Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Hefur innflutning á klæðilegum norskum vinnufatnaði
Líf og starf 17. apríl 2019

Hefur innflutning á klæðilegum norskum vinnufatnaði

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Eftir að hafa lesið grein um norska vinnufatnaðinn frá fyrirtækinu Traktorpikene í Bændablaðinu sem hugsað er fyrir konur, ung­menni og börn ákvað Anna Kr. Ásmundsdóttir í Stóru-Mástungu í Skeiða- og Gnúpverjahreppi að hafa samband við fyrirtækið og hefja innflutning á vörunum. Lítur Anna á verkefnið sem eina leið að jákvæðari ímynd fyrir íslenskan landbúnað. 
 
„Ég er ein af mörgum bændum sem vilja gjarnan að ímynd bændastéttarinnar verði jákvæðari, hvort heldur er af bændunum sjálfum eða búum þeirra. Það að vera snyrtilegur og í fallegum fatnaði er ein leiðin.
 
Við sem bændur vinnum svo sem oft í skítugu umhverfi en þá er maður líka klæddur til þeirra verka en það er eins og fjölmiðlar, aðrir en Bændablaðið, vilji allra helst draga þá mynd upp af okkur. Oft erum við líka að vinna þrifaleg störf og þá er maður klæddur til þeirra starfa og við viljum að sú mynd verði ímynd okkar sem fagstéttar og að það sé á hreinu að við erum stolt af störfum okkar og búum. Eitt af því sem við bændur þurfum að taka okkur verulega á, er að vinna að jákvæðri ímynd bændastéttarinnar og koma því vel og vandlega á framfæri að bændur eru ekki luralegir, sóðalegir, illa til fara og ganga illa um landareignir sínar. Oftar en ekki er einmitt þessi mynd dregin upp af okkur bændum í fjölmiðlum, kvikmyndum og þáttaröðum og má þar til að mynda nefna afar vinsæla íslenska þáttaröð sem sýnd var fyrir stuttu hér heima og verður síðan sýnd víða um heim. Þetta viðhorf þarf að breytast og við þurfum að gera átak í því að koma því á framfæri að bændur eru upp til hópa snyrtimenni, vel að sér og ákaflega stoltir af störfum sínum,“ útskýrir Anna.
 
Íslensk bóndakona selur vinnufatnað
 
Það var upp úr grein í Bændablaðinu og vegna leitar að vinnufatnaði sem hugmynd Önnu kviknaði að hafa samband við norska fyrirtækið og hefja innflutning sjálf. 
 
„Fyrir nokkrum árum sá ég grein í Bændablaðinu um systur í Noregi sem væru farnar að hanna og framleiða vinnufatnað fyrir konur sem stunda alls konar útistörf. Nákvæmlega um þær mundir hafði ég farið á stúfana, einu sinni sem oftar, til að finna mér vinnubuxur eða vinnugalla sem hentaði mér til að vinna í á mínum sveitabæ og sem væru líka þægilegir og fallegir. Þeir gallar og þær buxur sem ég skoðaði og mátaði voru eins og endranær, bara fyrir karla og hentuðu mér engan veginn og örugglega ekki mörgum konum. Þá kemur þessi blaðagrein í Bændablaðinu um Traktorpikene og mér fannst eins og þetta væri eitthvað sem mér væri ætlað að fylgja eftir,“ segir Anna og bætir við:
 
„Síðan dreif ég í því að skoða síðuna þeirra og skoðaði og skoðaði. Ég var komin langt með að panta mér buxur og galla en rann svo á rassinn með það því mér fannst ómögulegt að geta ekki mátað og skoðað. Hvað ef þetta passaði engan veginn? Og vesenið að þurfa að senda þetta aftur út og aftur heim og allt það. Svo ég setti þetta á bið sem varði ansi lengi. En alltaf var ég að tala um það við bónda minn að auðvitað ætti ég bara að athuga hvort ég gæti ekki fengið umboð fyrir þennan fatnað hér á Íslandi svo konur gætu mátað og prófað því það væru örugglega fleiri konur en ég sem fyndist betra að máta og skoða áður en þær versluðu sér vinnufatnað. Ég hafði svo loksins samband við þær systur í gegnum netpóst snemma síðastliðið haust og spurði þær hvernig þeim litist á að selja fatnaðinn í gegnum bóndakonu á Íslandi. Þær tóku mjög vel í það og við fórum strax að skoða hvernig við ættum að koma þessu á koppinn.“
 
Búið að handsala samninginn við Traktorpikene á landbúnaðar­sýningunni Agroteknikk í Lillestrøm um samvinnu við íslensku bóndakonuna Önnu Ásmundsdóttur, frá vinstri: Eivind, eiginmaður Thrine, Anna, Thrine og Ine.
 
