt í Svarfaðardal verður senn afhjúpaður minnis­varði gangnamannsins, hinn fyrsti á Íslandi.

Tungurétt er við mynni Skíðadals inn af Svarfaðardal og verður haldið upp á hundrað ára afmæli hennar með afhjúpun gangnamannsminnisvarðans, laugardaginn 26. ágúst. Jón Þórarinsson á Hnjúki í Skíðadal segist hafa gengið með hugmyndina um slíkan minnisvarða í kollinum í hartnær tvo áratugi. Fyrir mörgum árum hafi bjarg verið fjarlægt úr vegstæði upp úr Skíðadalnum og sett í bakkvörn til að bægja Skíðadalsá frá. Bjargið hafi lokið sínu hlutverki í þeim efnum og verði nú undirstaða fyrir minnisvarðann. „Þetta er stór steinn, um 7 tonn að þyngd, dálítið eins og fjall í laginu,“ segir Jón. „Ofan á hann koma listaverk: nokkrar lausar kindur, gangnamaður með prik í hendi á eftir kindunum og hundur á eftir manninum, allt skrúfað ofan á steininn.“ Verkið er unnið úr ryðfríu stáli, af hagleikssmiðnum og listamanninum Jóhannesi Hafsteinssyni á Dalvík. Helstu styrktaraðilar verkefnisins eru Norðurorka Akureyri og Menningarsjóður Dalvíkurbyggðar.

Jón segist ekki hafa spurnir af að áður hafi verið reistur minnisvarði til heiðurs gangnamönnum, honum finnist þetta ekki ósvipað og minnisvarði sjómannsins, svo dæmi sé tekið, og alveg tímabært. „Með tilkomu minnisvarða gangnamanns eiga allir Íslendingar tilkall til minnisvarða þar sem helmingur Íslendinga á ættir sínar að rekja til sjómannastéttar og hinn helmingurinn til bændastéttar.“ Hann bætir við að minnisvarði gangnamannsins sé öllu gangnafólki til heiðurs, hvers kyns sem það sé.

Þótt Jón á Hnjúki sé upphafsmaður verkefnisins eru þeir fjórir sem standa að framkvæmdinni: auk Jóns þeir Atli Þór Friðriksson í Koti í Svarfaðardal, Þórarinn Hjartarson frá Tjörn í sömu sveit en brottfluttur og býr á Akureyri og Jón Bjarki Hjálmarsson á Tjörn.

Elsta steinsteypta réttin

Tungurétt er elsta rétt á Íslandi sem steypt er úr steinsteypu, frá 1923. „Við endurbyggðum réttina árin 2010 til 2014, styrktum hana og steyptum alla upp,“ segir Jón og bætir við að gömlu veggirnir frá 1923 sjáist þó í flestum dilkunum að innanverðu. „Við létum þá gömlu halda sér og steyptum bara utan um þá á annan veginn þannig að hægt er að sjá mosagróna steypta veggi frá 1923 inni í réttinni. Þetta er í okkar huga merkilegt og við vildum gjarnan koma því á framfæri.“ Yfirsmiður endurbótanna var Rúnar Búason, húsasmíðameistari á Dalvík.

Þegar afmælinu verður fagnað og minnisvarðinn afhjúpaður mun fólk safnast saman í réttinni og gleðjast. „Uppistaðan verður mikið til að allir gangnamenn taka þátt í söng,“ segir Jón. „Oddur Bjarni Þorkelsson, prestur á Möðruvöllum, verður með okkur, Þórarinn á Tjörn mun fara yfir sögu réttarinnar, við afhjúpum minnisvarðann og bjóðum svo í kaffi með gamla laginu, upp á fjórar hundrað ára gamlar brauðtegundir; kleinur og þess háttar.“

Í tengslum við afmælið stendur til að gefa út 120 bls. fræðslu- og menningarrit sem hefði að geyma sögu fortíðarinnar hvað varðar fjárréttir, smalakofa, stekki og kvíar frá fjallaskiladeildunum þremur sem enn eru í óbreyttu formi eftir sameiningu þriggja sveitarfélaga fyrir rúmum 20 árum.

