Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Kraftur komandi árs
Líf og starf 31. desember 2023

Kraftur komandi árs

Eins og siður er kastaði völva Bændablaðsins beinum sínum og opnaði fyrir flæði þess kynngikrafts sem árið 2024 ber í skauti sér. Hæst ber þar sú geta okkar til þess að framkalla þann veruleika sem við þráum innra með okkur. Munum að við höfum – með þeim hugsunum og mætti sem töfrað geta allt – alla burði til þess að veita óskum okkar kjölfestu.

Tunglstaðan í ársbyrjun er minnkandi og það er ekki fyrr en þann 25. janúar sem tunglið er í fullu veldi, svokallaður úlfamáni. Veitir það þeim sem vilja, nokkurn tíma til að líta í eigin barm og hefja vegferð sína í lok hins fyrsta mánaðar með þöglum styrk úlfsins. Leysum úr læðingi þá töfra sem okkur ber og löðum að okkur þá veröld sem við viljum.

Vatnsberi
Vatnsberi

Stöðugleiki í tilfinningamálum verður sérstaklega áberandi á nýju ári. Vatnsberinn hefur ekki alltaf tekið skynsamlegustu ákvarðanirnar er kemur að ástinni og getur verið heldur fljótfær sem kemur honum illa. Hann mun leita undir yfirborðið eins og vatnsmerkjum sæmir og með vorinu finna þá manneskju sem honum er ætlað. Vatnsberinn fær ótal tækifæri til að víkka út sjóndeildarhringinn yfir árið, þá helst innra með sér, enda kemur það ferðalag sífellt á óvart. Ferðalög utan landsteinanna eru jafn mikilvæg og ferðir innan hugans og ætti vatnsberinn að nýta hvert tækifæri til að opna nýjar víddir í líf sitt. Hann þarf þó að gæta þess að halda geðheilsunni í jafnvægi og vera duglegur að leita lausna ef vandamál koma upp. Vera óhræddur við að deila sinni líðan og hafa í huga að þannig gengur best að vinna úr hlutunum. Vatnsberinn er heillandi og heiðarlegt merki að upplagi og hugljúfi sinnar nánustu.

Fiskur
Fiskur

Fiskarnir munu upplifa ríka þörf fyrir aukna virðingu þetta árið en þeir hafa gjarnan átt það til að upplifa að þeir tali gegn tómum eyrum þótt þeim liggi mikið á hjarta. Óvægin sjálfsskoðun er mörgum nauðsynleg og rétt er að taka skrefið í þá áttina þó óþægileg sé. Fisknum er ráðlagt að hægja á sér og velta fyrir sér hvað skiptir hann raunverulega máli, hvað veitir honum hamingju og frelsi. Árið mun færa fisknum dýpri sjálfsþekkingu og
andlegan vöxt í bland við skemmtilegar áskoranir. Nokkur skref fyrir utan þægindarammann eru jákvæð og æskilegt er að setja sér markmið sem hægt er að ná. Fjölskyldan er fisknum mikilvæg og þarf hann að rækta sambönd sín þar líkt og annars staðar þó auðvelt sé að gleyma þeim sem standa manni næst. Fjárhagslegur stöðugleiki einkennir stjörnumerki fisksins fyrstu mánuði ársins og getur hann farið vaxandi með árinu ef vel er að gætt.

Hrútur
Hrútur

Árið 2024 verður ár fullt orku og frumkvæðis. Sköpunargáfan eykst til muna og því fullkomið tækifæri til að hefja ný verkefni, áhugamál eða jafnvel að hefja nám. Hrúturinn hefur tekið út tilfinningalegan þroska síðastliðið ár sem snýr að honum sjálfum og hvernig hann kýs að vinna með þau sambönd sem að honum standa. Aukið hugrekki veitir honum tækifæri til þess að styrkja tengslanetin og endurnýja kynni við gamla vini auk þess sem hrúturinn þarf að vera opnari fyrir samskiptum og takast á við þær áskoranir sem rísa, fyrr en síðar. Ferðalög eru í kortunum og ýmis verkefni, bæði andleg og annars eðlis þeim tengd. Ástin er á rólegu nótunum og ekki er gæfulegt að hrófla við neinu þar heldur njóta þess sem veitir gleði og öryggi. Áframhaldandi áhersla á heilsufarið er í forgrunni, þá helst með hreyfingu hvort sem er að takast á við andlega líðan eða líkamlega hreysti.

