Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Bragi Halldórsson er einn fremsti krossgátuhöfundurinn hérlendis.
Bragi Halldórsson er einn fremsti krossgátuhöfundurinn hérlendis.
Mynd / Una Theodór Braga.
Líf og starf 9. ágúst 2023

Leikur að orðum

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Krossgátur þekkja allir. Upphaflega komnar af því sem kallast orðaferningur, samkvæmt aldagömlum heimildum sem má m.a. finna í íslenskum handritum.

Hér geta áhugasamir ráðið eina fyrstu krossgátu sem birtist í blöðum hérlendis. Mynd / timarit.is/ Lesbók Morgunblaðsins árið 1927.

Gengur lausnin út á að fylla ferning af orðum eftir gefnum vísbendingum en hafði eiginlegur skapari krossgátunnar, Arthur nokkur Wynne frá Bretlandi, kynnst þessum leik sem barn. Samdi hann fyrstu krossgátuna sem gefin var út þann 21. desember árið 1913. Eina fyrstu íslensku krossgátuna má finna í Morgunblaðinu frá árinu 1927, samheitakrossgátu svokallaða þar sem lausnarorðið er samheiti vísbendingarinnar. Innihélt þessi fyrsta íslenska gáta tvö dönsk orð og er því talið að fyrirmyndin hafi komið frá Danmörku.

Hérlendis líkt og annars staðar um heiminn hefur krossgátan haldið velli og vinsældum þó ekki séu þeir margir höfundarnir. Bragi Halldórsson er einn fárra krossgátuhöfunda hérlendis, enda mikill íslenskumaður og grúskari að eðlisfari. Auk krossgátugerðar heldur hann úti vefsíðu með íslensku almanaki með yfirliti yfir alla íslenska frí- og tyllidaga. Sjá má stuttar upplýsingar um hvern dag, en ef ýtt er á slóð hleðst inn frekari skýring. Geta áhugasamir hlaðið almanakinu inn í tölvuna hjá sér með leiðbeiningum á síðunni www. islensktalmanak.is

„Ég á upphaf ferilsins að þakka, ef svo má að orði komast, honum Gunnari Smára Egilssyni, einum stofnenda Fréttablaðsins.

Ég var viðloðandi Fréttablaðið frá upphafi og hafði samið þar næstum því 5.000 krossgátur þegar yfir lauk. Ég var hálffúll að hafa ekki náð heilum 5.000, þetta voru 4.800 og eitthvað. Blaðið hefði þurft að lifa í ár til viðbótar, þá hefði ég náð því,“ segir Bragi.

Þjálfun í knöppu formi

Um krossgátu Fréttablaðsins sá upphaflega eldri maður sem hafði ákveðið að sínum eftirlaunaárum skyldi varið í að setja saman krossgátur fyrir aðra. Hress og kátur karl sem límdi saman og handteiknaði gátur upp á gamla mátann. Krossgátuferill Braga hófst á þann hátt að hann tók við af þessum herramanni og setti sitt handbragð á verkið. Lit- og eða ljósmyndir tóku að birtast með gátunum og þótti Bragi laginn við verkið.

„Það er samt þannig með mig að ég hef alltaf verið vinnufær, en er hins vegar óvinnustaðafær. Get helst bara sinnt sérverkefnum og tek ekki við skipunum. Enda hefur það fylgt mér í lífinu að vera þrjóskur, kannski um of á köflum. Ég sem um mitt og þá við yfirmenn á borð við ritstjóra eða forstjóra. Á sama tíma set ég engin skilyrði heldur er jafnræðis gætt í samningum.

Þegar ég tók við krossgátugerðinni var það samkvæmt beiðni Gunnars Smára, sem var nú ekki ritstjóri, en bað mig um alls kyns furðulegustu hluti. Ég átti semsagt að setja upp myndskreytta krossgátu í knöppu formi – og er í raun ekki hægt að segja að ég hafi fengið vel borgað fyrir! Ég er nefnilega þannig gerður að ég legg svo mikið í útlit og nostur við verkið að stundum tekur það mun lengri tíma en þyrfti að gera. Svona fyrir utan það að ég er bæði les- og skrifblindur og afrita því og lími orðin. Útkoman yrði sjálfsagt stórhættuleg ef ég skrifaði staf,“ segir Bragi kíminn.

Auk Fréttablaðsins hefur Bragi víða stigið niður sem hönnuður krossgátna, til að mynda fyrir Fréttatímann á árunum 2010–2017. Vegna þess að ekki var pláss fyrir birtingu lausna í því blaði bauð Bragi upp á vefsíðuna www.krossgatur. gatur.net þar sem hægt var að finna bæði lausnirnar og krossgáturnar. Í dag hýsir því vefslóðin fjölda ókeypis gátna og lausna, sem fólk sækir sér enn til gamans þótt nýtt efni hafi ekki komið inn í nokkur ár.

Brennandi áhugi gegnum árin

Hérlendis eru þeir teljandi á fingrum annarrar handar sem í dag semja krossgátur og telur Bragi sig vera með þeim yngri. Er hann undir mikilli eftirspurn enda afar vinsæll í starfi.

