Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Uppskera á grænkáli.
Uppskera á grænkáli.
Mynd / smh
Líf og starf 1. september 2023

Í mörg horn að líta hjá garðyrkjubændum

Höfundur: Þórdís Anna Gylfadóttir

Málefni garðyrkjubænda eru fjölmörg og í mörg horn að líta. Axel Sæland, formaður garðyrkjubænda, fór um víðan völl í samtali við Bændablaðið um starfsemi og áherslur félagsins.

Nú í lok ágúst munu formenn og framkvæmdastjórar norrænu ylræktarsambandanna heimsækja garðyrkjubændur hérlendis.

Axel Sæland, formaður garðyrkju­bænda, segir að íslenskt grænmeti sé vinsæl vara hjá landsmönnum, vörurnar seljast vel í búðum landsins og neytendur vilji íslenska vöru.

„Garðyrkjubændur í ylrækt eiga í góðu samstarfi við kollega sína á Norðurlöndunum þar sem við hittumst árlega, í hverju landi fyrir sig, og í ár erum við í hlutverki gestgjafans. Helsta umræðuefni okkar verður að fræðast um hverslags samninga stjórnvöld hafa gert við greinina, hvaða ívilnanir eru í gangi og hvað er gert til að vernda innlenda framleiðslu í hverju landi fyrir sig.“ Axel segir fundina mikilvæga garðyrkjubændum til þess að miðla þekkingu manna á milli og að halda góðu samstarfi við garðyrkjubændur á Norðurlöndunum.

Íslenskt grænmeti vinsæl vara

Axel segir að íslenskt grænmeti sé vinsæl vara hjá landsmönnum, vörurnar seljast vel í búðum landsins og neytendur vilji íslenska vöru. „Það er meiri eftirspurn heldur en framboð eftir íslensku grænmeti hérlendis og vonir standa til að geta annað eftirspurn markaðarins í framtíðinni. Við erum nálægt því að fullnægja eftirspurn eftir ákveðnum tegundum, t.d. gúrku og rófum og að mestu leyti eftirspurn eftir salati hérlendis. Töluvert vantar þó upp á til að anna eftirspurn eftir papriku, gulrótum, tómötum og jarðarberjum.“

Talið berst að stuðningi ríkisins við garðyrkjubændur en þau málefni hafa mikið verið rædd að undanförnu nú þegar seinni endurskoðun á búvörusamningum stendur yfir. Axel telur núverandi samninga garðyrkjubænda við ríkið ekki til þess fallna að hvetja til nýliðunar í greininni né til þess að auka framleiðslu. „Það hafa fáir nýliðar komið inn í greinina á síðustu árum, sem er miður því við viljum gera betur og við viljum geta annað eftirspurn markaðarins sem er svo sannarlega til staðar. Til að fólk sjái tækifæri í því að fara út í þessa starfsemi þá þarf að vera meiri fyrirsjáanleiki í samningum við ríkið, en miðað við núverandi kerfi þá er hvatinn ekki til staðar.”

Núverandi fyrirkomulag gengur ekki upp

Núverandi fyrirkomulag felur í sér að stuðningur ríkisins deilist jafnt á milli allra starfandi garðyrkjubænda. Ef bætt er við framleiðsluna eða nýir aðilar taka til starfa minnkar því hlutfallslega stuðningurinn við hvern og einn, sem gerir rekstrarskilyrði erfiðari. Það samræmist ekki þeim áherslum sem stjórnvöld hafa talað fyrir, að auka innlenda grænmetisframleiðslu um allt að fjórðung. „Það skiptir okkur gríðarlega miklu máli að fá viðurkenningu stjórnvalda á því að núverandi fyrirkomulag gengur ekki upp. Garðyrkjubændur hafa óskað eftir því að stuðningurinn verði í formi fastrar prósentu eða fastrar greiðslu á hvern hektara.“

Fyrri endurskoðun búvörusamninganna fór fram árið 2020 og þá var stuðningur aukinn um 200 milljónir. Atvinnugreinin svaraði því strax með byggingu á 13 þúsund fermetrum af gróðurhúsum og aukinni framleiðslu. Núverandi samningar gilda til ársins 2026, eftir það verður samið upp á nýtt.

