Matarlandslagið er veflægt og gagnvirkt Íslandskort frumframleiðenda matvæla
Síðustu tvö til þrjú árin hefur Matís unnið að því að búa til veflægan gagnagrunn um frumframleiðendur matvæla á Íslandi, sem birtist sem gagnvirkt Íslandskort undir heitinu Matarlandslagið.
Þróunarvinna er enn í gangi en markmiðið er að gagnagrunnurinn muni gefa möguleika á heildrænum upplýsingum um matvælaframleiðslu úr auðlindum lands og sjávar á Íslandi. Einnig er gert ráð fyrir að um nýjan markaðsvettvang verði að ræða fyrir bein viðskipti milli framleiðenda og neytenda þar sem allar upprunaupplýsingar afurðanna séu tryggðar.
Nýtist neytendum og frumframleiðendum
Rakel Halldórsdóttir er sérfræðingur hjá Matís og verkefnastjóri Matarlandslagsins. Hún segir að skráin yfir framleiðendurna sé í raun myndrænt vefkort sem muni nýtast neytendum, frumframleiðendum sjálfum, fyrirtækjum og stofnunum í viðskiptum við frumframleiðendur og ekki síst opinberum aðilum sem sinna stefnumótun tengdri matvælaframleiðslu á Íslandi.
„Frumgerð að gagnagrunninum var þróaður í takt við megináherslur í starfi og stefnu Matís eins og matvælaöryggi, lýðheilsu og verðmætasköpun í matvælaiðnaði, en þetta þrennt skapar jafnframt grunn fæðuöryggis Íslands og sjálfbærni skapar grundvöll velferðar og uppbyggingar til framtíðar.
Gagnagrunnurinn er hannaður til að stuðla á áhrifaríkan hátt að þessum áherslum en er enn ófullgerður. Skoða má þó verkefnið í núverandi mynd á vefslóðinni www.matarlandslagid.is (í Chrome-vafra). Í stuttu máli er um að ræða Íslandskort með staðsetningarpunktum allra frumframleiðenda og er um að ræða nokkra frumframleiðsluflokka sem hver hefur sinn einkennislit til dæmis nautgripir, sauðfé, hestar, alifuglar, matjurtir og afli. Það má smella á þá fyrir þrengra sjónarhorn og fyrir upplýsingasíðu viðkomandi frumframleiðanda,“ segir Rakel.
Þátttakendur á Bændamarkaðnum á Hofsósi.
Ábyggileg upplýsingagjöf
Rakel segir að það utanumhald fyrir upplýsingarnar um frumframleiðandann – og afurðir hans – séu í hans eigin höndum. „Þannig ætti það að vera tryggt að upplýsingarnar séu ávallt réttar þar sem frumframleiðandi hefur sjálfur sérstakan aðgang að eigin upplýsingasíðu (innskráningarflipi). Hann uppfærir hana sjálfur með texta og myndum og þeim upplýsingum sem hann kýs og hefur allan hag af því að upplýsingar séu góðar og uppfærðar.“
Stefnt er að því að vefsíðan muni jafnframt innihalda pöntunareyðublað fyrir hvern frumframleiðanda þar sem notandi síðunnar geti pantað afurðir beint frá framleiðanda. Sömuleiðis upplýsingar um hvaða félögum eða samtökum hann tilheyrir og hvaða þjónustu hann hefur upp á að bjóða – til dæmis skoðunarferðir, bændagisting, veitingaþjónusta, sala afurða á staðnum og hvaða afurðamörkuðum/viðburðum hann tekur þátt í. En stefnt er að því að markaðir/viðburðir um landið sem selja og kynna frumframleiðslu verði einnig með sérstakar merkingar á yfirlitskorti og upplýsingasíður sem skipuleggjendur slíkra viðburða sækja um og sem þeir uppfæra sjálfir. Þannig mun Matarlandslagið einnig gefa yfirlit yfir menningar-og matarviðburði um landið hverju sinni.“
Upplýsingarnar verði öðrum nýtanlegar
Stefnt er að því að hægt verði að draga upplýsingar út úr grunninum, sem kort eða sem valdar upplýsingar yfir í Excel-skjal; svo sem yfir þá frumframleiðendur sem bjóða upp á ákveðna þjónustu eða afurðir, eru staðsettir á ákveðnu svæði og svo framvegis. Gagnsemi slíks yfirlits- og upplýsingagrunns yfir alla frumframleiðslu á Íslandi, þar sem tryggt er að upplýsingar eru alltaf réttar og uppfærðar er óyggjandi og margþætt og mun gagnast öllum sviðum samfélagsins til aukinnar sjálfbærni og árangursríkrar framþróunar og mun meðal annars nýtast neytendum, ferðaþjónustuaðilum, frumframleiðendum og samfélögum þeirra og stjórnvöldum.
