Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Líf og starf 28. ágúst 2019
Jákvætt og hvetjandi tímarit
Höfundur: Margrét Þóra Þórsdóttir
„Ég hef lagt upp með að Húsfreyjan sé fræðandi, skemmtileg og falleg. Hún er fyrir löngu orðin dýrmætur hlekkur í menningarsögu íslenskra kvenna og þar með þjóðarinnar og er verðugt flaggskip Kvenfélagasambands Íslands. Þegar lesendur fá tímaritið í hendur óska ég þess að þeim líði eins og þeir séu að taka utan af fjölskrúðugum blómvendi, að þeir finni margt fallegt, gróskulegt, hagnýtt og áhugavert að skoða þegar þeir byrja að fletta blaðinu,“ segir Kristín Linda Jónsdóttir, ritstjóri Húsfreyjunnar, tímarits Kvenfélagasambands Íslands. Kristín Linda hefur ritstýrt Húsfreyjunni, sem nú fagnar 70 ára afmæli sínu, í 15 ár.
Tímamótanna verður minnst með málþingi og hátíðahöldum á Hallveigarstöðum í Reykjavík 15. nóvember nk. og með ljóðasamkeppni sem nú stendur yfir og eru allir hvattir til þátttöku.
Afmælisbarnið ber sig vel
Kristín Linda segir afmælisbarnið bera sig vel á 70 ára afmælinu. Tímaritið eigi dyggan hóp áskrifenda sem skapi því festu og fjárhagslegt öryggi. Fjöldi kvenfélagskvenna hafi um tíðina lagt blaðinu lið, en Húsfreyjan hefur frá upphafi komið út sem vandað prentað tímarit fjórum sinnum á ári. Engar breytingar eru fyrirhugaðar þar á.
„Mitt sjónarmið þegar ég tók við ritstjórn fyrir bráðum 16 árum var að tímarit sem íslenskar kvenfélagskonur eiga og gefa út beini athyglinni að því sem vel er gert, er hjálplegt, jákvætt, hvetjandi og gefi þeim sem lesa hagnýtar, raunverulegar og magnaðar hugmyndir, m.a. um hvernig hægt er að stíga fram og láta til sín taka, láta drauma sína rætast, auka gleðina í lífi sínu og bæta heilsuna og hamingjuna.“ segir Kristín Linda.
Ekkert kennitöluflakk
Alls eru 154 kvenfélög starfandi í landinu í 17 héraðssamböndum og hafa þau staðið fyrir útgáfu á Húsfreyjunni óslitið í 70 ár, „ekkert kennitöluflakk á þeim bæ,“ segir Kristín Linda, en bæði er Húsfreyjan félagsrit kvenfélagskvenna sem starfa undir hatti Kvenfélagasambands Íslands og einnig aðgengilegt og nútímalegt tímarit fyrir alla. „Húsfreyjan, sem er flaggskip okkar kvenfélagskvenna, á gott og öruggt bakland,“ segir Kristín Linda.
Jákvætt og hvetjandi
Hún segir sérstöðu Húsfreyjunnar felast í útgáfunni, tímaritið sé gefið út af sjálfboðaliða- og líknarsamtökum, hún haldi utan um sögu og menningararf kvenna og undirtitillinn; Jákvæð og hvetjandi, sem Kristín Linda tók upp þegar hún hóf störf, eigi að beina kastljósinu að því sem er til fyrirmyndar og hvatningar fyrir aðra, „svo lesendur nytu þess að lesa jákvætt og hvetjandi tímarit sem gæfi þeim innblástur, hvatningu og gleði í sálina.“
Kristín Linda kveðst leitast við að ræða við konur sem ekki eru aðeins tilbúnar að segja sína lífssögu heldur líka miðla til annarra kvenna og lesenda því sem þær telja jákvætt og hvetjandi. „Ég reyni að velja viðmælendur úti um allt land, konur á mismunandi aldri sem eru að fást við hin og þessi störf og eða áhugamál og búa við mismunandi aðstæður. Það er áhugavert, fræðandi og veitir okkur víða sýn á tímann hverju sinni,“ segir hún og nefnir að í hópi viðmælenda sé framkvæmdastjóri þekkingarfyrirtækis, eigandi kaffihúss, fjallgönguleiðsögukona, sauðfjár- og kúabændur, biskup, stjórnendamarkþjálfi, leik-skólakennari, skógræktar-fræðingur, vöruhönnuður, lögregla, langstökkvari, kórstjóri, nuddari, háseti á bát, rithöfundur, listmálari, flugfreyja, ljósmóðir og landvörður svo eitthvað sé upp talið.
