Matsala, kaffihús og bar
Vinkonurnar Sara Jónsdóttir og Lovísa Vattnes Bryngeirsdóttir hófu rekstur á Kaffi Norðurfirði á síðasta ári í gömlu verbúðinni í Norðurfirði. Að þeirra sögn gengur reksturinn vel og vinnan í kringum það fjölbreytt og skemmtileg.
„Veitingasalan er opin frá 1. júní til 31. ágúst en við erum að hugsa um að lengja tímabilið í báða enda og búin að gera þriggja ára samning um reksturinn,“ segir Sara.
Alls konar fólk
Lovísa segir að gestirnir sem komi séu ferðamenn og heimafólk í bland.
„Hingað koma oft gönguhópar sem eru að ganga Strandirnar, sjómenn sem gera út á strandveiðar héðan frá Norðurfirði, ættingjar fólksins sem býr í sveitinni og bara alls konar fólk.“
Sara og Lovísa segjast hafa heyrt utan að sér að það vantaði manneskju til að reka veitingasölu í Norðurfirði og ákveðið að sækja um og frétt 10. mars í fyrra að umsóknin þeirra hefði verið samþykkt.
„Við settum því allt á fullt og sjáum ekki eftir því.“
Lovísa hafði aldrei komið í Árneshrepp áður en Sara nokkrum sinnum þegar dóttir hennar dvaldist í Djúpavík og þekkti því lítillega til.
„Ég gersamlega heillaðist af sveitinni og langaði strax að vera hér enda sveitin ótrúlega falleg,“ segir Sara. Að sögn þeirra stalla er Kaffi Norðurfjörður fyrst og fremst matsölustaður en líka kaffihús og bar.
„Við erum með matseðil þar sem boðið er upp á fisk, lambakjöt, hamborgara og samlokur svo dæmi séu nefnd. Hér er líka boðið upp á flottar kökur sem bakaðar eru á staðnum með kaffinu og boltann á skjá og bjór með.“