Kveðjuveisla landgræðslustjóra
Sveinn Runólfsson varð sjötugur í vor og lét því af störfum hjá Landgræðslunni 30. apríl, eftir 44 ára starf. Áður voru faðir hans og föðurbróðir forstöðumenn stofnunarinnar, allt frá því Sandgræðsla ríkisins tók til starfa 1947.
Sveinn hefur látið til sín taka sem landgræðslustjóri og oft hefur gustað um hans verk. Því hefur ekki alltaf verið lognmolla í samskiptunum við t.d. sauðfjárbændur. Víst er þó að á hans langa ferli hefur gríðarmikið áunnist í landgræðslu á Íslandi og þá oftar en ekki í góðri samvinnu við bændur.
Hér á síðunni eru myndir úr veislu sem þau hjón efndu til og var haldin í Sagnagarði. Þangað komu um 170 manns. Önnur veisla var svo haldin í Reykjavík í kjölfarið.
Í apríllok skipaði Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra, síðan arftaka Sveins í embætti landgræðslustjóra. Það er Árni Bragason, sem hefur frá árinu 2010 starfað sem forstjóri Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar, Nordgen í Svíþjóð. Áður en Árni tók við stöðu forstjóra Norrænu erfðaauðlindastofnunarinnar starfaði hann hjá verkfræðistofunni Eflu.
Veislugestir. Inga Jóna Kristinsdóttir, Guðjón Sigurðsson, Gerður S Elimarsdóttir og Kristján Ágústsson.