Audi Q7 er stór og virðulegur jepplingur sem kemst langt á rafmagninu. Hann er fágaður og fullur af staðalbúnaði.
Audi Q7 er stór og virðulegur jepplingur sem kemst langt á rafmagninu. Hann er fágaður og fullur af staðalbúnaði.
Mynd / ál
Líf og starf 14. nóvember 2024

Með öfluga bensínvél og stórt batterí

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu Audi Q7 sem er stór og vel útbúinn jepplingur frá Þýskalandi. Hér er á ferðinni ökutæki með öflugri bensínvél að auki við rafmótor og stórt hleðslubatterí.

Audi Q7 er með virðulegt útlit, sérstaklega þetta tiltekna eintak sem var svart að lit. Ekki skal undra að forsetaembættið hafi verið með svona bíl í sinni þjónustu. Línurnar eru skarpar og bíllinn langur, en eitt helsta einkennið er firnastórt grillið framan á bílnum.

Ökutækið er ágætlega vel útbúið, en eintakið í þessum prufuakstri var af ódýrustu gerð Q7 sem Hekla býður upp á og nefnist Design 55TFSIe. Þrátt fyrir að bíllinn sé nýkominn úr verksmiðjunni ber hann þess merki að vera nokkuð gamall, enda þessi gerð Q7 í grunninn sú sama og kom á markað árið 2016 með andlitslyftingu árið 2020. Í byrjun þessa árs fékk Q7 stærri rafhlöðu og uppfært útlit á grilli.

Ökutækið er langt og með mikið pláss. Hér er loftpúðafjöðrunin í hæstu stöðu.

Mjúkt leðurlíki víða

Þegar sest er um borð tekur á móti manni afar smekkleg innrétting sem er vönduð og úthugsuð. Sætin eru klædd mjúku leðurlíki og má finna sambærilegt efni víða í farþegarýminu. Þar má nefna í hurðaspjöldunum, ofan á mælaborðinu og á stýrishjólinu. Miðstöðvarristin nær þvert yfir innréttinguna og framan á mælaborðinu er glansandi svart plast.

Í miðju mælaborðsins eru tveir skjáir. Sá neðri sér aðallega um miðstöðina á meðan sá efri er hinn eiginlegi margmiðlunarskjár. Sennilega hefði farið betur á því ef Audi hefði boðið upp á raunverulega hnappa fyrir miðstöðina þar sem notkun skjás tekur alltaf einbeitinguna frá akstrinum.

Snertiskjáirnir eru öðruvísi en í flestum bílum að því leyti að það þarf að ýta frekar fast og þá kemur smellur. Það venst fljótt og hefur þann kost að hægt er að beita skjánum íklæddur hönskum. Sjálft kerfið er ekki leiftursnöggt og er mjög greinilegt að þetta er í grunninn nokkuð gamalt stýrikerfi þó svo að viðmótið sé fallegt.

Bluetooth tengingin við símann var ekki snurðulaus í þessum prufuakstri, en þegar kveikt var á bílnum fór hann ekki að spila tónlist af Spotify hjálparlaust eins og er algengt í nýjum bílum. Audi fær hins vegar plús í kladdann fyrir að vera með flýtihnappa sem styttir leiðina til að slökkva á hámarkshraðapípinu sem er skylda í nýjum bílum.

Eins og áður segir er þetta ódýrasta gerðin sem boðið er upp á hér á landi og með allan nauðsynlegan staðalbúnað. Það sem undirritaður saknaði þó helst var 360 gráðu myndavél sem kemur með týpunni fyrir ofan, en eigendur þessarar gerðar þurfa að láta einfalda bakkmyndavél og fjarlægðarskynjara duga. Þegar svona stórum bíl er lagt í þröng stæði er mikill kostur að sjá mynd allt í kring, enda oft erfitt að átta sig á hvað er að gerast handan húddsins.

Á sætunum og um alla innréttingu má finna svart leðurlíki.