Kolefnisspor grænmetis reiknað

Þær breytingar sem eiga sér stað í heiminum í dag með yfirvofandi loftslagsvá og aukinni áherslu á umhverfissjónarmið er enn mikilvægara að framleiðendur skoði hvað þeir geti gert til að minnka kolefnisspor sitt og hvernig hægt sé að draga úr losun CO2. Í því samhengi greinir Axel frá sameiginlegu verkefni garðyrkjubænda og Matís þar sem unnið er að því að reikna nákvæmlega út kolefnisspor ræktunar á íslensku grænmeti. „Þetta eru mikilvægar upplýsingar fyrir framtíðina, að ræktendur viti sitt kolefnispor.

Ég hef fulla trú á því að í framtíðinni munu reglugerðir kveða á um slíkar merkingar grænmetis.

Það sem stingur í stúf er að reglur kveða á um að ekki megi byrja að telja kolefnisspor fyrr en varan sé lent hérlendis, en við vitum að flutningur vörunnar er stór hluti kolefnissporsins – sem er talin í sínu heimalandi. Kolefnisspor erlendrar vöru telur því eingöngu frá Keflavíkurflugvelli til markaðar hérlendis.“ Axel leggur áherslu á að það verði að gera slíkt hið sama erlendis, það verði að finna út kolefnisspor grænmetis sem ræktað er erlendis, til að sjá samanburðinn.

Hann greinir einnig frá því að ræktendur erlendis eru hugsi yfir því hvers vegna verið sé að framleiða svo mikið fyrir erlendan markað, því það mun koma að því að þeir þurfi að bregðast við því hversu mikið kolefnisspor þeir séu að skilja eftir sig.

Umhverfisávinningur af aukinni framleiðslu innanlands

Axel telur það ljóst að það gæti falið í sér mikinn umhverfisávinning af aukinni framleiðslu innanlands.

Það sé hagstæðara að framleiða vöruna sem næst neytandanum og minnka þannig vöruflutninga sem skilji eftir sig stórt kolefnisspor auk þess að vinna gegn markmiðum um minni umhverfismengun.

Skylt efni: garðyrkjubændur

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 15. júlí 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn er eitthvað órór þessa dagana enda einhver stífla á verkefnum í krin...

Gerum okkur dagamun
Líf og starf 12. júlí 2024

Gerum okkur dagamun

Nú er ekki seinna vænna en að fara að leggja línurnar fyrir sumarið og með það t...

Bænder
Líf og starf 12. júlí 2024

Bænder

Sumir fara á Tinder. Aðrir hafa ekki tíma í slíkt vegna anna í búskapnum. Hér, k...

Vættafundur á Eyjabökkum
Líf og starf 10. júlí 2024

Vættafundur á Eyjabökkum

Orðsins list kemur að þessu sinni frá Oddbjörgu Sigfúsdóttur.

Sumarkveðja
Líf og starf 10. júlí 2024

Sumarkveðja

Nú þegar lífið kviknar með sumrinu og golan leikur við kinn, skulum við gleðjast...

Himbrimi
Líf og starf 9. júlí 2024

Himbrimi

Himbrimi er nokkuð stór vatnafugl og er einn af einkennisfuglum íslenskra heiðav...

Sumarsveiflan 2024
Líf og starf 8. júlí 2024

Sumarsveiflan 2024

Áherslur tískunnar fara nokkuð vítt og breitt þetta árið en nú þegar er farið að...

Dugur og elja ofar öllu
Líf og starf 8. júlí 2024

Dugur og elja ofar öllu

Eitt þeirra mætu kvenfélaga sem hér á landi sitja er Kvenfélag Hringsins sem hef...