Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Nýja byggingin er um 710 fm að stærð en þar verður þjónusta við gesti þjóðgarðsins, sýning, veitingaaðstaða, skrifstofur og fleira. Kostnaður við bygginguna var um 600 milljónir króna en hún var hönnuð af Arkís arkitektum, sem unnu hönnunarsamkeppni árið 2006.
Nýja byggingin er um 710 fm að stærð en þar verður þjónusta við gesti þjóðgarðsins, sýning, veitingaaðstaða, skrifstofur og fleira. Kostnaður við bygginguna var um 600 milljónir króna en hún var hönnuð af Arkís arkitektum, sem unnu hönnunarsamkeppni árið 2006.
Mynd / Aðsendar
Líf og starf 8. maí 2023

Ný þjóðgarðsmiðstöð opnuð á Hellissandi

Höfundur: Magnús Hlynur Hreiðarsson

Ný þjóðgarðsmiðstöð hefur verið opnuð á Hellissandi. Hákon Ásgeirsson, þjóðgarðsvörður Snæfellsjökulsþjóðgarðs, segir miðstöðina hafa mikla þýðingu, bæði fyrir þjóðgarðinn og samfélagið allt á Snæfellsnesi.

Hákon Ásgeirsson, sem tók við starfi þjóðgarðsvarðar í júlí á síðasta ári. Áður starfaði hann í þjóðgarðinum sumrin 2006-2009 og 2011 sem sumarlandvörður.

„Þegar við vorum að vinna hugmyndavinnu með fulltrúum hér úr samfélaginu um hvernig sýningu ætti að setja upp í húsinu, þá snerist umræða að miklu leyti um það hvernig húsið nýtist samfélaginu. Eftir vinnuna með hugmyndavinnuhópnum héldum við fundi með fulltrúum í nærsamfélaginu, þ.e. frá fræðasamfélaginu, skólunum á svæðinu og fulltrúum frá Snæfellsbæ. Umræðan var um hvernig þjóðgarðsmiðstöðin nýtist í heimabyggð,“ segir Hákon.

Samkeppni um hönnun sýningar

Að sögn Hákons er verið að setja upp sýningu, hönnuð af Antoni Illugasyni, sem áætlað er að verði fullbúin fyrir sumarið 2024. Samkeppni verður um hönnun sýningarinnar, sem fer í útboð á næstunni. Í húsinu verður einnig veitingasala sem verður boðin út. Þá verður minjagripasala og fræðslurými til að taka á móti skólahópum á öllum stigum. Einnig verður rými fyrir tímabundnar sýningar um sögu, listir og vísindi.

Hægt verður að halda ýmiss konar viðburði, eins og ráðstefnur og fundi, í nýja húsnæðinu.

„Okkar von er að þetta verði ekki bara gestastofa fyrir gesti þjóðgarðsins, heldur einnig fræðahús og félagsmiðstöð. Að hér vilji fólk koma aftur og aftur, eiga stund saman, hvort sem það eru skólahópar í fræðslu eða bara til að hittast yfir kaffibolla hér í tilvonandi veitingaaðstöðu og spjalla um mikilvæg málefni eins og veðrið. Stefnt er á að þjóðgarðsmiðstöðin verði opin alla daga allt árið um kring.

Einnig er í húsinu skrifstofa þjóðgarðsins og erum við alsæl með þá aðstöðu, það er góður andi í húsinu,“segir Hákon.

Fjölbreytilegur þjóðgarður

Snæfellsjökulsþjóðgarður var stofnaður 28. júní árið 2001 í þeim tilgangi að vernda bæði sérstæða náttúru svæðisins og merkilegar sögulegar minjar. Þjóðgarðurinn er 183 ferkílómetrar að stærð, staðsettur vestast á Snæfellsnesi og er fyrsti þjóðgarður landsins sem nær að sjó.

Eins og margir vita er strönd Snæfellsness fjölbreytileg þar sem skiptast á grýttir vogar, strendur með ljósum eða svörtum sandi og snarbrattir sjávarhamrar með iðandi fuglalífi yfir varptímann. Láglendið innan þjóðgarðsins er að mestu hraun sem víðast er þakið mosa en inn á milli má finna skjólsæla bolla með gróskumiklum gróðri.

Snæfellsjökull, eitt formfegursta fjall landsins, trónir tígulega í þjóðgarðinum. Jökullinn er virk eldkeila sem hefur hlaðist upp í mörgum hraun- og sprengigosum á síðustu 800 þúsund árum. Síðast gaus í jöklinum fyrir um 1.800 árum og var það stórgos.

„Eldstöðvakerfið, sem kennt er við Snæfellsjökul, sýnir menjar eftir einstæð eldsumbrot, bæði frá síðasta jökulskeiði og eftir að ísöld lauk. Þessar fjölbreyttu jarðmyndanir gera þjóðgarðinn einstakan. Suðurhlíðar jökulsins eru sérstæðar en Háahraun og Svartahraun eru gróf apalhraun, við Svalþúfu og Lóndranga má sjá þversnið gjóskugígs, Purkhólahraun er eitt hellaauðugasta hraun landsins og ströndin frá Malarrifi að Hólahólum er prýdd margs konar hraunmyndunum,“ segir Hákon um leið og hann vekur athygli á því að innan þjóðgarðsins er að finna merkar menningarminjar frá tímum árabátaútgerðar, til að mynda kjalför báta í sjávarklöppum, fiskbyrgi, fiskreiti og rústir. Rústir bændabýla, jafnvel allt frá söguöld, eru einnig greinilegar. Gamlar þjóðleiðir liggja um þjóðgarðinn og með sumum þeirra eru fallega hlaðnar vörður.

