Lóan
Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er hennar aðal komutími. Heiðlóur hafa lengi verið einn helsti vorboðinn í hugum landsmanna þótt lóan sé reyndar ekki fyrsti farfuglinn sem kemur á vorin. Heiðlóa er meðalstór vaðfugl sem verpir í mólendi, bæði á heiðum og láglendi. Hún er að öllu leyti farfugl og færir sig til Vestur-Evrópu yfir vetrarmánuðina. Hún fer reyndar nokkuð seint, einstaka hópar finnast hér alveg fram í nóvember og suma milda vetur hafa jafnvel sést einstaka fuglar allan veturinn. Rúmlega helmingur af öllum lóum í heiminum verpir á Íslandi, eða um 300.000 varppör.