Hrútur
Naut

Árið mun bera með sér breytingar, bæði í starfi og einkalífi, en til þess að það gangi eftir þarf nautið að vera sveigjanlegt og opið fyrir nýjum tækifærum. Fjárhagslegur stöðugleiki verður lykillinn að árangri og fyrstu mánuði ársins mun nautinu bjóðast verkefni sem glæða sköpunargáfu þess og um leið auka flæði peninga. Nautið hefur staðið í flutningum og rúmruski síðastliðið ár og getur glatt sig við það að nú er tími rólegheita sem ætti að nýta til endurnýjunar á þeim hliðum sjálfs þess, hvort sem er líkama eða sálar. Rólegt hefur verið í ástarmálum nautsins, einhverjar glæður lifa í óreyndri ást og er sjálfsagt að blása í þær á næstu mánuðum. Eldri naut eru þó afar staðföst og ekki þekkt fyrir að vera með galgopahátt í ástarmálunum svo gæta þarf að seinagangur hamli ekki glæðum að verða að báli. Ferðalög eru í kortunum á fyrsta ársfjórðungi nýs árs þar sem nautið ætti að styrkja tengslanet sitt með tilliti til starfa í framtíðinni.

Tvíburi
Tvíburi

Félagsleg samskipti nýs árs verða í brennidepli hjá tvíburanum sem aldrei fyrr, auk þess sem öll tengsl munu blómstra. Ný og gömul sambönd þarf þó að rækta og leysa skyldi úr öllum þeim samskiptaörðugleikum sem hafa hlaðist upp síðastliðin misseri. Tvíburinn kann illa við deilumál, en slík óleyst geta lagst á taugakerfi þeirra með óskemmtilegum afleiðingum. Haldast andleg líðan og líkamleg þétt í hendur, ekki síst hjá tvíburanum sem stundum fer allan tilfinningarússíbanann á tveimur klukkutímum og því nauðsynlegt að þar séu öll mál á hreinu. Starfsvettvangurinn er jákvæður enda tvíburinn hamhleypa til verka ef svo ber undir, lausnamiðaður og vinsæll, en þessir eiginleikar gefa honum byr með ný tækifæri í sjónmáli. Að vera opinn fyrir nýjungum svo og skoðunum annarra getur opnað fyrir áhugaverða möguleika síðla sumars sem munu breyta lífssýn tvíburans sem um munar. Sveigjanleiki og listin að hlusta eru í forgrunni á árinu auk þess sem tvíburinn ætti að rækta innri ró.

Krabbi
Krabbi

Árið 2024 verður tilfinningalega sveiflukennt og þarf krabbinn að finna jafnvægi milli einkalífs og vinnu. Eitthvað verður um að sambönd gliðni og þá er að vinna í málunum og finna lausn sem hentar öllum. Þetta er þó ekki endilega neikvæð upplifun heldur gætu þarna opnast skemmtilegir möguleikar á opnara líferni. Heilsa og vellíðan verða mikilvæg og gæta þarf þess að að stoppa og anda djúpt við og við. Ástin er í kortunum og þá helst virðist sem máltækið „Lengi lifir í gömlum glæðum“ eigi vel við. Krabbar eiga að vera óhræddir við að stíga út fyrir þægindahringinn og njóta þess að upplifa allt sem þeir þrá, enda lífið stutt. Að vera opinskár um tilfinningar sínar og opinn fyrir nýjungum getur haft jákvæð áhrif á krabbann eftir áralangan doða. Persónulegur þroski kemur í kjölfarið sem mun opna ýmsar dyr og glæða áhuga á fjölbreyttum sviðum. Starfsframinn siglir lygnan sjó og ekki verður mikið um breytingar fyrr en mögulega rétt í árslok þegar óvæntar uppákomur rugga einhverjum bátum.

Ljón

Ljón

Heilindi í samskiptum þurfa að vera öðru framar á nýju ári og þarf ljónið að vinna með traust á margan hátt. Að sama skapi er rétt að hafa heiðarleika í forgrunni og efasemdir um jákvæðan ásetning annarra ætti að blása í burt nema að vel ígrunduðu máli. Peningar og viðskipti eru ljóninu afar hugleiknir í ár og það veltir sífellt fyrir sér nýjum leiðum til að auðgast. Um leið og það jafnvægi kemst á innri ró þess, ætti það að geta séð fyrir sér flæði auðæfa sem aukast eftir því sem andleg líðan er betri. Kærleiksrík og persónuleg tengsl munu blómstra að sama skapi þegar innri ró hefur komist á, en svo verður ekki fyrr en ljónið er heiðarlegt við sjálft sig og kemst að niðurstöðu um hvernig það vill raunverulega haga lífi sínu. Þá er hægt að taka næstu skref. Ástarmál kvenljóna verða í brennidepli um mitt sumar þegar sólin skín sem hæst, en að þeim laðast þá helst karlmenn undir meðalhæð. Karlljónið þarf enn um sinn að glíma við sjálft sig, en mun þó eiga smáævintýri hér og þar.

