Garðyrkjuritið hefur fylgt tíðarandanum
Garðyrkjufélag Íslands var stofnað árið 1885 og fagnar 136 ára afmæli á þessu ári og er það með elstu félögum landsins. Helsti hvatamaður að stofnun félagsins var Hans Jakob George Schierbeck landlæknir og var hann formaður þess í átta ár. Schierbeck var einnig helsti hvatamaður að útgáfu Garðyrkjuritsins.
Björk Þorleifsdóttir, ritstjóri Garðyrkjuritsins og verkefnastjóri fræðslu og miðlunar Grasagarðsins í Reykjavík, segir að fyrsta tölublað ritsins hafi komið út árið 1895. „Ritið kom út á hverju ári til 1901 og flutti margs konar fróðleik um ræktun og garðyrkju en mest um matjurtarækt. Eftir það var hlé á útgáfunni til 1920 þegar það fór að koma aftur út og og samfleytt til 1934 að tveimur árum undanteknum, 1926 og 1931, en þau ár fengu félagar í Garðyrkjufélaginu bækurnar Hvannir og Rósir eftir Einar Helgason í staðinn. Aftur varð hlé á útgáfu ritsins frá 1935 til 1937 en það hefur komið samfellt út síðan þá.“
Hans Jakob George Schierbeck, landlæknir og einn af stofnendum Garðyrkjufélags Íslands og frumkvöðull að útgáfu Garðyrkjuritsins. Lágmynd gerð af Helga Gíslasyni.
Björk segir að þrátt fyrir að hún hafi einungis stýrt útgáfu tveggja tölublaða Garðyrkjuritsins sé starfið skemmtilegt og gefandi en á köflum stressandi líka, sérstaklega þegar líður að útgáfu og að það eru ekki allir búnir að skila greinum til birtingar.
"Ég var í ritnefnd í nokkur ár áður en ég varð ritstjóri og vissi því að hverju ég gekk.“
Nauðsyn matjurtaræktar
„Schierbeck landlæknir var áhugamaður um matjurtarækt og lagði mikla áherslu á að kenna fólki að rækta matjurtir, enda veitti ekki af þar sem skyrbjúgur og hörgulsjúkdómar voru algengir í landinu fyrr á tímum. Auk Schierbeck skrifuðu Árni Thorsteinsson landfógeti og Einar Helgason garðyrkjumaður og fleiri í fyrstu árgangana, sem hefur stundum verið kallað gamla garðyrkjuritið, auk þess sem þeir voru í stjórn félagsins.“
Hluti af Búnaðarfélagi Íslands
Í upphafi tuttugustu aldar varð Garðyrkjufélagið hluti af Búnaðarfélagi Íslands, eða eins og segir í Garðyrkjuritinu 1901: „Fundi hefur lengi eigi verið á komið í Garðyrkjufélaginu og bíður hann úr þessu búnaðarþingsins í sumar, kemur þá til álita, hvort Garðyrkjufélagið eigi að halda áfram, sem sérstakt félag, eða renna inn í Búnaðarfélag Íslands, sem þá tæki að sér allar skyldur. Hins íslenzka garðyrkjufélags.“
Garðyrkjufélagið var endurreist sem sjálfstætt félag 1918 og hefur starfað sem slíkt síðan þá. Auk Garðyrkjuritsins hefur Garðyrkjufélagið staðið fyrir útgáfu bóka um gróðurhúsaræktun, skrúðgarðyrkju, matjurtarækt og sveppi.
Fylgir tíðarandanum
Björk segir að við skoðun sjáist að Garðyrkjuritið hefur fylgt tíðarandanum og umfang þess aukist.
„Fyrstu árin er mikið fjallað um matjurtir og þar mætt ákveðinni þörf og auk þess að gefa út ritið flutti það inn fræ og tæki og svo var farið um landið með fræ og fólki kennd matjurtarækt. Samkvæmt fundargerð félagsins frá 6. ágúst 1897 voru til dæmis gerðar tilraunir með „kálrapi í Berufirði, Eskifirði, Seyðisfirði, Vopnafirði og í Eyjafirði, en vegna íss, sem tálmaði för gufuskipsins í kringum landið í júní, hefði eigi getað orðið gjörð með það á Vestfjörðum, eins og til var ætlast.“
Í fyrstu árgöngunum er einnig talsvert um ræktun inni- eða stofublóma eins pottaplöntur voru kallaðar á þeim tíma. Fyrstu árgangarnir voru í litlu broti en það hefur stækkað og síðufjöldinn aukist.
Eftir að ritið fór að koma út aftur óx áhugi á ylrækt og ræktun í vermireitum. Það var fjallað um áburðargjöf og verkfæri en eftir því sem líður á tuttugustu öldina og í kjölfar aukins innflutnings á plöntum er farið að fjalla meira um skrúðgarða og skrautplöntur. Í fyrsta Garðyrkjuritinu eftir hrun, 2009, var umfjöllun um matjurtir og ræktun þeirra sérlega áberandi enda jókst áhugi almennings á matjurtaræktun gríðarlega í kjölfar hrunsins og það rit sýndi vel að Garðyrkjuritið er með puttann á púlsinum.
Sama er uppi núna á tímum COVID-19 þegar fólk kemst ekki til útlanda að skoða fallega garða; mér sýnist 101. tölublaðið bera keim af því og höfundar vera að fjalla um nærumhverfi sitt.
Ritið er með þykkara móti í ár, rúmlega 160 síður og með yfir 250 myndum, og mun stærra en það var í fyrra og greinilegt að fólki lá mikið á hjarta, og reyndar var það svo að þessu sinni að við fengum óvenju mikið af efni og eigum við nokkrar góðar greinar til góða fyrir næsta rit.“
Öflugt áhugamannafélag
„Garðyrkjufélagið er öflugt áhugamannafélag og innan þess eru starfandi klúbbar áhugafólks um til dæmis rósir, matjurtir og sígrænar plöntur svo dæmi séu nefnd og hvert um sig með virka starfsemi.
Nýlega voru öllu tölublöð Garðyrkjuritsins frá 1939 til 2014 gerð aðgengileg á heimasíðu félagsins, gardurinn.is, auk nokkurra annarra rita sem félagið hefur gefið út og er það mikill akkur fyrir allt áhugafólk um garðyrkju.
Frá upphafi hafa meðlimir í félaginu skrifað megnið af efninu í ritinu sjálfir og yfirleitt er um áhugafólk að ræða og svo eru auðvitað sérfræðingar inni á milli. Að sjálfsögðu eru sumir afkastameiri en aðrir og yfirleitt mikill eldmóður og ástríða í því sem höfundarnir eru að senda frá sér en hér er um fólk að ræða sem elskar að rækta,“ segir Björk Þorleifsdóttir, ritstjóri Garðyrkjuritsins.