Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Ingibjörg Jónína Finnsdóttir og Magnús Örn Valsson fréttu af því að fyrri ábúendur á Bergsstöðum vildu hætta með sauðféð. Hann hafði því samband við bóndann að fyrra bragði og stakk upp á því að þau myndu taka við keflinu, sem gekk eftir og keyptu þau jörðina í lok árs 2019.
Ingibjörg Jónína Finnsdóttir og Magnús Örn Valsson fréttu af því að fyrri ábúendur á Bergsstöðum vildu hætta með sauðféð. Hann hafði því samband við bóndann að fyrra bragði og stakk upp á því að þau myndu taka við keflinu, sem gekk eftir og keyptu þau jörðina í lok árs 2019.
Mynd / ál
Viðtal 17. maí 2024

Áhugi og metnaður skipta máli

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Magnús Örn Valsson og Ingibjörg Jónína Finnsdóttir hafa stundað sauðfjárbúskap á Bergsstöðum síðan haustið 2019. Þau keyptu jörðina af óskyldu fólki og var hún aldrei auglýst, heldur hafði Magnús samband við fyrri ábúendur að eigin frumkvæði.

Magnús og Ingibjörg eru bæði úr Austur-Húnavatnssýslu og voru ekki með sérstakan hug á því að flytjast búferlum, enda stóð alltaf til að Magnús tæki við sauðfjárbúi foreldra sinna á Helgavatni í Vatnsdal. Magnús frétti síðan af því að þáverandi ábúendur á Bergsstöðum stefndu að því að minnka búið talsvert eða hætta og einbeita sér að öðrum störfum, en hann hafði kynnst þeim eftir að hafa rúið kindurnar þeirra nokkrum sinnum.

Magnús sló á þráðinn í maí 2019 og lýsti yfir áhuga sínum á að hann og Ingibjörg keyptu Bergsstaði og allt sem þeim fylgir.

„Hann hringdi eftir tvo daga til baka og sagðist alveg vera til í að skoða þetta,“ segir Magnús. Hann bætir við glettinn að tímasetning símtalsins hafi verið honum í vil, enda var það á miðjum sauðburði þegar bændur eru alveg bugaðir og vilja fegnir losna.

Ábúendaskiptin hröð

Í júní fóru Magnús og Ingibjörg að Bergsstöðum til að skoða aðstæður og setjast að samningaborðinu. Þar var þeim gefið upp verð sem þau gengu að og var því farið að skipuleggja ábúendaskiptin. Unga parið fór svo á Vatnsnesið um haustið til að taka þátt í smalamennskum og hjálpa til við val á ásetningsfé.

Formleg ábúendaskipti voru síðan 1. nóvember 2019 og fluttu fyrri ábúendur á Hvammstanga sem er í tuttugu kílómetra fjarlægð. Ungu bændurnir segja að það hafi ekki verið neitt yfirfærslutímabil, heldur hafi skiptin verið býsna hröð. Fyrri ábúendur séu hins vegar alltaf til staðar og samgangurinn enn mikill.

„Ég hringdi mikið fyrsta árið til að vita hvar hlutirnir væru og hvernig sumt virkaði. Svo hjálpaði hann mér af stað með samstæðuna, en ég hafði aldrei rúllað áður,“ segir Magnús.

Tilfinningin þegar þau fluttu hafi verið skrýtin, eins og þau orða það. Þetta hafi verið á laugardegi og allt gert í miklum flýti. Magnús segir að fyrri ábúendur hafi séð fram á mikla fyrirhöfn við að bera út frystikistuna sína úr kjallaranum, en þá brugðu þau á það ráð að gera með sér skipti þar sem unga parið átti nákvæmlega eins frystikistu. Þar með hafi þau ekki þurft að bera eina út og aðra inn.

Á Bergsstöðum á Vatnsnesi er 550 kinda sauðfjárbú. Aðstaðan er góð þar sem stutt er í beitarhagana og fjárhúsin vel útbúin.

Óveður á fyrstu vikunum

Nokkrum vikum eftir að þau fluttu reið óveður yfir landshlutann sem hafði í för með sér rafmagnsleysi og lokanir á vegum. Þar sem þau voru nýflutt áttu þau lítið til að bjarga sér og síðustu klukkutímarnir í tveggja sólarhringa rafmagnsleysi hafi verið kaldir.

„Það var skrýtið að vera tvö ein á nýjum stað,“ segir Ingibjörg. Hún bætir við að samfélagið sé mjög gott og margir sveitungar þeirra og íbúar á Hvammstanga sem þau þekktu ekki mikið hafi hugsað til þeirra og hringt til að athuga hvernig þau hefðu það. Haustið 2020 eignuðust þau sitt fyrsta barn og segir Ingibjörg það hafa verið sérstakt að vera með hvítvoðung í haustverkunum.

Þá kom næsta barn í apríl 2022, eða rétt fyrir sauðburð, sem hafi heldur ekki verið besta tímasetningin til barneigna, segir Ingibjörg í kímni. Nú sé þriðja barnið væntanlegt í lok maí.

Framfarir í afurðum hvetjandi

Á Bergsstöðum er fimm hundruð og fimmtíu kinda sauðfjárbú. Þau fjölguðu fénu síðasta haust og sjá þau næstum alltaf framfarir í afurðum, sem Magnús segir vera hvetjandi og sýna að þau séu að gera eitthvað rétt. Nú séu þau farin að þekkja hjörðina og gera sér grein fyrir eiginleikum mismunandi ættboga innan hennar sem geri þeim kleift að vanda ásetningsvalið betur.

„Svo er aðalatriðið í þessu að láta ekkert klikka í umhverfisáhrifunum ef maður getur – að gera eins vel við féð og mögulega hægt er,“ segir Magnús. Langtímaplanið sé að stækka fjárhúsin og fjölga kindunum upp í átta hundruð.

