Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Guðni Ágústsson kom skagfirskum sveiflukóngi rækilega á óvart
Mynd / Árni Gunnarsson
Líf og starf 4. janúar 2022

Guðni Ágústsson kom skagfirskum sveiflukóngi rækilega á óvart

Höfundur: GRJ - HKR

Geirmundur Valtýsson hefur sungið fyrir þjóðina í 65 ár og þar af með hljómsveit Geirmundar Valtýssonar í 50 ár, eða hálfa öld. Í tengslum við ritun bókar sinnar, Guðni á ferð og flugi, heimsótti Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, Geirmund í sumar á Geirmundarstaði þar sem hann rekur bú. Þar áttu þeir hressilegt spjall líkt og lesa má í bók Guðna.

Í máli Geirmundar kom fram að hann vildi eignast hryssu undan stóðhestinum Glaumi sem áður var í hans eigu. Nú ætti hann enga meri undan Glaumi. Geirmundur taldi mikilvægt að Glaumsgenin kæmu aftur heim. Guðna þótti við hæfi að Skagfirðingar myndu heiðra söngvaskáldið sitt. Þegar hann hélt sæll og saddur frá Geirmundarstöðum hét hann því að fá héraðsmenn í lið með sér og gefa Geirmundi hryssu undan Glaumi.

Kom sveiflukónginum rækilega á óvart

Guðni sætti lagi í útgáfuhófi sem hann hélt í Kakalaskála í Skagafirði vegna útgáfu nýju bókarinnar. Hann fékk sveiflukónginn til að taka nokkur lög á nikkuna, en kom honum síðan rækilega á óvart þegar þeir feðgar, Bjarni Maronsson og Kolbeinn sonur hans, leiddu hryssuna Sóleyju frá Búðardal inn á gólfið í Kakalaskála, en hryssan er undan áðurnefndum Glaumi. Með gjöfinni vildu vinir Geirmundar þakka sveiflukónginum fyrir að hafa haldið uppi fjöri hjá þjóðinni með spili og söng öll þessi ár.

Ferðalag Guðna Ágústssonar um sveitir landsins við að kynna  nýja bók sína, kveikti hugmynd að merkilegri uppákomu í Kakalaskála. 

Í ávarpi sínu þakkaði Guðni sérstaklega Mínervu Björnsdóttur, eiginkonu Geirmundar, fyrir að hafa gefið þjóðinni svo stóran hlut í Geirmundi enda væri hann flestar helgar af bæ þar sem hann þeyttist um og skemmti landanum. Nefndi Guðni einnig í ávarpinu að Geirmundur hefði með blíðum söng sínum leitt varir að vörum og vanga að vanga hjá hinum ástföngnu, og þúsundir hjónabanda hefðu orðið til undir seiðandi tónlist söngvaskáldsins.

Gleði og glaumur glumdu í Kakalaskálanum og vísur flugu óspart af vörum gesta. Ein varð þó til daginn áður er séra Hjálmar Jónsson lagði niður störf við að elta golfkúlu á Spáni. Hann orti þetta þakklætisljóð til Geirmundar sem Guðni flutti í Kakalaskála:

Hann þreytist ei böll á að bruna,

bestur með harmonikkuna,

og hefur með drift

síðpilsum svipt

lengur en elstu menn muna.

Við hrífumst af hljómþýðum dyni

frá heiðruðum félaga og vini.

Hún er glæst, þessi höll.

Hér gleðjumst við öll

með Geirmundi Valtýssyni.

 

Það fer ekki á milli mála

að mæti hver einasta sála

því Guðni og Geiri

og gæðingar fleiri

nú skemmta í Kakalaskála.

Magnús Ólafsson frá Sveinsstöðum í Húnaþingi flutti svo Geirmundi svohljóðandi kveðju: 

Ungur steigstu upp á svið.

Urðu dansar fleiri.

Ástir kvikna ólgum við,

enda rómó Geiri.

Ávallt fjörið er við völd,

atlot ná að beði.

Hartnær muntu í heila öld

halda uppi gleði.

 

Unaðsstundir þökkum þér,

því af Glaumsins kyni,

gæðahryssu gefum vér

Geira Valtýssyni.

 

Geirmundur var mjög glaður með gjöfina og aðspurður sagði hann nú á dögunum að Sóley yndi hag sínum vel á Geirmundarstöðum en þar reka þau hjónin bú og halda um hundrað ær og nokkur hross. Magnús Eiríksson tónlistarmaður sagði í frægu lagi sínu að sérhver vegur að heiman væri vegurinn heim. Ljóst er því að ættbogi Glaums er kominn aftur á Geirmundarstaði.


Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...