Svæðið kemur einnig mjög við sögu í skáldskap og listum, innanlands og utan.

Starfsfólk þjóðgarðsins, frá vinstri: Mandy Nachbar þjónustufulltrúi, Guðmundur Jensson landvörður, Eva Dögg Einarsdóttir yfirlandvörður, Rut Ragnarsdóttir þjónustustjóri, Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, sem opnaði formlega nýju þjóðgarðsmiðstöðina, Hákon Ásgeirsson þjóðgarðsvörður og Páll Marel Jónsson landvörður.

450 þúsund gestir

Metfjöldi gesta heimsótti Snæfellsjökulsþjóðgarð árið 2019, alls 450.000 manns. Í fyrra voru gestirnir 350.000 talsins. „Við gerum ráð fyrir miklum fjölda gesta í sumar því fleiri skemmtiferðaskip hafa bókað komu sína í Grundarfjörð en áður, eða 65 skip með um 65.000 farþega. Við teljum okkur vera vel undirbúin að taka á móti þeim og ný þjóðgarðsmiðstöð hjálpar þar til. Með henni munu gestir vonandi dreifast meira um svæðið og álag á Malarrif minnkar yfir háannatímann, en þar fer fjöldinn stundum yfir það sem sú gestastofa getur borið. Þá bætast við tíu salerni í þjónustu okkar en það hefur verið áskorun allt til dagsins í dag að hafa nóg af salernum. Þá hefur mikið verið byggt upp af innviðum í þjóðgarðinum og því er svæðið vel í stakk búið að taka á móti gestum án þess að það hafi neikvæð áhrif á náttúruna. En áfram verður gert betur í þeim efnum,“ segir Hákon.

Enginn dagur eins

Það eru eflaust einhverjir sem velta því fyrir sér hvert hlutverk þjóðgarðsvarðar sé og hvað sé skemmtilegast við starfið. „Það eru þau forréttindi að standa vörð um íslenska náttúru. Enginn dagur er eins í starfi þjóðgarðsvarðar. Starfið er að stórum hluta samskipti við alls konar fólk, ráðuneyti, stofnanir, sveitarfélög, ferðaþjónustufyrirtæki, gesti þjóðgarðsins og síðast en ekki síst fólkið á Snæfellsnesi. Meginhlutverk þjóðgarða er að vernda náttúru en um leið að fræða fólk um náttúruna, sögu og mikilvægi náttúruverndar. Eitt það skemmilegasta í mínu starfi er fræðsluhlutverkið. Það er ekkert skemmtilegra en að fara með gesti þjóðgarðsins í göngu og tengja þá náttúrunni. Það er ekkert fallegra en það ef það tekst. Þegar ég fékk New York búann til að fara úr skónum í móanum, sleppa tökum á símanum, loka augunum og virkja öll skynfæri, tærnar í grasinu, ilmur af blómstrandi brönugrasi og ekkert hljóð nema vellið í spóanum. Þetta var ein stórkostlegasta upplifun sem New York búinn hafði upplifað,“ segir Hákon skælbrosandi.

Smyrill
Líf og starf 20. nóvember 2024

Smyrill

Smyrill er minnsti og jafnframt algengasti ránfuglinn á Íslandi. Hann er nokkuð ...

Róbóti í stuði
Líf og starf 19. nóvember 2024

Róbóti í stuði

Róbótar Internetsins verða betri og betri í bridds. Þeir eru reyndar oft slakir ...

Förum okkur hægar
Líf og starf 18. nóvember 2024

Förum okkur hægar

Mikið hefur verið fjallað um „fast fashion“ eða hraðtísku í fjölmiðlum sl. ár, þ...

Íslandsmót skákfélaga
Líf og starf 15. nóvember 2024

Íslandsmót skákfélaga

Árlega eru haldin tvö mjög fjölmenn skákmót á Íslandi, Íslandsmót skákfélaga og ...

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók
Líf og starf 13. nóvember 2024

Íslensku hreindýrin í nýrri ljósmyndabók

Út er komin ljósmyndabókin Á slóðum íslenskra hreindýra í fylgd með Skarphéðni G...

Nautaskankar
Líf og starf 13. nóvember 2024

Nautaskankar

Þverskornir nautaskankar, oft ranglega merktir sem Osso Buco, eru ekki oft í hil...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 11. nóvember 2024

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn hefur sjaldan verið óþreyjufyllri en þarf að hægja á sér ef vel á að...

Metnaðarfullt umhverfi
Líf og starf 8. nóvember 2024

Metnaðarfullt umhverfi

Lífið á garðyrkjustöðinni Espiflöt í Reykholti er litríkt. Næstu daga geta lesen...