Virgo
Meyja

Þetta verður ár sjálfskoðunar og persónulegrar þróunar, en í byrjun árs ætti meyjan að setja á blað hugmyndir um hvernig næstu skref lífs hennar líta út. Hver eru markmiðin, hverju vill hún ná fram og að sama skapi auðga sjálfa sig. Ákveðin markmið í starfi og heilsu hafa verið meyjunni ofarlega í huga og nú er tími til að hefja þá vegferð enda mikill ávinningur í lok árs, ef haldið er af stað. Meðfram því þarf hún að æfa sig í að standa keik á sínu og láta ekki vaða yfir sig, og eykst sjálfstraust á árinu til muna ef vel er haldið á spöðunum í þessum efnum. Meyjunni er tamt að halda jafnvægi milli tómstunda og tíma til afslöppunar en þarf að gæta þess að rækta hugann að sama skapi, enda hættir henni til að vera svolítið löt. Sterkur og skýr hugur veitir byr undir segl markmiðanna og því þarf meyjan að gæta þess að rækta sjálfa sig með einlægni. Ástarmálin eru á rólegri nótunum en meyjan getur huggað sig við það að hún er eitt elskaðasta merkið og vinsælasta enda tilfinningaþroski hennar mikill og smitar gjarnan út frá sér.

Vog
Vog

Samskipti verða lykilatriði á árinu og mun vogin styrkja félagslegar og tilfinningalegar tengingar, ekki síst við sig sjálfa. Hún æfir sig í að fylgja innsæinu án afskipta annarra og með tengingu við innra sjálfið. Vogin þarf að æfa sig í að hafa hugrekki til þess að segja sína meiningu jafnframt því að gera sér grein fyrir hversu vel hún er metin og dáð. Sjálfstraust, dugur og þor eru hennar einkunnarorð á árinu. Jafnvægi er voginni mikilvægt og finnur hún
til óróa ef hennar innsta tengslanet er ekki sem skyldi, en sambönd styrkjast meðfram innri vexti og þroska. Ástarmálin eru hæst á baugi hjá voginni af öllum stjörnumerkjunum enda þögull þokki vogarinnar á tímum sterkari en eldglæringar sporðdrekans. Rétt er að taka fram að ástarsambönd sem myndast í ár eiga eftir að verða afar sterk, sérstaklega ef rólega er farið af stað. Heilt yfir er árið 2024 ár gæfu og gengis og má vogin trúa því að stjörnurnar séu henni hliðhollar yfir heilt.

Sporðdreki
Sporðdreki

Árið 2024 mun færa sporðdrekanum dýpri skilning á eigin tilfinningum og löngunum auk þess að upplifa ýmiss konar breytingar í persónulegu og atvinnulegu lífi sem krefjast aðlögunarhæfni. Næstu mánuðir snúast að miklu leyti um persónulegan vöxt þar sem gott er að fara yfir liðinn veg og velta fyrir sér hvað hægt sé að læra af reynslunni. Margir sporðdrekar setja markið hátt á árinu, bæði í starfi og einkalífi en þar sem sporðdrekinn er eitt tilfinningaríkasta merkið mun það án efa setja ástríðu sína í forgrunn, hvort sem það tengist starfi eða nánum samböndum. Eitthvað verður um að sporðdrekinn hefji listnám eða annað skapandi nám sem mun koma honum á óvart og velta af stað róttækum breytingum. Á árinu dýpka sum sambönd á meðan önnur geispa golunni, en lítið virðist vera um nokkurn milliveg þar. Sporðdrekinn fær skýrari sýn á hvað drífur hann áfram og nærir, en þarf að æfa sig í að vera hógvær og tillitssamur.