Þegar Tungurétt var gerð upp fyrir áratug voru 100 ára gömlu steyptu veggir dilkanna látnir halda sér til að varðveita söguna. Mynd / Jón Bjarki Hjálmarsson

Félag til að auðvelda göngur

Svarfaðardalur tilheyrir sveitarfélaginu Dalvíkurbyggð á Norðurlandi eystra. Þar er við lýði sérstakt gangnamannafélag sem sett var á laggirnar eftir að allt fé var skorið árið 1988 á öllum bæjum í Svarfaðardal og hjá hobbíbændum á Dalvík. Þó hafi níu bæir í dalnum verið riðulausir, að sögn Jóns og voru menn síður en svo sáttir við heildarniðurskurðinn á svæðinu. „1989 sáum við fram á að engar göngur yrðu en samt varð að smala svæðið. Þá stofnuðu menn félagið. Það komu ekki kindur á nálægt alla bæi aftur og æ erfiðara var að fá fólk í göngur,“ segir Jón og heldur áfram: „Þá var þetta félag stofnað og sér um göngur hér á svæðunum sem tilheyra sveitarfélaginu. Það er að segja afréttinni sem tilheyrir sveitarfélaginu. Þetta eru á bilinu 30-40 menn.

Mér finnst svo mikils virði fyrir tilhögun á göngum að halda uppi gamla mátanum sem við höfum alist upp við, það er svo víða þar sem göngur eru ekkert orðnar göngur eins og þær voru. Það þykir hvorki sport né eftirsóknarvert að fara í göngur á sumum svæðum á landinu að því er maður heyrir. Hér er bara gamla hefðin enn við lýði, sem betur fer, og svolítið strangt tekið á því ef menn svíkjast um að fara í göngur. Ekki er beitt fésektum en þykir frekar niðurlægjandi heldur en hitt að fara ekki,“ segir hann.

Á árunum 1975-1985 var um 17.000 kindum smalað til rétta í Svarfaðardal en árið 2020 voru þær um 6.500 talsins. Stemningin í Tungurétt einkennist af hlátri, samsöng og taumlausri gleði, segir á upplýsingaskilti við réttina.

Ekki eru allar jarðir í dalnum setnar. Að sögn Jóns var gangnamannafélagið stofnað þegar bæir voru mikið orðnir setnir af eldra fólki og búskapur farinn að dragast saman. „Þá gat þetta fólk ekki farið í göngur og því var gangnamannafélagið líka hugsað til að auðvelda hlutina. Af þeim sem eru í félaginu er sjálfsagt um helmingur búsettur í þéttbýli; brottfluttir og tengdir,“ segir Jón að lokum.

Skylt efni: Svarfaðardalur

Staða harmonikunnar sterk
Líf og starf 30. desember 2024

Staða harmonikunnar sterk

Félag harmonikuunnenda í Reykjavík heldur úti starfi fyrir harmonikuunnendur, sa...

Nýr heimsmeistari í skák
Líf og starf 30. desember 2024

Nýr heimsmeistari í skák

Nýr heimsmeistari í skák var krýndur 12. desember síðastliðinn. Hann heitir Domm...

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu
Líf og starf 27. desember 2024

Ungfrúr Snæfells- og Hnappadalssýslu

Á seinni hluta nítjándu aldar hófu kvenfélög að stinga upp kolllinum hérlendis, ...

Jólin komu snemma fyrir norðan
Líf og starf 27. desember 2024

Jólin komu snemma fyrir norðan

Það mátti greina spennu og tilhlökkun í augum Þingeyings sem óðamála sagði umsjó...

Sinn er siður í landi hverju
Líf og starf 27. desember 2024

Sinn er siður í landi hverju

Líkt og Íslendingar eiga Grænlendingar og Færeyingar sér sterkar jólahefðir sem ...

Ár umbreytinga og innsæis
Líf og starf 27. desember 2024

Ár umbreytinga og innsæis

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði ...

Hvað er í jólamatinn og af hverju?
Líf og starf 23. desember 2024

Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Spurning dagsins: Hvað er í jólamatinn og af hverju?

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...