Íslensku gefinn séns á Vestfjörðum
Gefum íslensku séns er heiti átaks sem hefur verið í gangi á Vestfjörðum í sumar.
Markmið verkefnisins er að stuðla að vitundarvakningu um íslensku sem annað mál og ná sem víðast um Vestfirði. Að því standa t.a.m. Háskólasetur Vestfjarða, Fræðslumiðstöð Vestfjarða, Súðavíkurhreppur og Ísafjarðarbær.
Aukinn sýnileiki íslenskunnar
Ólafur Guðsteinn Kristjánsson er umsjónarmaður íslenskunámskeiða Háskólaseturs Vestfjarða. Hann segir ýmsa viðburði tileinkaða átakinu hafa verið í sumar, auk námskeiða. „Allt til þess að auka tækifæri fólks, innflytjenda, til að æfa sig í notkun tungumálsins og vekja móðurmálshafa til vitundar, sem er meginmarkmiðið, um hvað máltileinkun felur í sér.
Aukaafurð er aukinn sýnileiki íslenskunnar í enskuvæddum heimi,“ segir Ólafur. „Einstaklega skemmtileg er hin svokallaða hraðíslenska sem lýtur sömu lögmálum og „speed-dating“ nema augnamiðið er ekki að ná sér í maka heldur æfa sig í íslensku.“
Sjónum hefur einnig verið beint að börnum sem hafa annað móðurmál en íslensku og var til dæmis í byrjun ágúst námskeið á Ísafirði tileinkað þeim, undir nafninu Tungumálatöfrar.
Gefum íslensku séns-átakið á Vestfjörðum stendur hið minnsta til miðs nóvember og er vonast til að Hólmavík stökkvi einnig á vagninn, að sögn Ólafs.