Kvenlegur fatnaður úr gæðahráefni
 
Anna hóf því samstarf við Traktorpikene og heitir fyrirtæki hennar Valkyrjurnar þrjár en hún fékk nokkrar góðar vinkonur sínar til að aðstoða sig við nafngiftina. 
 
„Stuttu eftir að ég og systurnar norsku vorum farnar að tala saman og finna flöt á samstarfinu sá ég að þær yrðu á landbúnaðarsýningunni Agroteknikk í Lillehammer og ég ákvað bara einn, tveir og þrír að skella mér á þessa sýningu og ganga frá því að ég yrði þeirra umboðsmaður hér á Íslandi. Ég fékk norsktalandi vinkonu til að koma með mér til halds og trausts. Þær systur vissu ekki af því að ég ætlaði að koma og það var mjög skemmtilegt augnablik þegar ég kynnti mig og þær uppgötvuðu að ég væri komin sérstaklega á þessa landbúnaðarsýningu til að hitta þær. Þarna handsöluðum við samninginn og fórum yfir hvernig við myndum hátta sölu hér heima,“ útskýrir Anna og segir jafnframt:
 
„Fatnaðurinn hentar konum sem starfa við landbúnaðarstörf, dýralækningar, lagerstörf, vöruflutninga, rafvirkjun, smíðar, pípulagnir, í leikskóla og svo mætti lengi telja. Einnig er fatnaðurinn frábær við garðvinnuna, skógræktina o.s.frv. Hægt væri að telja endalausa möguleika upp en fyrst og fremst snýst hönnunin um það að konur geti keypt sér fatnað sem hentar þeirra vexti og er kvenlegur, fallegur og úr gæðahráefni. Ég hef alltaf verið ákveðin í að halda í persónuleika þeirra systra og hafa söluna á sömu nótum og þær eru að gera, það er að hafa þetta persónulegt og í gegnum kynningar. Til að byrja með mun ég halda kynningar heima á bæjum, í fyrirtækjum og á ráðstefnum og fundum, sem myndi henta tilefninu. Eins mun ég hafa opið hér heima hjá mér þannig að konur geti komið hér við þegar hentar og ég er heima. Salan hér á Íslandi mun fara í gegnum Valkyrjurnar þrjár, það er ef konur til dæmis vilja panta fatnað sem þær sjá á pöntunarsíðu Traktorpikene.no þá munu þær panta í gegnum Valkyrjurnar þrjár og ég mun sjá um að panta fyrir þær og koma til þeirra vörunum. Þær myndu annaðhvort senda mér netpóst á valkyrjurnar3@gmail.com eða hafa samband í gegnum Facebook-síðuna okkar sem heitir Valkyrjurnar þrjár. Ég er einnig að opna heimasíðu sem heitir www.valkyrjurnar.is og þar verða settar inn myndir og tilboð og alls konar upplýsingar. En allra helst vil ég koma til kvennanna og kynna og sýna fatnaðinn og ræða beint við konurnar. Tilvalið fyrir hvers konar félagsskap kvenna, til dæmis saumaklúbba, kvenfélög, iðnfélög, garðyrkjufélög, starfsmannafélög og svo framvegis.“

Skylt efni: vinnufatnaður

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...

Vættafundur á Eyjabökkum
Líf og starf 10. júlí 2024

Vættafundur á Eyjabökkum

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Oddbjörgu Sigfúsdóttur.

Sumarkveðja
Líf og starf 10. júlí 2024

Sumarkveðja

Nú þegar lífið kviknar með sumrinu og golan leikur við kinn, skulum við gleðjast...

Himbrimi
Líf og starf 9. júlí 2024

Himbrimi

Himbrimi er nokkuð stór vatnafugl og er einn af einkennisfuglum íslenskra heiðav...

Sumarsveiflan 2024
Líf og starf 8. júlí 2024

Sumarsveiflan 2024

Áherslur tískunnar fara nokkuð vítt og breitt þetta árið en nú þegar er farið að...

Dugur og elja ofar öllu
Líf og starf 8. júlí 2024

Dugur og elja ofar öllu

Eitt þeirra mætu kvenfélaga sem hér á landi sitja er Kvenfélag Hringsins sem hef...