Bogmaður
Bogmaður

Árið sem er að ganga í garð verður ár ævintýra og uppgötvana. Ferðalög og menntun verða lykilþættir og þyrfti bogmaðurinn að gæta þess að vera opinn fyrir nýjum hugsanagangi. Mikil gleði og hamingja mun vera ríkjandi á árinu og ætti bogmaðurinn að njóta þess til hins ýtrasta. Ekki er úr vegi að dreifa gleðinni í kringum sig og hafa það bak við eyrað að gjarnan opnast dyr ef orka gleðinnar bankar upp á. Bogmaðurinn fær aukið sjálfstraust á árinu sem kætir hann mjög og verður til þess að hann ákveður að taka einhver skref sem ekki áður hafa verið stigin. Heimurinn opnast og nýjar upplifanir eru ráðandi. Tengslanetið þéttist og ástarsambönd að sama skapi verða innilegri og einlægari. Bogmaðurinn þarf þó að gæta þess að hafa taumhald á sinni nýfundnu tilfinningasprengju og hafa nokkra yfirsýn – að minnsta kosti yfir hvern mánuð í senn. Sérstaklega með tilliti til þess að á árinu verða þónokkrar breytingar sem hafa þarf auga með ef þær eiga að þróast í jákvæða átt.

Steingeit
Steingeit

Þetta er ár nýrra upphafa. Steingeitin fer út fyrir þægindarammann og tekur skref að þeim breytingum sem hún hefur lengi viljað taka. Ekki er víst að breytingarnar eigi sér stað fyrst um sinn, en þrautseigja og þrjóska eru einkennismerki steingeitarinnar svo og tiltölulega röksemdarleg hugsun sem getur fleytt henni áfram ef viljinn er mikill. Gæta þarf að heilsunni, bæði andlegri og líkamlegri, en steingeitinni er tamt að láta sjálfa sig dala. Árið mun, heilt yfir, vera uppbyggilegt á margan hátt og þónokkur langþráð markmið verða unnin. Fjármálin eru hátt á baugi og minna skyldi steingeitina á að sælla er að gefa en þiggja, en peningastreymið verður stöðugt í vasa hennar yfir næstu mánuði. Ástarmálin koma skemmtilega á óvart og verður mikið um óvæntar gjafir í heimi tilfinninganna. Bæði sem hægt er að þreifa á svo og þær sem koma róti á hjartað. Heilt yfir mun árið vera steingeitinni gott ef hún leyfir tilfinningunum að flæða óbeisluðum, en þó innan marka velsæmis. Hlusta af kostgæfni á aðra en leyfa hjartanu að ráða för.

Naðurvaldi
Naðurvaldi

Stjörnufræðingar víða um heim, bæði hjá NASA og eins og lesa má á vefsíðu Stjörnufræðivefsins, vilja meina að í raun séu stjörnumerkin þrettán. Kemur það til vegna stöðu möndluls jarðar, eða pólveltunnar sem tekur um 26.000 ár og því eru stjörnumerkin sem sjá má á himni ekki lengur á sama stað og fyrirþúsundum ára. Upphaflega höfðu Babýlóníumenn stjörnumerkin þrettán talsins og var naðurvaldi, stjörnumerki á miðbaug himins eitt þeirra. Myndgerð Naðurvalda er maður haldandi á höggormi, samanber grísku goðsögnina, guðinn og lækninn Asklepíos. Er naðurvaldi ríkjandi frá 30. nóvember til 17. desember, þekktur fyrir eigingirni og öfundsýki, en einnig er hamn litríkur og skemmtilegur persónuleiki auk þess að vera afar vel gáfum gæddur. Ef honum væri úthlutað varanlegt sæti meðal merkjanna myndu sæti hinna skarast sem svo svarar; Vatnsberi 16. febrúar til 12. mars, Fiskar 12. mars til 18. apríl, Hrútur 18. apríl til 14. maí, Naut 14. maí til 21. júní Tvíburi 21. júní til 20. júlí, Krabbi 20. júlí til 10. ágúst, Ljón 10. ágúst til 16. september, Meyja 16. september til 31. október, Vog 31. október til 23. nóvember, Sporðdreki 23. nóvember til 29. nóvember, Naðurvaldi 29. nóvember til 18. desember, Bogmaður 18. desember til 19. janúar, Steingeit 19. janúar til 16. febrúar. Eins og kemur hér glögglega fram eru tímatöl stjörnumerkjanna þrettán ekki jöfn að lengd, líkt og þau tólf sem nú ríkja – en í þeim virðist sólin ríkja um mánuð í senn.

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...