Gulrótabændurnir í Auðsholti reikna með 200 tonna uppskeru
Frá 1997 hafa hjónin Vignir Jónsson og Ásdís Bjarnadóttir í Auðsholti ræktað gulrætur á bökkum Hvítár, rétt hjá Flúðum í Hrunamannahreppi. Fyrst meðfram kúabúskap, en eftir að dætur þeirra og makar þeirra tóku við honum árið 2012 hafa þau einbeitt sér að ræktuninni að mestu. Þau framleiða um 200 tonn af gulrótum, sem telst talsvert fyrir ofan meðal gulrótarræktandann.
Elsti akurinn er hitaður með heitu vatni úr borholu við bæinn. „Við notum það land reyndar bæði fyrir kartöflur og gulrætur,“ segir Ásdís þegar blaðamaður hittir þau hjón á akrinum með fullt kar af nýuppteknum fallegum gulrótum. „Við byrjuðum fyrir löngu síðan að rækta kartöflur – öruggleg nálægt 40 árum. Þær fyrstu eru tilbúnar í kringum mánaðamótin júní-júlí og þá sendum við fyrstu sendingarnar af þeim frá okkur. Svo upp úr miðjum ágúst seljum við fyrstu gulræturnar,“ bætir hún við.
Ágúst gerði gæfumuninn
Vignir segir að þetta land sé alltaf talsvert á undan þeim görðum sem ekki séu upphitaðir og það komi sér vel, því þegar búið er að taka þar upp þá séu hin tilbúin. „Við setjum dúka á alla akra til að auka hitann í jarðveginum. Ef við hefðum ekki gert það núna, hefði engin uppskera orðið. Þannig var tíðin einfaldlega í sumar, að það kólnaði gjarnan svo mikið á næturnar og hitinn til dæmis í júlí var ekkert sérstakur. En vegna dúkanna hélst góður raki og þegar sólin fór að skína náðist mjög góður hiti undir þeim,“ segir Vignir.
„Ágúst hins vegar gerði gæfumuninn hér hjá okkur og reyndist vera toppmánuður fyrir okkur,“ segir Ásdís.
Ásdís með fullt kar af nýuppteknum gulrótum, sem settar eru beint í vatn til að ekki festist á þeim moldin.
Hreinar og fínar gulrætur
Upptaka og pökkun stóð sem hæst í Auðsholti þegar blaðamaður var þar á ferð. Hjónin voru úti á akri, en uppi í geymslu var unnið af krafti við skolun, snyrtingu og pökkun – meðal annarra dóttir þeirra og sonur – í nýrri aðstöðu sem hefur gjörbylt allri vinnslu og auðveldað. „Við leggjum áherslu á að gulræturnar séu hreinar og fínar í pakkningunum og því tökum við þær upp og setjum beint í vatn. Þannig festist moldin ekki á þeim.
Við vélvæddum pökkunaraðstöðuna í fyrra og með því lengjum við lífdaga okkar,“ segir Ásdís og brosir. „Nú markaðssetjum við gulræturnar sem Hreppagulrætur, en áður fyrr var allt unnið í höndum og þá vorum við með vörumerkið Flúðagulrætur. Við eigum það reyndar enn en notum það fyrir þær gulrætur sem er handpakkað,“ segir Vignir.
Vignir á fallegum gulrótarakri í Auðsholti.
Hætta eða deyja
Sem fyrr segir vonast þau til að fá um 200 tonn af gulrótum úr sínum görðum og það telst vera meira en meðal gulrótabóndinn ræktar. Þau eru fremur ósátt við þá þróun sem hefur orðið varðandi fjölda gulrótabænda, en þeim hefur farið fækkandi á undanförnum árum. „Það hefur þróast þannig að bændunum fækkar og þeir sem fyrir eru hafa frekar verið að stækka við sig,“ segir Ásdís. „Það er eins með þessa tegund ræktunar og virðist vera víðast hvar annars staðar; nýliðunin er erfið. Það virðist ekki vera mikill áhugi á að taka við svona ræktun. Þeir sem fyrir eru virðast smám saman annaðhvort hætta eða deyja,“ bætir Vignir við.
Vignir bendir á að það þurfi ekki að vera óyfirstíganleg fjárhagsleg hindrun að taka við garðyrkjustöð sem hefur verið í góðum rekstri. „Það getur skipt sköpum að koma sér vel við gamla bóndann sem þú vilt kaupa af,“ segir hann. Þau segja bæði hins vegar að það sé nánast ómögulegt fyrir fólk sem er á byrjunarreit að taka við slíkum rekstri. „Það er auðvitað mikil synd því það eru svo miklir möguleikar í greininni. Sjáðu til dæmis í gulrótunum, það er miklu meiri sala í gulrótum núna en var hér áður fyrr. Almenn neysla á gulrótum hefur aukist talsvert og við íslensku framleiðendurnir njótum góðs af því,“ segir Ásdís.
Lífrænir vaxtarsprotar
Þótt lítil sem engin nýliðun hafi átt sér stað í hefðbundinni gulrótaræktun að undanförnu má benda á að innan lífræna ræktunargeirans hafa tveir vaxtarsprotar í slíkri ræktun litið dagsins ljós á undanförnum misserum. Tvær ungar konur eru þar í forsvari fyrir tvær garðyrkjustöðvar; ein að Ósi í Hörgársveit og hin í Breiðargerði í Skagafirði. Þær skynjuðu að tækifæri væru í greininni og fóru leið aðlögunarstyrkja að lífrænum framleiðsluháttum.
Þau Vignir og Ásdís segja að þessir vaxtarsprotar séu vafalaust angi af þessari sömu heilsubylgju og þau hafa notið góðs af og tengist betri meðvitund fólks um neyslu á hollustuvörum.