Margir njóta þess að fá fallegt tímarit í hendurnar
Kristín Linda segir Húsfreyjuna einnig vera dýrmæta leið til að varðveita og halda til haga á verðugum stað því sem gert hefur verið, vettvangur til að skrá niður söguna á aðgengilegan stað bæði nú og til framtíðar litið, verk kvenna, kvenfélagskvenna, kvenfélaga og Kvenfélagasambands Íslands. „Það er alltaf forvitnilegt að fletta upp í gömlum blöðum og sjá og skynja þann tíðaranda sem svifið hefur yfir vötnum á hverjum tíma,“ segir Kristín Linda og bætir við að vissulega hafi komið upp vangaveltur um hvort Húsfreyjan verði gerð aðgengileg á veraldarvefnum en í þeim efnum hafi ekkert verið ákveðið. „Það er enn þannig að fjöldi fólks nýtur þess enn að fá fallegt tímarit í hendurnar í stað þess að horfa á það á skjá. Grípa það með sér í sófann eða halla sér í rúminu og fletta blaðinu án þess að blátt ljós frá skjánum trufli. Það er líka notalegt að hafa Húsfreyjuna með í prjónakörfunni á meðan verið er að prjóna eftir uppskriftinni í stað þess að vera endalaust að opna símann og skoða,“ segir Kristín Linda.
Ljóðasamkeppni og málþing
Í tilefni af 70 ára afmæli Húsfreyjunnar er efnt til ljóðasamkeppni. Þegar hefur borist fjöldi ljóða en enn er hægt að senda inn ljóð til 20. september til Húsfreyjunnar á Hallveigarstaði merkt, Ljóðasamkeppni. Þemað er Kona og fyrir dómnefnd fer Silja Aðalsteinsdóttir ritstjóri. Verðlaun verða afhent á málþingi og afmælishófi þann 15. nóvember næstkomandi á Hallveigarstöðum. Á málþinginu verður farið yfir sögu Húsfreyjunnar, gildi hennar og framlag til menningar og sögu þjóðarinnar en einnig horft til framtíðar. Mikið verður um dýrðir og allir velkomnir.
Kristín Linda Jónsdóttir, ritstjóri Húsfreyjunnar, segir að blaðið eigi dyggan hóp lesenda. Tímaritið kemur út fjórum sinnum á ári.
Fyrrum banka- og blaðamaður, kúabóndi og nú sálfræðingur
Kristín Linda Jónsdóttir, ritstjóri Húsfreyjunnar, ólst upp í Fnjóskadal í Þingeyjarsveit. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri, starfaði í banka og var blaðamaður á Akureyri um 15 ára skeið. Þá venti hún sínu kvæði í kross og gerðist kúabóndi í Miðhvammi í Aðaldal.
Kristín Linda lét mjög til sín taka í félagsmálum kúabænda, sat í stjórn Landssambands kúabænda og var formaður Félags þingeyskra kúabænda. Hún starfaði af lífi og sál við kúabúskapinn í 15 ár, en eftir fertugt lauk hún námi í sálfræði frá Háskólanum á Akureyri og Háskóla Íslands og er nú klínískur sálfræðingur og starfar sjálfstætt hjá eigin fyrirtæki, Huglind ehf., í Reykjavík.
Nokkrir tímar hjá sálfræðingi geta skipt sköpum
„Ég er að aðstoða fólk í erfiðleikum lífsins, sem betur fer er það þannig að fólk leitar sér faglegrar hjálpar þegar það gengur í gegnum erfiðleika af ýmsu tagi, erfiðar breytingar, álag, áföll, streitu, sorg og missi, svo eitthvað sé nefnt, þó ekki sé um alvarlegan geðrænan vanda að ræða. Það er líka mikilvægt að leita sér aðstoðar þegar fólk finnur að það hefur minnkað sinn eigin þægindaramma vegna kvíða, depurðar, þunglyndis eða annars vanda af sálrænum toga sem skerðir lífsgæðin,“ segir Kristín Linda. „Nokkrir tímar hjá sálfræðingi geta oft skipt sköpum og fólk fer að blómstra á ný þrátt fyrir það sem upp kom.“
Eftirspurn eftir fræðslu
Kristín Linda segir líka mikla eftirspurn eftir fræðslu frá sálfræðingum. Hún taki að sér að miðla sálfræðilegri þekkingu til almennings á marga vegu á jákvæðan hagnýtan hátt enda hafi hún menntun og starfsréttindi sem kennari og hafi kennt sálfræði við framhaldsskóla og starfað sem blaðamaður og ritstjóri. Hún heldur fyrirlestra, vinnustofur og námskeið, m.a. hafa vikunámskeið sem efnt er til á Spáni í samvinnu við ferðaskrifstofuna Skotgöngu, verið afar vinsæl. Þá fer hópur héðan til vikudvalar á Spáni og er á hagnýtu alvöru sálfræðinámskeiði þar hjá Kristínu Lindu, stundar útivist og nýtur lífsins.