Hljóðlátur og mjúkur

Framsætin eru stór og mjúk með vönduðu áklæði og fjölmarga stillimöguleika. Aftursætin eru ekki síður rúmgóð fyrir þrjá einstaklinga af öllum stærðum og gerðum. Þegar kemur að akstri er Audi Q7 hljóðlátur með eindæmum og mjúkur, þökk sé loftpúðafjöðruninni. Það heyrist í bensínvélinni þegar hún fer í gang, en niðurinn af henni er vinalegur og titringurinn í lágmarki.

Saman skila bensínvélin og rafmótorinn 394 hestöflum og er bíllinn snöggur að ná umferðarhraða þegar stigið er á inngjöfina. Sjálfskiptingin er afar mjúk og veit ökumaðurinn varla af henni. Ökutækið er með akstursaðstoð, en það er greinilegt að hún er af eldri kynslóð og þarf ökumaðurinn alltaf að sjá um að keyra. Bíllinn grípur inn í ef rásað er út fyrir hvítu línurnar, en heldur ekki beinni akstursstefnu hjálparlaust. Skynvæddi hraðastillirinn heldur réttri fjarlægð frá næsta bíl af miklu öryggi.

Skott eins og í stórum jeppa. Undir gólfinu er rafhlaðan.

Rúmir áttatíu kílómetrar á rafmagni

Þessi bíll kemur með býsna stóra rafhlöðu miðað við tengitvinnbíla og á að ná allt að 82 kílómetra akstursdrægni á rafmagninu einu saman. Bensíneyðslan getur verið sáralítil og sá undirritaður eyðslutölur undir einum lítra á hundrað kílómetra.

Þrátt fyrir að rafhlaðan hafi ekki verið hlaðin lengi getur bíllinn keyrt á rafmagni á lægri hraða og í innanbæjarumferð sem heldur aftur af eldsneytisnotkuninni. Svona plug-in-hybrid bílar henta helst þeim sem hafa aðstöðu til að hlaða oft því að eldsneytiseyðsla þessarar þriggja lítra V6 bensínvélar getur verið drjúg án stuðnings frá rafmagni.

Aftursætin rúma þrjá stóra farþega.
Að lokum

Helstu mál Audi Q7 eru í millimetrum: Hæð, 1.735; lengd, 5.071; breidd, 1970. Þessi bíll kostar 14.690.000 krónur, en væntanlegir kaupendur þurfa að hafa í huga að ýmislegt flott fæst fyrir þann pening eða minna. Til að mynda rafmagnsbílarnir Audi Q6 og Audi Q8. Í beinum samanburði við aðra tengitvinnbíla fæst Audi Q7 á lægra verði en BMW X5, en staðalbúnaðurinn er ekki endilega sá sami milli gerða.

Eins og kom fram hér að framan ber Audi Q7 þess merki að hafa fyrst komið á markað fyrir tæpum áratug. Það þarf hins vegar ekki endilega að vera ókostur því ekki er ósennilegt að væntanlegir kaupendur Audi Q7 séu íhaldssamir rétt eins og framleiðandinn sjálfur. Þá er ekki víst að ökutæki með stórum bensínvélum verði á hverju strái innan fárra missera. Nánari upplýsingar fást hjá Heklu bílaumboði.

Með öfluga bensínvél og stórt batterí
Líf og starf 14. nóvember 2024

Með öfluga bensínvél og stórt batterí

Bændablaðið fékk til prufu Audi Q7 sem er stór og vel útbúinn jepplingur frá Þýs...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...

Hrafntinna afmælisbarn
Líf og starf 6. nóvember 2024

Hrafntinna afmælisbarn

Nafn: Hrafntinna Ögmundsdóttir.

Mikilvægustu kosningamál bænda
Líf og starf 6. nóvember 2024

Mikilvægustu kosningamál bænda

Þegar líður að kosningum skiptir máli að vita hvaða málefni brenna á bændum. Bæn...

Auðnutittlingur
Líf og starf 6. nóvember 2024

Auðnutittlingur

Auðnutittlingur er lítill og fíngerður fugl af finkuætt. Hann er langalgengasta ...