Þau segja aðstæður til sauðfjárbúskapar vera góðar þar sem þau eru á Vatnsnesinu. Féð gangi í fjallinu fyrir ofan bæinn á sumrin og þau þurfi ekki að reka það langt á afrétti.

Göngur séu frekar einfaldar og alltaf fáist nægt fólk í smalamennskur. Stærstur hluti hjarðarinnar skili sér þegar heimalandið er smalað og þurfi þau ekki að sækja nema örfáar kindur þegar réttað er í Hamarsrétt, sem er nokkra kílómetra sunnan við bæinn.

Sauðburður var nýbyrjaður þegar blaðamaður heimsótti Ingibjörgu og Magnús. Hér er gemlingur að kara lamb sem bar nokkrum mínútum áður.

Sjúkraliði og rúningsmaður

Ungu bændurnir starfa bæði utan bús en telja reksturinn samt sem áður vera í góðu jafnvægi. Ingibjörg vinnur sem sjúkraliði á sjúkrahúsinu á Hvammstanga, sem hún segir að miklu leyti vera þar sem hún hafi áhuga á starfinu og finnist gott að skipta um umhverfi. Þá séu þrír mánuðir á ári þar sem Magnús tekur að sér rúning fyrir aðra bændur, ásamt því að vera í girðingaverktöku á sumrin.

„Það er hægt að láta þetta damla ef við erum bæði alltaf heima – en ekkert meira. Búið rekur sig nokkurn veginn sjálft, en annað þarf maður eiginlega að sækja,“ segir Magnús. Þau keyptu til að mynda dráttarvél síðasta sumar sem þau hefðu ekki getað gert nema af því að þau eru að vinna meðfram búinu.

„Það væri alveg fínt að geta bara verið heima og dunda sér við að gera allt snyrtilegt, en það er kannski svolítið erfitt þegar maður vinnur mikið utan bús og er með tvö lítil börn,“ segir Magnús. Þá rífi vaxtastigið í og því veiti ekkert af smá innspýtingu. Þær tekjur sem komi frá gæðastýringunni og greiðslumarkinu dugi fyrir lánunum, en afborganirnar hafi tvöfaldast frá því þau keyptu.

Þeir sem vilja komast í búskap án fjölskyldutengsla þurfi að vera búnir að þéna mikið áður. „Svo verður fólk að hafa áhuga á þessu og vera með metnað, því reksturinn verður þungur ef afurðirnar fara að gefa eftir.“

Unga parið á tvö börn og er það þriðja á leiðinni. Þau útbjuggu barnastól á gjafavagninn til þess að ungviðið gæti tekið þátt í bústörfunum.

Hafa góða reynslu

Á Helgavatni, þar sem Magnús ólst upp, eru 350 kindur. Þar sem pabbi hans er sjómaður byrjaði Magnús snemma að taka mikinn þátt í búskapnum. Honum hafi verið treyst fyrir að taka sjálfstæðar ákvarðanir og bera ábyrgð frá unglingsaldri sem hafi gefið honum góðan grunn fyrir bústörfin á Bergsstöðum.

Ingibjörg ólst upp á Köldukinn 1 á Ásum þar sem foreldrar hennar voru með nokkrar forystuær og hross. Þá tók hún þátt í búskapnum á Helgavatni með Magnúsi eftir að þau tóku saman. Ingibjörg verður 32 ára í sumar og er Magnús 29 ára.

Fimm hlutir sem Ingibjörg og Magnús geta ekki verið án

1. Dráttarvélin:

„Maður getur lítið verið án traktorsins.“

2. Eldavélin:

„Eldavélin bilaði einu sinni í byrjun sauðburðar. Það var hræðilegt.“

3. Hestakerran:

„Hún er mikið notuð í annað en hestaflutninga.“

4. Sexhjólið:

„Það er eiginlega ekkert hægt að vera án þess.“

5. Kjarnfóður:

„Nágrannarnir kalla Magnús fóðurbætiskónginn.“

Skylt efni: Bergsstaðir

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára
Viðtal 26. apríl 2022

Enn þá jafn gaman og þegar ég var sextán ára

Baldur Sæmundsson, áfanga­stjóri í Menntaskólanum í Kópa­vogi, þar sem Hótel- og...

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein
Viðtal 8. apríl 2022

Mikilvægt að mennta fólk fyrir stækkandi atvinnugrein

Garðyrkjunám sem starfrækt er á Reykjum í Ölfusi mun tilheyra Fjölbrautaskóla Su...

Fann mína ástríðu í þessu starfi
Viðtal 8. desember 2021

Fann mína ástríðu í þessu starfi

„Ég er þakklátur fyrir að hafa kynnst öllu þessu fólki í sveitunum, notið gestri...

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“
Viðtal 8. nóvember 2021

„Það eiga allir að gera erfðaskrá“

„Erfðaskrá er til þess fallin að leysa úr mörgum málum sem annars tæki tíma og o...

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“
Viðtal 13. júní 2021

„Fyrst og fremst er það hljómurinn sem heillar mig“

Talið er að harmonikkur hafi fyrst komið til Íslands með frönskum sjómönnum sem ...

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur
Viðtal 19. mars 2021

Ný Oddakirkja verður byggð og Sæmundarstofa verður menningar- og fræðasetur

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum
Viðtal 12. febrúar 2021

Landbúnaður á Íslandi stendur frammi fyrir mörgum og ólíkum áskorunum

Vigdís Häsler lögfræðingur hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Bændasamtaka Ísla...

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt
Viðtal 12. janúar 2021

Þjónusta verði snögg, fagleg og aðgengileg og eftirlitið einfalt, málefnaleg og skilvirkt