Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Lars Lund í fjárhúsunum á Hallgilsstöðum. Íslenska sauðféð ætti að vera nokkuð kunnuglegt, enda náskylt því grænlenska.
Lars Lund í fjárhúsunum á Hallgilsstöðum. Íslenska sauðféð ætti að vera nokkuð kunnuglegt, enda náskylt því grænlenska.
Mynd / ÁL
Líf og starf 22. desember 2023

Grænlensk fjölskylda tekur við sauðfjárbúi

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Lars Lund og Tupaarnaq Bjerge Motzfeldt tóku við búskap á Hallgilsstöðum í ágúst síðastliðnum. Þau eru bæði uppalin á sauðfjárbúum á Suður-Grænlandi.

Nýju ábúendurnir á Hallgilsstöðum. Tupaarnaq Bjerge Motzfeldt og Lars Lund ásamt börnum sínum, Inuik sex ára, Paarma fjögurra ára og Anguik tveggja ára.

Lars kynntist héraðinu þegar hann var í verknámi í tengslum við búfræðinám sitt fyrir áratug. Þá starfaði hann sem vinnumaður á Sauðanesi í Langanesbyggð.

Hann hefur haldið góðum tengslum við fólkið þar síðan þá og benti Ágúst Marinó Ágústsson, bóndinn á Sauðanesi, honum á að sækja um þegar sveitarfélagið auglýsti eftir nýjum ábúendum á Hallgilsstaði 1 í vor.

Gott tækifæri

Lars og Tupaarnaq gerðu sér ekki miklar vonir um að vera valin, enda voru sex aðrir umsækjendur sem sýndu jörðinni áhuga. Þau hlutu hins vegar ábúðina í sumar og höfðu skamman tíma til að flytja frá Grænlandi. Aðspurður af hverju þau ákváðu að flytja til Íslands, segir Lars að tengdafaðir hans á Grænlandi sé enn ungur og ekki komið að ábúendaskiptum þar. Í Hallgilsstöðum hafi falist gott tækifæri sem þau ákváðu að grípa.

Börnin þeirra eru þrjú, drengurinn Inuik, sex ára, stúlkan Paarma, fjögurra ára og Anguik, tveggja ára drengur. Þau eru komin í grunnskóla og leikskóla og segir Lars að þeim gangi vel að læra íslensku. Þá er Lars afar þakklátur fyrir hversu vel nærsamfélagið hefur tekið fjölskyldunni.

Þrjú hundruð kindur

Nú eru liðlega þrjú hundruð kindur í fjárhúsunum. Þá eru tvær geitur, fimm hænur, fimm hestar og einn hundur á bænum. Þau keyptu sjötíu kindur frá fyrri ábúendum, en hinar hafi bæði komið frá sveitungum og bændum lengra að.

Stefnan sé að stækka stofninn upp í sex hundruð ær, sem sé sá fjöldi sem fjárhúsin rúma.

Tupaarnaq hefur ákveðin tengsl við Ísland, en systir hennar lagði stund á búfræðinám á Hvanneyri og fór faðir hennar í verknám á Ytra-Áland. Hún hefur þó ekki dvalið á Íslandi áður, nema á ferðalögum. Nú er Tupaarnaq við nám í ferðamálafræðum og vonast unga parið til að geta byggt upp ferðaþjónustu á bænum í einhverri mynd.

Nú eru liðlega þrjú hundruð kindur á Hallgilsstöðum, en stefnan er að fjölga upp í sex hundruð.

Úr landbúnaðarhéraði

Uppeldisstöðvar unga parsins eru í nágrenni Qaqortoq, sem er stærsti bærinn á Suður-Grænlandi. Svæðið var áður nefnt Eystribyggð af norrænum mönnum.

Nokkuð er um sauðfjárbúskap í því héraði og segir Lars búskaparhættina mjög svipaða því sem hann hefur kynnst á Íslandi. Sauðfjárkynið þar sé náskylt því íslenska með smávægilegum áhrifum frá norsku fé. Í samanburði eru grænlensku kindurnar háfættari og segir Lars þær skila af sér ögn minna af kjöti.

Tónlistarkennari hlaut menningarverðlaun
Líf og starf 25. júlí 2024

Tónlistarkennari hlaut menningarverðlaun

Tónlistarkennarinn Marika Alavere hlaut menningarverðlaun Þingeyjarsveitar árið ...

Telur árangurinn á EM viðunandi
Líf og starf 23. júlí 2024

Telur árangurinn á EM viðunandi

Evrópumótinu í bridds lauk í síðustu viku í Herning í Danmörku. Ísland sendi út ...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 22. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Kóngurinn í Skagafirði
Líf og starf 22. júlí 2024

Kóngurinn í Skagafirði

Jón Arnljótsson, sauðfjárbóndi á Ytri- Mælifellsá í Skagafirði, hefur lengi veri...

Safnar saman þekkingu um alþýðulækningar
Líf og starf 18. júlí 2024

Safnar saman þekkingu um alþýðulækningar

Skoða á hefðir og notkun óhefðbundinna lækninga á Íslandi í norrænni rannsókn. A...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 18. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...