Frumframleiðsla forsenda fæðuöryggis
Rakel segir að frumframleiðsla úr fæðuauðlindum Íslands sé grunnur allra íslenskra matvæla og forsenda fæðuöryggis Íslands. „Frumframleiðsla er framleiðsla þar sem auðlindir eru nýttar frá fyrstu hendi, svo sem af bóndanum sem sjálfur ræktar landið eða elur dýr og útvegsmanninum sem veiðir afurðir sjávar. Yfirsýn yfir og þekking á þessari framleiðslu er lykill að upplýstri ákvarðanatöku varðandi aukna sjálfbærni og uppbyggingu í íslenskri matvælaframleiðslu í heild og enn fremur að fæðuöryggi á Íslandi. Mikilvægi aukinnar sjálfbærni í nýtingu fæðuauðlinda er brýnt forgangsmál á næstu árum og áratugum. Í Matvælastefnu Íslands til ársins 2030 er lögð rík áhersla á að auka sjálfbærni á öllum sviðum matvælaframleiðslu frá auðlind til neyslu.“
Hún segir að slíkt yfirlit, byggt á upplýsingum sem eru ávallt uppfærðar, myndi auðvelda stjórnvöldum á öllum stjórnsýslustigum að stíga markviss skref í átt að aukinni sjálfbærni. „Þá er yfirsýn og þekking frumframleiðendanna sjálfra lykill að framþróun, nýsköpun og atvinnutækifærum, með samtali og samvinnu frumframleiðsluaðila og frumframleiðslugreina. Slík skrá getur jafnframt greitt fyrir beinum viðskiptum neytenda við frumframleiðendur og þannig ýtt undir sjálfbær viðskipti og aukinn fjölbreytileika framboðs og nýsköpun.“
Upplýsingasíða frumframleiðandans á Laugarmýri.
Sjálfbærnimarkmið Íslands og Sameinuðu þjóðanna
Rakel nefnir hugtök eins og nýsköpun, sjálfbærni, verðmætasköpun og samkeppnishæfi sem hugtök sem íslensk matvælaframleiðsla þurfi að grundvallast á með auknu gagnsæi og aðgangi framleiðenda, neytenda og eftirlitsaðila að upplýsingum. Með því móti megi tryggja að framtíð landsins verði í takti við sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbær samfélög heims og velferð jarðarbúa.
„Mikilvægt er að framþróun Matarlandslagsins og fullgerð verði unnið í nánu samstarfi við hagaðila, ekki síst sambönd, samtök og félög frumframleiðenda á Íslandi. Gildi slíks samstarfs er ótvírætt með tilliti til þekkingar frumframleiðenda á fæðuauðlindum og frumframleiðslu um landið, en Matís býr yfir mikilli og dýrmætri reynslu af víðtæku samstarfi við þessa aðila um land allt.
Í framhaldi má sjá fyrir sér að til framtíðar verði árangursríkast að burðug regnhlífasamtök félaga muni annast umsjón Matarlandslagsins; svo sem regnhlífasamtök landafurða og sjávarafurða, og sinni hvort þeirra sínu sérsviði. Umsjónin myndi vera hönnuð til að fela í sér lágmarksaðgerðir, svo sem staðfestingu á skráningu nýrra frumframleiðenda og viðburða og almennt viðhald og uppfærslur hugbúnaðar, auk reglulegrar kynningar og markaðssetningar Matarlandslagsins til hagsbóta fyrir félagsaðila þessara samtaka,“ segir hún.
Dreifing frumframleiðenda yfir ákveðið svæði.
Næstu skref að tryggjanægt fjármagn
Næstu skref í vinnunni við framþróun verkefnisins segir Rakel að séu þau að tryggja fjármagn til áframhaldandi vinnu við gagnagrunninn, en tekjugrunnur Matís er að stórum hluta byggður á styrkjum úr innlendum og erlendum rannsóknasjóðum. „Þegar fjármagn hefur verið tryggt verður víðtæku samstarfi hagaðila komið formlega á og framþróun gagnagrunnsins hafin með fullri trú á verkefnið sem öfluga leið til framþróunar og uppbyggingar íslenskrar frumframleiðslu og þar með íslensks samfélags með sjálfbærni og framtíðarvelferð að leiðarljósi.“
Rakel Halldórsdóttir.