„Ég hef nánast verið í fullri vinnu við krossgátugerð undanfarin tíu ár,“ segir hann. „Þetta er ástríða mín að mörgu leyti. Verst er að geta ekki ráðið gáturnar sjálfur vegna blindu minnar en ég get samið þær því ég lít á krossgátu sem uppsett stærðfræðidæmi ef hægt er að útskýra það þannig.

Ég hef alla tíð haft brennandi áhuga á íslensku, alinn upp hjá ömmu minni og afa með annan fótinn. Á því heimili var mikið af gestum, ljóðskáldum og öðrum áhugasömum um íslenska tungu auk þess sem afi starfaði að nokkru sem íslenskukennari. Stóð mig vel í skóla, ef ég nennti. Þarna kom þrjóskan inn í, fékk annaðhvort tíu eða núll, þá hreif íslenskan mig sérstaklega. Sjálfur hef ég skrifað og gefið út nokkrar bækur með miklum pælingum um texta og orð enda íslenskan svo merkilegt og ríkt mál auk óþrjótandi möguleika til þess að smíða nýyrði. Sem dæmi má nefna orðið tölvu sem ég tel einu mestu snilldina; þá „tölur og völva“. Í öðrum löndum hefur fólk í fleiri tilvikum en fáum frekar kosið að taka orðið computer og aðlaga það að sínu tungumáli. Svona er íslenskan skemmtileg,“ lýkur Bragi máli sínu glaðlega.

Bragi, sem var einn fyrstu vefhönnuða landsins, minnist í kjölfarið ársins 1984, þegar fyrsta MacIntosh-tölvan kom til Íslands, en hún var öll á íslensku. „Sá sem þýddi stýrikerfið – sú þýðing á orðum hafa nær öll fest í tungumálinu. Ástæða þess er að með tölvunni fylgdi pínulítið margmiðlunarforrit þar sem útskýrt var fyrir hvað ensku orðin stæðu og því auðvelt að yfirfæra það yfir á okkar ástkæra ylhýra. Reyndar, þótt orðin að vista (save) hafi fest og afrita (copy) hafi haldið velli hefur „klippa-líma“ (cut-paste) aldrei gert það,“ segir hann íhugull.

Áfram gakk

Bragi hefur alla tíð verið óþrjótandi brunnur pælinga þegar kemur að uppbyggingu orða og merkingu þeirra. Gaman er að heimsækja vefsíðu almanaksins, (islensktalmanak. wordpress.com) en þar má finna hugrenningar hans um jólasveinana þar sem hann hefur velt fyrir sér hvernig hægt sé, í stað þess að persónugera þá – kannast við heiti þeirra sem veðurbrigði eða annað.

Ef tekinn er sem dæmi Hurðaskellir, einnig þekktur undir nafninu Faldafeykir, má sjá að um ræðir einhvern eða eitthvað sem skellir hurðum, feykir upp pilsum og þar fram eftir götunum – og hver er líklegri til þess en vindurinn sjálfur?

Bragi glímir í dag við óútskýrðan sjúkdóm sem veldur því að hann heldur engu niðri nema rjómablandi og er því ekki samur og áður. Hann berst þó ótrauður áfram og ætlar að vinna bug á þessu ósýnilega meini enda ekki við öðru að búast af manni sem er vanur að bera höfuðið hátt undir byr þrjósku.

Besta gjöfin
Líf og starf 20. desember 2024

Besta gjöfin

Í jólabókaflóðinu sem nú stendur sem hæst kennir ýmissa grasa. Þar innan um stin...

Jólaföt á grænum nótum
Líf og starf 20. desember 2024

Jólaföt á grænum nótum

Vistvænt jóladress er eitthvað sem ætti að vera efst á listanum um þessar mundir...

Særður fram úr myrkviðum aldanna
Líf og starf 20. desember 2024

Særður fram úr myrkviðum aldanna

Íslenski jólakötturinn var næstum horfinn úr menningunni fyrir um hálfri öld þeg...

Á döfinni í desember
Líf og starf 20. desember 2024

Á döfinni í desember

Uppákomur og skemmtanir eru árvissir viðburðir um þetta leyti og ýmislegt áhugav...

Fórn vetrarsólstaða
Líf og starf 20. desember 2024

Fórn vetrarsólstaða

Víða um heim koma geitur fyrir í trúarbrögðum og eru heiðnar norrænar jólahefðir...

Uppselt þar til í janúar
Líf og starf 18. desember 2024

Uppselt þar til í janúar

Leikfélag Hveragerðis tók fyrir leikverkið vinsæla, Ávaxtakörfuna, nú í haust un...

Mannamót
Líf og starf 17. desember 2024

Mannamót

Bjarki Elvar Stefánsson sigraði á Íslandsmeistaramóti í Hornafjarðarmanna sem fó...

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga
Líf og starf 17. desember 2024

RÚV sýnir bridds aukinn áhuga

Sveit InfoCapital er deildarmeistari 2024 í Deildakeppninni sem var spiluð í Haf...